Friðarboðberar Guðs lýstir sælir
„Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim.“ — JESAJA 35:10.
1. Hvers þarfnast heimurinn sárlega?
MEIR en nokkru sinni fyrr þarfnast mannkynið fagnaðarboða. Það er brýn þörf að einhver segi sannleikann um Guð og fyrirætlanir hans, að óhræddur vottur vari hina óguðlegu við komandi eyðingu og hjálpi hjartahreinum mönnum að finna frið Guðs.
2, 3. Hvernig stóð Jehóva við loforð sitt til Ísraels í Amosi 3:7?
2 Á dögum Ísraels til forna lofaði Jehóva að sjá um að þess konar boðberar kæmu fram. Við lok níundu aldar f.o.t. sagði spámaðurinn Amos: „[Jehóva] Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“ (Amos 3:7) Á öldunum eftir þessa yfirlýsingu vann Jehóva mörg stórvirki. Árið 607 f.o.t. agaði hann útvalda þjóð sína harðlega af því að hún var uppreisnargjörn og blóðsek. Hann refsaði einnig þjóðunum umhverfis sem hlökkuðu yfir þjáningum Ísraels. (Jeremía 46.-49. kafli) Þá, árið 539 f.o.t., lét Jehóva hið volduga heimsveldi Babýlon falla, og af því leiddi síðan að leifar Ísraelsmanna sneru aftur heim í land sitt árið 537 f.o.t. til að endurreisa musterið. — 2. Kroníkubók 36:22, 23.
3 Þetta voru stórviðburðir, og í samræmi við orð Amosar opinberaði Jehóva þá fyrirfram spámönnum, sem voru boðberar hans, og varaði Ísrael við því sem koma skyldi. Á miðri áttundu öld f.o.t. vakti hann upp Jesaja. Á miðri sjöundu öld f.o.t. vakti hann upp Jeremía. Þá, undir lok þeirrar aldar, vakti hann upp Esekíel. Þessir trúföstu spámenn og fleiri báru rækilega vitni um tilgang Jehóva.
Að bera kennsl á boðbera Guðs núna
4. Hvað sýnir að mannkynið þarfnast friðarboðbera?
4 Hvað um okkar tíma? Mörgum í heiminum finnst hnignun mannlegs samfélags vera fyrirboði einhvers. Þeir sem elska réttlætið fá sting í hjartað þegar þeir sjá hræsni og hreina og beina mannvonsku kristna heimsins. Eins og Jehóva spáði fyrir munn Esekíel „andvarpa [þeir] og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru inni í“ honum. (Esekíel 9:4) Hins vegar gera margir sér ekki ljóst hverjar fyrirætlanir Jehóva eru. Það þarf að segja þeim það.
5. Hvernig sýndi Jesús fram á að til yrðu boðberar á okkar dögum?
5 Talar einhver nú á tímum opinskátt og óttalaust í anda þeirra Jesaja, Jeremía og Esekíels? Jesús gaf til kynna að einhver myndi gera það. Þegar hann spáði fyrir um atburði okkar daga sagði hann: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Hver uppfyllir þennan spádóm nú á tímum, þjónar sem boðberi og prédikari fagnaðarerindisins? Það er margt líkt með okkar dögum og tímum Ísraels til forna sem hjálpar okkur að svara þessari spurningu.
6. (a) Hvað dreif á daga Ísraels Guðs í fyrri heimsstyrjöldinni. (b) Hvernig rættist Esekíel 11:17 á Forn-Ísrael?
6 Á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar var nútímafólk Jehóva, leifar hins smurða ‚Ísraels Guðs,‘ hneppt í ánauð líkt og Ísrael í Babýlon. (Galatabréfið 6:16) Það mátti þola andlega útlegð í Babýlon hinni miklu, heimssamsteypu falskra trúarbragða með kristna heiminn fremstan í flokki. Engu að síður sýna orð Jehóva til Esekíels að fólk hans var ekki yfirgefið. Hann sagði: „Ég vil safna yður saman frá þjóðunum og stefna yður saman frá löndunum, þangað sem yður var dreift, og gefa yður Ísraelsland.“ (Esekíel 11:17) Til þess að standa við þetta fyrirheit gagnvart Forn-Ísrael vakti Jehóva upp Kýrus Persakonung sem vann babýlonska heimsveldið og opnaði leiðina fyrir leifar Ísraelsmanna að snúa aftur heim í land sitt. En hvað gerðist á okkar dögum?
7. Hvaða atburður árið 1919 sýndi að Jesús hefði látið til skarar skríða gegn Babýlon hinni miklu? Skýrðu svarið.
7 Snemma á þessari öld mátti sjá kröftugan vitnisburð þess að hinn meiri Kýrus væri að störfum. Hver var hann? Enginn annar en Jesús Kristur sem setið hefur í himnesku hásæti Guðsríkis síðan árið 1914. Þessi mikli konungur sýndi smurðum bræðrum sínum á jörðinni velvild þegar þeir voru leystir úr andlegri ánauð árið 1919 og sneru aftur heim í „land“ sitt, andlegt óðal sitt. (Jesaja 66:8; Opinberunarbókin 18:4) Á þann hátt rættist Esekíel 11:17 í nútímanum. Til forna þurfti Babýlon að falla til að opna Ísraelsmönnum leiðina heim í land sitt á ný. Endurreisn Ísraels Guðs nú á tímum var sönnun um að Babýlon hin mikla hefði fallið fyrir hendi hins meiri Kýrusar. Annar engillinn í 14. kafla Opinberunarbókarinnar kunngerði þetta fall þegar hann hrópaði hárri röddu: „Fallin er, fallin er Babýlon hin mikla, sem byrlað hefur öllum þjóðum af reiði-víni saurlifnaðar síns.“ (Opinberunarbókin 14:8) Hvílík umskipti fyrir Babýlon hina miklu, einkum fyrir kristna heiminn! Og hvílík blessun fyrir sannkristna menn!
8. Hvernig lýsir Esekíelsbók hamingju fólks Guðs eftir frelsun þess árið 1919?
8 Í Esekíel 11:18-20 lesum við lýsingu spámannsins á hamingju fólks Guðs eftir frelsun þess og endurreisn. Fyrsta uppfylling þessara orða átti við hreinsun Ísraelsmanna á dögum Esra og Nehemía. Nútímauppfyllingin þýddi eitthvað svipað. Við skulum sjá hvernig. Jehóva segir: „Þangað [í land sitt] munu þeir komast og útrýma þaðan öllum viðurstyggðum þess og öllum svívirðingum þess.“ Eins og spáð hafði verið hóf Jehóva árið 1919 að hreinsa fólk sitt og veita því kraft á ný til að þjóna sér. Þjónar hans tóku að losa andlegt umhverfi sitt við alla babýlonska siði og kenningar sem óhreinkuðu þá í augum hans.
9. Hvaða þýðingarmikla blessun veitti Jehóva fólki sínu frá og með 1919?
9 Í versi 19 segir Jehóva síðan: „Og ég mun gefa þeim nýtt [„eitt,“ NW] hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta af holdi.“ Í samræmi við þessi orð sameinaði Jehóva smurða þjóna sína árið 1919, gaf þeim „eitt hjarta“ ef svo má segja, til þess að þeir þjónuðu honum „einhuga.“ (Sefanía 3:9) Þar að auki gaf Jehóva fólki sínu heilagan anda til að veita því kraft í vitnisburðarstarfinu og til að þroska hjá því hinn góða ávöxt sem lýst er í Galatabréfinu 5:22, 23. Og í stað ómóttækilegs hjarta, eins og úr steini, gaf Jehóva því mjúkt, auðsveipt og hlýðið hjarta sem bregðast myndi vel við vilja hans.
10. Af hverju hefur Jehóva blessað endurreist fólk sitt frá 1919?
10 Hvers vegna gerði Jehóva þetta? Hann útskýrir það sjálfur eins og við lesum í Esekíel 11:20: „Til þess að þeir hlýði boðorðum mínum og varðveiti setninga mína og breyti eftir þeim. Og þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.“ Ísrael Guðs lærði að hlýða lögum Jehóva í stað þess að fylgja sínum eigin hugmyndum. Hinir smurðu lærðu að gera vilja Guðs án ótta við menn og aðgreindu sig þannig frá gervikristnum mönnum kristna heimsins. Þeir voru þjóð Jehóva og hann var reiðubúinn að nota þá sem boðbera sinn, sem hinn ‚trúa og hyggna þjón.‘ — Matteus 24:45-47.
Hamingja boðbera Guðs
11. Hvernig lýsir Jesajabók hamingju fólks Jehóva?
11 Geturðu séð fyrir þér hamingju þeirra þegar þeir gerðu sér ljóst hvílíkrar sérréttindastöðu þeir nutu? Sem hópur endurómuðu þeir orðin í Jesaja 61:10: „Ég gleðst yfir [Jehóva], sál mín fagnar yfir Guði mínum.“ Fyrirheitið í Jesaja 35:10 rættist á þeim: „Hinir endurkeyptu [Jehóva] skulu aftur hverfa. Þeir koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.“ Slík var hamingja friðarboðbera Jehóva árið 1919 er þeir hófust handa við að prédika öllu mannkyni fagnaðarerindið. Þaðan í frá hafa þeir ekki látið af að sinna þessu verkefni og hamingja þeirra hefur aukist. Jesús sagði í fjallræðunni: „Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.“ (Matteus 5:9) Leifar hinna smurðu ‚Guðs barna‘ hafa fengið að reyna sannleiksgildi þessara orða frá árinu 1919 og allt fram á þennan dag.
12, 13. (a) Hverjir gengu til liðs við Ísrael Guðs í þjónustu Jehóva og hvað lögðu þeir sig fram við? (b) Hvaða mikillar gleði hafa smurðir þjónar Jehóva notið?
12 Ísrael Guðs fjölgaði fram á fjórða áratuginn þegar samansöfnun þeirra sem eftir voru af hinum smurðu var næstum lokið. Hætti boðberum fagnaðarerindisins þá að fjölga? Langt frá því. Mikill múgur kristinna manna með jarðneska von var kominn fram á sjónarsviðið og þeir voru fljótir að ganga til liðs við smurða bræður sína í boðun fagnaðarerindisins. Jóhannes postuli sá þennan mikla múg í sýn og athyglisvert er hvernig hann lýsir honum: „Þeir [eru] frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt.“ (Opinberunarbókin 7:15) Já, hinn mikli múgur hófst tafarlaust handa við að þjóna Guði. Afleiðingin varð sú að þegar hinum smurðu fór að fækka upp úr 1935 héldu þessir trúföstu félagar þeirra vitnisburðarstarfinu áfram af auknum krafti.
13 Á þennan hátt uppfylltist Jesaja 60:3, 4: „Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér. Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni.“ Hamingjunni, sem þessi framvinda mála veitti Ísrael Guðs, er fagurlega lýst í Jesaja 60:5 þar sem við lesum: „Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.“
Skipulag Jehóva sækir fram
14. (a) Hvaða himneska hluti sá Esekíel í sýn og hvaða fyrirmæli fékk hann? (b) Hvað gerðu nútímaþjónar Jehóva sér ljóst og hvaða skyldukvöð fundu þeir fyrir?
14 Í mikilfenglegri sýn árið 613 f.o.t sá Esekíel himneskt skipulag Jehóva á ferðinni eins og stríðsvagn. (Esekíel 1:4-28) Því næst sagði Jehóva við hann: „Þú mannsson, far nú til Ísraelsmanna og tala mínum orðum til þeirra.“ (Esekíel 3:4) Við skynjum að himneskt skipulag Jehóva er enn á ferðinni núna, árið 1997, og stefnir jafnt og þétt að því að láta tilgang hans ná fram að ganga. Þar af leiðandi finnum við okkur enn þá knúin til að segja öðrum frá þessum tilgangi. Á sínum tíma mælti Esekíel fram orð sem Jehóva innblés honum beint. Nú á tímum mælum við fram orð frá innblásnu orði Jehóva, Biblíunni. Og hvílíkan boðskap hefur ekki bókin sú fyrir mannkynið! Þó að margir hafi áhyggjur af framtíðinni sýnir Biblían að málin standa miklu verr — og á sama tíma miklu betur — en þeir gera sér í hugarlund.
15. Af hverju er ástandið verra en margir halda?
15 Eins og fram kom í greinunum á undan standa málin verr sökum þess að kristna heiminum og öllum öðrum falstrúarbrögðum verður bráðlega gereytt eins og Jerúsalem árið 607 f.o.t. Og ekki nóg með það heldur er þess skammt að bíða að stjórnmálakerfi heimsins í heild, er Opinberunarbókin lýsir sem villidýri með sjö höfuð og tíu horn, verði þurrkað út eins og gert var við marga hinna heiðnu nágranna Jerúsalem. (Opinberunarbókin 13:1, 2; 19:19-21) Á dögum Esekíels gaf Jehóva ljóslifandi lýsingu á þeirri skelfingu sem menn myndu fyllast við hina komandi eyðingu Jerúsalem. En orð hans munu hafa miklu meiri merkingu þegar fólk skynjar yfirvofandi eyðingu þessa heims. Jehóva sagði við Esekíel: „Þú, mannsson, styn þungan. Mjaðmir þínar engist saman, og styn af sárri kvöl í augsýn þeirra. Og er þeir þá segja við þig: ‚Af hverju stynur þú?‘ þá seg: ‚Yfir fregn nokkurri, sem svo er, að þegar hún kemur mun hvert hjarta bráðna, allar hendur verða lémagna, allur dugur dofna og öll kné leysast sundur og verða að vatni. Sjá, hún kemur og hún reynist sönn, — segir [Jehóva] Guð.‘“ (Esekíel 21:6, 7; Matteus 24:30) Ógnvekjandi atburðir eru rétt framundan. Djúp umhyggja okkar fyrir öðrum mönnum fær okkur til að vara þá við, segja ‚fregnina‘ af komandi reiði Jehóva.
16. Af hverju eru auðmjúkir menn miklu betur settir en margir halda?
16 Jafnframt eru auðmjúkir menn miklu betur settir en flestir ímynda sér. Á hvern hátt? Á þann hátt að Jesús Kristur er dáinn fyrir syndir okkar og ríkir nú sem konungur Guðsríkis. (1. Tímóteusarbréf 1:15; Opinberunarbókin 11:15) Þetta himneska ríki vinnur innan skamms bug á vandamálum mannkynsins sem virðast óleysanleg. Dauði, sjúkdómar, spilling, hungur og glæpir verða liðin tíð og Guðsríki mun mótstöðulaust stjórna paradís á jörð. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Allir menn munu njóta friðar Guðs — friðsamlegs sambands við Jehóva Guð og hver við annan. — Sálmur 72:7.
17. Hvaða aukning gleður hjörtu friðarboðbera Guðs?
17 Í sumum heimshlutum taka auðmjúkir menn hópum saman við þessum boðskap um frið Guðs. Til að nefna aðeins nokkur dæmi þá greindi Úkraína frá 17 prósenta aukningu boðbera á síðastliðnu ári. Mósambík skýrði frá 17 prósenta aukningu og Litháen 29 prósenta aukningu. Í Rússlandi var aukningin 31 prósent og í Albaníu fjölgaði boðberum um 52 prósent. Hér er um að ræða tugþúsundir hjartahreinna manna sem vilja njóta friðar Guðs og hafa skipað sér réttlætis megin. Slík hröð aukning gleður allt hið kristna bræðrafélag.
18. Hvernig eigum við að hugsa, hvort sem fólk hlustar eða ekki?
18 Bregst fólk á þínu starfssvæði svona fljótt og vel við boðskapnum? Ef svo er gleðjumst við með þér. Sums staðar þarf þó að eyða miklum kröftum og tíma í að finna jafnvel aðeins eina manneskju sem sýnir áhuga. Fara þeir sem starfa á slíkum svæðum að prédika með hangandi hendi eða missa þeir móðinn? Nei. Vottar Jehóva muna eftir orðum Guðs til Esekíels þegar hann fól spámanninum unga að prédika fyrir samlöndum sínum: „Hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum — því að þeir eru þverúðug kynslóð — þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra.“ (Esekíel 2:5) Eins og Esekíel höldum við áfram að segja fólki frá friði Guðs, hvort sem það hlustar eða ekki. Þegar það hlustar gleðjumst við innilega. En við þraukum þótt það snúi við okkur baki, hæðist að okkur eða jafnvel ofsæki okkur. Við elskum Jehóva og Biblían segir: „Kærleikurinn . . umber allt.“ (1. Korintubréf 13:4, 7) Fólk veit hverjir vottar Jehóva eru vegna þess að við prédikum með þolgæði. Menn vita hver boðskapur okkar er. Þegar endirinn kemur vita þeir að vottar Jehóva reyndu að hjálpa þeim að njóta friðar Guðs.
19. Hvaða mikilla sérréttinda njótum við sem þjónar hins sanna Guðs?
19 Eru til meiri sérréttindi en þau að þjóna Jehóva? Nei! Það sem veitir okkur mesta hamingju er samband okkar við Guð og vitundin um að við séum að gera vilja hans. „Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, [Jehóva].“ (Sálmur 89:16) Megum við alltaf meta mikils þá gleði að vera friðarboðberar Guðs á meðal mannanna. Megum við af dugnaði sinna okkar þætti í þessu starfi uns Jehóva segir að því sé lokið.
Manstu?
◻ Hverjir eru friðarboðberar Guðs nú á tímum?
◻ Hvernig vitum við að Babýlon hin mikla féll árið 1919?
◻ Hvað er ‚múginum mikla‘ efst í huga?
◻ Af hverju er framtíðin svartari en flestir halda?
◻ Af hverju er framtið hjartahreinna manna betri en þeir ímynda sér?
[Mynd á blaðsíðu 31]
Mörgum finnst hnignun mannlegs samfélags vera fyrirboði einhvers.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Friðarboðberar Guðs eru hamingjusömustu menn á jörðinni.