Ættirðu að trúa á endurholdgun?
GRÍSKI heimspekingurinn Platón tengdi ástina endurholdgunarhugmyndinni. Hann trúði að eftir líkamsdauðann flyttist sálin, sem væri ódauðleg, yfir á svið sem kallað hefur verið „frummyndaheimurinn.“ Þar dvelst hún án líkama um tíma og íhugar frummyndirnar. Þegar sálin síðan endurfæðist í öðrum líkama man hún óljóst eftir frummyndaheiminum og þráir hann. Að sögn Platóns verður fólk ástfangið af því að það sér í ástvinum sínum hina fullkomnu fegurð sem það man óljóst eftir og er að leita að.
Uppruninn og undirstaðan
Til að endurholdgunarkenningin standist þarf sálin að vera ódauðleg. Því hlýtur að mega rekja uppruna endurholdgunarkenningarinnar til þjóða eða þjóðflokka sem höfðu slíka trú. Sumir telja þar af leiðandi að kenningin sé upprunnin í Egyptalandi fortíðar. Aðrir álíta að hún eigi upptök sín í Babýloníu til forna. Prestar Babýlonar reyndu að afla trú sinni virðingar með því að kenna sálnaflakk. Þannig gátu þeir haldið því fram að trúarhetjur þeirra væru löngu látnir merkismenn endurholdgaðir.
En það var á Indlandi sem endurholdgunartrúin náði að blómgast. Spekingar hindúa voru að glíma við hina almennu ráðgátu um illsku og þjáningar meðal manna, hvernig slíkt komi heim og saman við hugmyndina um réttlátan skapara. Þeir reyndu að skýra misræmið milli réttlætis Guðs og hinna ófyrirsjáanlegu skakkafalla og misréttis í heiminum. Þeir upphugsuðu „karmalögmálið,“ lögmál orsakar og afleiðingar — ‚maðurinn uppskeri eins og hann sái.‘ Þeir gerðu sér ítarlegan ‚efnahagsreikning‘ yfir kosti og ávirðingar í lífi manna sem umbunað sé fyrir eða refsað í því næsta.
„Karma“ merkir einfaldlega „gerðir.“ Hindúi er sagður eiga gott karma ef hann fylgir þjóðfélagslegum og trúarlegum venjum og slæmt karma ef hann gerir það ekki. Gerðir hans eða karma ákvarða framtíð hans við hverja endurfæðingu. „Allir menn fæðast með persónueinkenni sem byggjast aðallega á verkum þeirra á fyrri tilverustigum, enda þótt líkamseinkenni ákvarðist af erfðum,“ segir heimspekingurinn Nikhilananda. „Maður er [því] höfundur hlutskiptis síns, smiður örlaga sinna.“ En hið endanlega markmið er að frelsast úr þessari sálnaflakkshringrás og sameinast Brahman — hinum æðsta veruleika. Talið er að menn nái þessu stigi með því að keppa að hegðun sem þjóðfélagið viðurkennir og sækjast eftir sérstakri þekkingu hindúatrúarinnar.
Undirstaða endurholdgunarkenningarinnar er því kenningin um ódauðleika sálarinnar, og hún byggir á henni með því að beita karmalögmálinu. Við skulum sjá hvað innblásið orð Guðs, Biblían, segir um þessar hugmyndir.
Er sálin ódauðleg?
Til að svara þeirri spurningu skulum við leita til æðstu heimildar um málið — innblásins orðs skaparans. Í fyrstu bók Biblíunnar, 1. Mósebók, kynnumst við nákvæmri merkingu hugtaksins „sál.“ Biblían segir um sköpun fyrsta mannsins, Adams: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ (1. Mósebók 2:7) Ljóst er að maðurinn hefur ekki sál heldur er sál. Biblían notar hér hebreska orðið neʹfesh. Það stendur um 700 sinnum í Biblíunni og er aldrei notað um óefniskenndan hluta mannsins, aðgreindan frá líkamanum, heldur alltaf um áþreifanlegt og efnislegt fyrirbæri. — Jobsbók 6:7, NW; Sálmur 35:13, NW; 107:9; 119:28.
Hvað verður um sálina við dauðann? Athugum hvað varð um Adam þegar hann dó. Þegar hann syndgaði sagði Guð honum: „Þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Hugleiddu hvað þetta merkir. Adam var ekki til áður en Guð skapaði hann af moldu. Við dauðann sneri Adam aftur til sama tilveruleysis.
Biblían kennir einfaldlega að dauðinn sé andstæða lífsins. Við lesum í Prédikaranum 5:9, 10: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“
Þetta þýðir að hinir dánu geta hvorki fundið til né gert nokkurn skapaðan hlut. Þeir hafa enga hugsun og muna ekkert. Sálmaritarinn segir: „Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt. Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform [„hugsun,“ NW] þeirra að engu.“ — Sálmur 146:3, 4.
Biblían bendir greinilega á að sálin flytjist ekki yfir í annan líkama við dauðann heldur deyi. „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja,“ segir Biblían með áhersluþunga. (Esekíel 18:4, 20; Postulasagan 3:23, Biblían 1912; Opinberunarbókin 16:3) Kenningin um ódauðleika sálarinnar — sjálf undirstaða endurholdgunarkenningarinnar — á sér því enga stoð í Ritningunni. Án hennar hrynur kenningin. Hvað skýrir þá þjáningarnar sem við sjáum í heiminum?
Hvers vegna þjáist fólk?
Meginástæðan fyrir þjáningum mannanna er ófullkomleikinn sem við öll erfum frá hinum synduga Adam. „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað,“ segir Biblían. (Rómverjabréfið 5:12) Þar sem við erum fædd af Adam veikjumst við öll, hrörnum og deyjum. — Sálmur 41:2, 4; Filippíbréfið 2:25-27.
Og hin óbreytanlegu siðferðislög skaparans segja: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera. Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun.“ (Galatabréfið 6:7, 8) Lauslæti getur valdið tilfinningakvöl, óæskilegri þungun og samræðissjúkdómum. „Þótt ótrúlegt sé má rekja 30 prósent banvænna krabbameina [í Bandaríkjunum] fyrst og fremst til reykinga, og álíka mörg til lífernis, einkum mataræðis og hreyfingarleysis,“ segir tímaritið Scientific American. Sum stórslys, sem valda þjáningum, stafa af rangri meðferð mannsins á auðlindum jarðar. — Samanber Opinberunarbókina 11:18.
Já, maðurinn ber að miklu leyti sök á bágindum sínum. En þar eð sálin er ekki ódauðleg er ekki hægt að nota lögmálið um að ‚maður uppskeri eins og hann sáir‘ til að tengja þjáningar mannsins við karma — gerðir hans í ímynduðu fyrra lífi. „Sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni,“ segir Biblían. (Rómverjabréfið 6:7, 23) Ávöxtur syndarinnar flyst því ekki milli tilverustiga eftir dauðann.
Satan djöfullinn veldur líka miklum þjáningum. Reyndar er þessi heimur undir stjórn hans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Og eins og Jesús Kristur sagði fyrir yrðu lærisveinar hans ‚hataðir af öllum vegna nafns hans.‘ (Matteus 10:22) Hinir réttlátu eiga því oft við meiri erfiðleika að glíma en hinir óguðlegu.
Í þessum heimi gerist ýmislegt sem ekki er hægt að benda á augljósa orsök fyrir. Fljótasti hlaupari getur hrasað og tapað í keppni. Öflugur her getur beðið ósigur fyrir veikari her. Vitrum manni getur mistekist að fá góða vinnu og liðið skort. Maður með frábæran skilning á stjórnun og rekstri getur verið fátækur af því að aðstæður hindra hann í að nýta þekkingu sína. Vitsmunamenn geta bakað sér reiði ráðamanna og fallið í ónáð. Af hverju? „Því að tími og tilviljun mætir þeim öllum,“ svarar hinn vitri konungur Salómon. — Prédikarinn 9:11.
Þjáningar voru hlutskipti mannkyns löngu áður en spekingar hindúa reyndu að útskýra tilvist þeirra. En er einhver von um betri framtíð? Og hvaða fyrirheit gefur Biblían hinum dánu?
Friðsæl framtíð
Skaparinn hefur lofað að binda bráðlega enda á núverandi samfélag manna sem er undir stjórn Satans. (Orðskviðirnir 2:21, 22; Daníel 2:44) Réttlátt nýtt mannfélag — ‚ný jörð‘ — verður þá að veruleika. (2. Pétursbréf 3:13) Þá mun „enginn borgarbúi . . . segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Kvöl dauðans mun meira að segja hverfa því að Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.
Sálmaritarinn sagði um íbúa nýja heimsins sem Guð hefur heitið: „Hinir réttlátu fá landið [eða jörðina] til eignar og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:29) Og hinir hógværu „gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:11.
Mukundbhai, sem nefndur var í greininni á undan, er sofnaður dauðasvefni án þekkingar á hinum stórfenglegu fyrirheitum Guðs. En milljónir manna, sem hafa dáið án þess að þekkja Guð, eiga í vændum að vakna í slíkum friðsælum, nýjum heimi því að Biblían lofar að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ — Postulasagan 24:15; Lúkas 23:43, NW.
Orðið ‚upprisa‘ er þýðing gríska orðsins anaʹstasis sem merkir bókstaflega „að standa upp aftur.“ Upprisa felur því í sér að endurvekja einstaklinginn til lífs.
Skapari himins og jarðar býr yfir óendanlegri visku. (Jobsbók 12:13) Hann á í engum vandræðum með að muna eftir hvernig látnir menn voru úr garði gerðir. (Samanber Jesaja 40:26.) Jehóva Guð er auðugur að kærleika. (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hann getur því notað fullkomið minni sitt, ekki til að refsa hinum dánu fyrir það vonda sem þeir hafa gert, heldur til að endurlífga þá í paradís á jörð með sama persónuleika og þeir höfðu áður en þeir dóu.
Milljónir manna eins og Mukundbhai rísa upp til að vera með ástvinum sínum aftur. En hugsaðu þér hvað upprisan getur þýtt fyrir þá sem lifa núna. Tökum son Mukundbhais sem dæmi en hann hefur kynnst hinum dásamlega sannleika um Guð og tilgang hans. Það er mjög hughreystandi fyrir hann að vita að faðir hans situr ekki fastur í næstum endalausri hringrás endurfæðinga þar sem hann þarf að búa við illsku og þjáningar aftur og aftur! Hann sefur einfaldlega dauðasvefni og bíður upprisu. Það er spennandi fyrir hann að hugleiða að hann skuli einn góðan veðurdag geta sagt föður sínum frá því sem hann hefur lært af Biblíunni.
Það er vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Núna er rétti tíminn til að kynnast því hvernig þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, ásamt milljónum annarra manna sem gera vilja Guðs nú þegar. — Jóhannes 17:3.
[Innskot á blaðsíðu 7]
„Tími og tilviljun mætir þeim öllum.“ — Prédikarinn 9:11.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Persónuleiki Guðs og karmalögmálið
„Karmalögmálið er óbreytanlegt og enginn kemst undan því,“ sagði Mohandas K. Gandhi. „Það er því varla nokkur þörf fyrir Guð að skerast í leikinn. Hann setti lögmálið og dró sig síðan í hlé, ef svo má segja.“ Gandhi var ósáttur við þessa skýringu.
Upprisufyrirheitið leiðir hins vegar í ljós að Guð hefur djúpstæðan áhuga á sköpunarverki sínu. Til að endurlífga mann í paradís á jörð þarf Guð að þekkja þennan mann til hlítar og muna eftir honum. Guð lætur sér sannarlega annt um eitt og sérhvert okkar. — 1. Pétursbréf 5:6, 7.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Hjól lífsins hjá hindúum.
[Mynd á blaðsíðu 8]
Orð Guðs boðar upprisu frá dauðum.