„Jehóva yfirgefur ekki fólk sitt“
„Margar eru raunir réttláts manns, en [Jehóva] frelsar hann úr þeim öllum.“ — SÁLMUR 34:20.
1, 2. (a) Hvernig blessar Jehóva fólk sitt nú á dögum? (b) Hverju standa margir kristnir menn frammi fyrir og hvaða spurningar vakna?
TILBIÐJENDUR Jehóva búa í andlegri paradís eins og Biblían spáði. (2. Korintubréf 12:1-4) Vottar Jehóva tilheyra alþjóðlegu bræðralagi sem einkennist af kærleika og einingu. (Jóhannes 13:35) Þeir búa yfir djúpri og yfirgripsmikilli þekkingu á sannleika Biblíunnar. (Jesaja 54:13) Þeir eru Jehóva innilega þakklátir fyrir þau sérréttindi að fá að gista í andlegu tjaldi hans. — Sálmur 15:1.
2 Enda þótt allir í skipulagi Jehóva búi við andlega velmegun og sumir njóti þokkalegs friðar og friðsældar verða aðrir fyrir erfiðleikum eða þjáningum af einu eða öðru tagi. Margir kristnir menn þola átakanlegar raunir um langt skeið og engin lausn virðist í sjónmáli. Það er eðlilegt að vera dapur og kjarklítill við slíkar aðstæður. (Orðskviðirnir 13:12) Eru erfiðleikar og raunir merki um vanþóknun Guðs? Veitir Jehóva sumum kristnum mönnum sérstaka vernd en yfirgefur aðra?
3. (a) Ber Jehóva ábyrgð á því mótlæti sem fólk hans verður fyrir? (b) Hvers vegna þjást jafnvel trúfastir tilbiðjendur Jehóva?
3 Biblían svarar: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ‚Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Jehóva verndar og viðheldur fólki sínu. (Sálmur 91:2-6) „Jehóva yfirgefur ekki fólk sitt.“ (Sálmur 94:14, NW) Það merkir ekki að trúfastir tilbiðjendur Guðs sleppi við þjáningar. Núverandi heimskerfi er stjórnað af mönnum sem eru ófullkomnir í eðli sínu. Margir eru spilltir og fáeinir hrein illmenni. Enginn þeirra leitar visku hjá Jehóva. Þetta veldur miklum mannlegum þjáningum. Biblían segir skýrt að fólk Jehóva geti ekki alltaf umflúið sorglegar afleiðingar illsku og ófullkomleika mannsins. — Postulasagan 14:22.
Drottinhollir kristnir menn búast við þjáningum
4. Hverju mega allir kristnir menn búast við svo lengi sem þeir búa í þessu illa heimskerfi og af hverju?
4 Enda þótt fylgjendur Jesú séu ekki hluti af heiminum búa þeir í þessu heimskerfi. (Jóhannes 17:15, 16) Satan er afhjúpaður í Biblíunni sem hið ráðandi afl að baki þessum heimi. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Allir kristnir menn mega því fyrr eða síðar búast við alvarlegum vandamálum. Pétur postuli hafði það í huga er hann sagði: „Verið algáðir, vakið. Óvinur yðar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt. Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ (1. Pétursbréf 5:8, 9) Já, allt bræðrafélag kristinna manna má búast við þjáningum.
5. Hvernig benti Jesús á að trúfastir kristnir menn verði fyrir sorgum í lífinu?
5 Jafnvel þótt við elskum Jehóva heitt og séum meginreglum hans trú verða sorglegir atburðir á vegi okkar. Jesús sýndi fram á það með líkingu í Matteusi 7:24-27, en þar bar hann saman þá sem hlýða orðum hans og þá sem gera það ekki. Hann líkti hlýðnum lærisveinum við hygginn mann sem byggir hús á traustu bjargi. Þeim sem ekki hlýða orðum hans líkti hann við heimskan mann sem byggir hús sitt á sandi. Eftir mikið óveður er aðeins húsið á bjarginu uppistandandi. Við tökum eftir að sagt er um hús hyggna mannsins: „Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi, en það féll eigi.“ Jesús lofaði ekki að hyggni maðurinn myndi alltaf búa við frið og ró, en hyggni hans bjó hann hins vegar undir að standa af sér storminn. Áþekk hugmynd kemur fram í dæmisögunni um sáðmanninn. Í henni bendir Jesús á að jafnvel hlýðnir tilbiðjendur ‚með göfugt, gott hjarta‘ myndu „bera ávöxt með stöðuglyndi.“ — Lúkas 8:4-15.
6. Hverjir ganga gegnum eldraunina sem Páll lýsir í líkingu sinni með eldtraustu efnin?
6 Í bréfi til Korintumanna notaði Páll postuli myndmál til að lýsa nauðsyn endingargóðra eiginleika sem geta hjálpað okkur í prófraunum. Eldtraust efni eins og gull, silfur og dýrir steinar samsvara guðrækilegum eiginleikum. (Samanber Orðskviðina 3:13-15; 1. Pétursbréf 1:6, 7.) Holdlegum einkennum er aftur á móti líkt við eldfim efni. Síðan segir Páll: „Verk hvers um sig [mun] verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er. Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun.“ (1. Korintubréf 3:10-14) Enn og aftur bendir Biblían á að það sé óhjákvæmilegt að við verðum öll fyrir einhverri eldraun.
7. Hvernig getur Ritningin hjálpað okkur að vera þolgóð í prófraunum samkvæmt Rómverjabréfinu 15:4?
7 Í Biblíunni eru margar frásögur af drottinhollum þjónum Guðs sem þoldu ýmsar raunir, sumir um langt skeið. En Jehóva yfirgaf þá ekki. Líklegt er að Páll postuli hafi haft slík dæmi í huga er hann sagði: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Lítum á fordæmi þriggja manna sem lentu í margs konar raunum þótt þeir ættu náið samband við Guð.
Það sem við lærum af frásögum Biblíunnar
8. Hvað leyfði Jehóva í sambandi við Jósef og hve lengi?
8 Jehóva blessaði Jósef, son Jakobs, frá unga aldri. Engu að síður lenti hann í margs konar raunum án þess að honum væri um að kenna. Bræður hans rændu honum og fóru illa með hann. Hann var seldur sem þræll í ókunnu landi þar sem röngum sökum var logið upp á hann og honum var varpað í „dýflissu.“ (1. Mósebók 40:15) Þar ‚þjáðu menn fætur hans með fjötrum og hann var lagður í járn.‘ (Sálmur 105:17, 18) Í þrælkun sinni og fangavist hefur Jósef örugglega sárbænt Jehóva margsinnis um lausn. En þótt Jehóva styrkti hann með margvíslegu móti vaknaði hann hvern morgun í hér um bil 13 ár ýmist þræll eða fangi. — 1. Mósebók 37:2; 41:46.
9. Hvað mátti Davíð þola um árabil?
9 Davíð varð fyrir svipaðri reynslu. Þegar Jehóva var að velja hæfan mann til að stjórna Ísrael sagði hann: „Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta.“ (Postulasagan 13:22) Þrátt fyrir að Davíð nyti hylli Jehóva þjáðist hann mikið. Í nokkur ár var hann í lífshættu, fór huldu höfði í eyðimörkinni og faldi sig í hellum, gjótum og á erlendri grund. Hann var eltur eins og villidýr og var stundum kjarklítill og óttasleginn. Engu að síður hélt hann út í krafti Jehóva. Davíð gat réttilega sagt af eigin reynslu: „Margar eru raunir réttláts manns, en [Jehóva] frelsar hann úr þeim öllum.“ — Sálmur 34:20.
10. Hvaða gríðarleg ógæfa kom yfir Nabót og fjölskyldu hans?
10 Á dögum spámannsins Elía voru aðeins 7000 manns í Ísrael sem höfðu ekki fallið fram fyrir falsguðinum Baal. (1. Konungabók 19:18; Rómverjabréfið 11:4) Nabót var líklega einn þeirra en hann varð fórnarlamb hræðilegs ranglætis. Hann þoldi þá auðmýkingu að vera ákærður fyrir guðlast. Hann var fundinn sekur og dæmdur til dauða með konunglegum úrskurði. Hann var grýttur og hundar sleiktu upp blóð hans. Synir hans voru meira að segja líflátnir! Hann var þó saklaus af því sem hann var ákærður fyrir. Þeir sem vitnuðu gegn honum lugu. Málið í heild var samsæri að undirlagi Jesebelar drottningar svo að konungur gæti slegið eign sinni á víngarð Nabóts. — 1. Konungabók 21:1-19; 2. Konungabók 9:26.
11. Hvað segir Páll postuli um trúfasta karla og konur biblíusögunnar?
11 Jósef, Davíð og Nabót eru aðeins þrír af mörgum trúföstum körlum og konum sem Biblían nefnir að hafi þolað ýmsar raunir. Páll postuli tók saman söguágrip þjóna Jehóva í aldanna rás. Þar talar hann um þá sem „urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi. Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir. Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.“ (Hebreabréfið 11:36-38) En Jehóva yfirgaf þá ekki.
Jehóva ber umhyggju fyrir þjáðum
12. Nefndu dæmi um þrengingar eða þjáningar sem vottar Jehóva nú á tímum verða fyrir.
12 Hvað um fólk Jehóva nú á tímum? Við getum reitt okkur á að Guð verndi okkur sem samtök og leiði óhulta gegnum hina síðustu daga og þrenginguna miklu. (Jesaja 54:17; Opinberunarbókin 7:9-17) Okkur er hins vegar ljóst að „tími og tilviljun“ mætir öllum mönnum sem einstaklingum. (Prédikarinn 9:11) Margir trúfastir kristnir menn nú á dögum rata í ýmsar raunir. Sumir eru bláfátækir. Biblían talar um aðþrengda kristna ‚munaðarleysingja og ekkjur.‘ (Jakobsbréfið 1:27) Sumir þjást vegna náttúruhamfara, styrjalda, glæpa, valdníðslu, sjúkdóma og dauða.
13. Hvaða erfiðleikum hafa vottar Jehóva orðið fyrir upp á síðkastið?
13 Í skýrslum sínum árið 1996 til hins stjórnandi ráðs votta Jehóva skýrðu útibú Varðturnsfélagsins frá því að sumir bræðra okkar og systra sætu í fangelsi við ömurlegar aðstæður vegna fastheldni sinnar við meginreglur Biblíunnar. Þrír söfnuðir í Suður-Ameríkulandi voru leystir upp þegar skæruliðahópar neyddu hundruð votta til að yfirgefa svæðið. Í Vestur-Afríkuríki féllu nokkrir vottar þegar þeir króuðust inni í borgarastríði. Bræður nokkrir í Mið-Ameríkulandi urðu fyrir búsifjum vegna fellibyls og voru þó bágstaddir fyrir. Annars staðar, þar sem fátækt og matvælaskortur eru ekki alvarleg vandamál, geta ýmis neikvæð áhrif dregið úr gleði sumra. Aðrir eru að kikna undan álagi daglegs lífs. Og sumir verða niðurdregnir vegna sinnuleysis almennings þegar þeir prédika fagnaðarerindið um ríkið.
14. (a) Hvað lærum við af því sem henti Job? (b) Hvað ættum við að gera þegar við rötum í raunir, í stað þess að hugsa neikvætt?
14 Þessar aðstæður á ekki að túlka sem merki um vanþóknun Guðs. Mundu eftir Job og því mikla andstreymi sem hann varð fyrir. Hann var „maður ráðvandur og réttlátur.“ (Jobsbók 1:8) Hann hlýtur að hafa orðið niðurdreginn þegar Elífas sakaði hann um ranga breytni! (Jobsbók, 4., 5. og 22. kafli) Við viljum ekki álykta fljótfærnislega að raunir, sem við rötum í, stafi af því að við höfum brugðist Jehóva á einhvern hátt eða að hann hafi tekið frá okkur blessun sína. Neikvæðar hugsanir í þrengingum gætu veikt trú okkar. (1. Þessaloníkubréf 3:1-3, 5) Í raunum er best að minna sig á þá staðreynd að Jehóva og Jesús eru nálægir réttlátum, hvað sem á dynur.
15. Hvernig vitum við að Jehóva ber mikla umhyggju fyrir fólki sínu þegar það ratar í raunir?
15 Páll postuli hughreystir okkur og segir: „Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? . . . Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 8:35, 38, 39) Jehóva ber mikla umhyggju fyrir okkur og veit af þjáningum okkar. Davíð var enn á flótta er hann skrifaði: „Augu [Jehóva] hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra. [Jehóva] er nálægur þeim er hafa sundurmarið hjarta.“ (Sálmur 34:16, 19; Matteus 18:6, 14) Himneskur faðir okkar ber umhyggju fyrir okkur og hann finnur til með þjáðum. (1. Pétursbréf 5:6, 7) Hann veitir okkur það sem þarf til að halda út, hverjar sem þjáningarnar eru.
Gjafir Jehóva halda okkur uppi
16. Hvaða ráðstöfun Jehóva hjálpar okkur að halda út og hvernig?
16 Enda þótt við getum ekki vænst þess að vera laus við mótlæti í þessu gamla heimskerfi erum við ‚ekki yfirgefin.‘ (2. Korintubréf 4:8, 9) Jesús lofaði að láta fylgjendum sínum hjálpara í té. Hann sagði: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans.“ (Jóhannes 14:16, 17) Á hvítasunnunni árið 33 sagði Pétur postuli áheyrendum sínum að þeir gætu „öðlast að gjöf heilagan anda.“ (Postulasagan 2:38) Hjálpar heilagur andi okkur núna? Já! Starfskraftur Jehóva gefur okkur stórkostlegan ávöxt, ‚kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trú, hógværð og sjálfstjórn.‘ (Galatabréfið 5:22, 23) Allir þessir ómetanlegu eiginleikar geta hjálpað okkur að halda út.
17. Nefndu nokkur biblíusannindi sem styrkja trú okkar og ásetning að bíða þolinmóð eftir Jehóva.
17 Heilagur andi kemur okkur líka í skilning um að núverandi þrenging sé „skammvinn og léttbær“ í samanburði við launin, eilífa lífið. (2. Korintubréf 4:16-18) Við erum sannfærð um að Guð gleymi ekki verkum okkar og kærleikanum sem við sýnum honum. (Hebreabréfið 6:9-12) Hin innblásnu orð Biblíunnar hughreysta okkur þegar við lesum um fordæmi trúfastra þjóna Guðs til forna sem rötuðu í margar raunir en voru samt taldir sælir eða hamingjusamir. Jakob skrifar: „Bræður, takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni [Jehóva] og liðið illt með þolinmæði. Því vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið.“ (Jakobsbréfið 5:10, 11) Biblían lofar okkur ‚ofurmagni kraftarins‘ til að hjálpa okkur að vera þolgóð í þrengingum. Jehóva styrkir okkur líka með upprisuvoninni. (2. Korintubréf 1:8-10; 4:7) Með því að lesa daglega í Biblíunni og íhuga þessi fyrirheit styrkjum við trú okkar og ásetning að bíða Guðs með þolinmæði. — Sálmur 42:6.
18. (a) Hvað erum við hvött til að gera í 2. Korintubréfi 1:3, 4? (b) Hvernig geta kristnir umsjónarmenn huggað og hresst?
18 Auk þessa hefur Jehóva gefið okkur andlegu paradísina þar sem við getum notið ósvikins kærleika kristinna bræðra okkar og systra. Við höfum öll hlutverki að gegna í því að hugga og hughreysta hvert annað. (2. Korintubréf 1:3, 4) Kristnir umsjónarmenn geta sér í lagi huggað og hresst. (Jesaja 32:2) Þeir eru gjafir í mönnum og eiga að uppbyggja þjáða, hughreysta niðurdregna og taka að sér óstyrka. (Efesusbréfið 4:8, 11, 12; 1. Þessaloníkubréf 5:14) Öldungar eru hvattir til að nota vel tímaritin Varðturninn og Vaknið! og önnur rit frá hinum ‚trúa og hyggna þjóni.‘ (Matteus 24:45-47) Þau innihalda sjóð biblíulegra ráðlegginga sem geta hjálpað okkur að leysa — og jafnvel koma í veg fyrir — sum þeirra vandamála sem gera okkur kvíðin. Megum við líkja eftir Jehóva með því að hughreysta og uppörva hvert annað á erfiðleikatímum.
19. (a) Hvað forðar okkur frá sumum erfiðleikum? (b) Hverjum verðum við að treysta og hvað gerir okkur fær um að horfast í augu við prófraunir?
19 Kristnir menn gera það sem þeir geta til að umflýja erfiðleika er líður á hina síðustu daga og ástandið í núverandi heimskerfi versnar. (Orðskviðirnir 22:3) Góð dómgreind, heilbrigt hugarfar og þekking á meginreglum Biblíunnar getur hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir. (Orðskviðirnir 3:21, 22) Við hlustum á orð Jehóva og hlýðum því til að forðast óþörf mistök. (Sálmur 38:5) Okkur er samt sem áður ljóst að við getum með engu móti forðast þjáningar með öllu. Í þessu heimskerfi verður margur réttlátur maður fyrir miklu andstreymi. Við getum engu að síður horfst í augu við prófraunir okkar í trausti þess að ‚Jehóva yfirgefi ekki fólk sitt.‘ (Sálmur 94:14, NW) Og við vitum að þetta heimskerfi hverfur brátt ásamt erfiðleikum sínum og þjáningum. Megum við því einsetja okkur að ‚þreytast ekki að gera það sem gott er, því að á sínum tíma munum við uppskera, ef við gefumst ekki upp.‘ — Galatabréfið 6:9.
Hvað lærðum við?
◻ Hvaða prófraunum verður allt bræðrafélag kristinna manna fyrir?
◻ Hvaða fordæmi úr Biblíunni sýna okkur að erfiðleikar og raunir eru ekki merki um vanþóknun Jehóva?
◻ Hvernig hugsar Jehóva um það andstreymi sem fólk hans verður fyrir?
◻ Nefndu nokkrar gjafir Jehóva sem hjálpa okkur að vera þolgóð í prófraunum.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Davíð, Nabót og Jósef urðu fyrir miklu andstreymi.