Hamingjan er vandfundin
REIÐI, áhyggjur og þunglyndi hafa lengi verið rannsóknarefni vísindamanna. Á síðustu árum hafa þeir hins vegar beint rannsóknum sínum að uppbyggilegum og æskilegum þætti í reynsluheimi fólks — hamingjunni.
Hvað getur gert fólk hamingjusamara? Yrðu menn hamingjusamari ef þeir væru yngri, ríkari, heilbrigðari, hávaxnari eða grennri? Hver er lykill sannrar hamingju? Flestum þykir erfitt, ef ekki ógerlegt, að svara þessari spurningu. Ef á það er litið hve illa hefur gengið að höndla hamingjuna er kannski auðveldara að svara því hvað stuðli ekki að hamingju.
Kunnir sálfræðingar töldu lengi að höndla mætti hamingjuna með því að sinna fyrst og fremst eigin þörfum og löngunum. Þeir hvöttu óhamingjusamt fólk til að einbeita sér að því einu að fullnægja þörfum sjálfs sín. Notuð hafa verið grípandi orðatiltæki við sállækningar, svo sem „vertu þú sjálfur,“ „þekktu sjálfan þig“ og „finndu sjálfan þig.“ En sumir sérfræðinganna, sem voru talsmenn þessa hugsunarháttar, eru nú komnir á þá skoðun að slík einstaklingshyggja stuðli ekki að varanlegri hamingju. Sjálfselska hefur óhjákvæmilega sársauka og óhamingju í för með sér. Eigingirni er ekki lykill hamingjunnar.
Lykill óhamingjunnar
Þeir sem leita hamingjunnar í nautnum og skemmtun eru að leita á röngum stað. Hinn vitri Salómon konungur í Forn-Ísrael er gott dæmi. Hann segir í Prédikaranum í Biblíunni: „Og allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim. Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði, því að hjarta mitt hafði ánægju af allri fyrirhöfn minni, og þetta var hlutdeild mín af allri fyrirhöfn minni.“ (Prédikarinn 2:10) Salómon reisti sér hús, plantaði víngarða og gerði sér jurtagarða, aldingarða og vatnstjarnir. (Prédikarinn 2:4-6) Einu sinni spurði hann: „Hver borðar og drekkur betur en ég?“ (Prédikarinn 2:25, NW) Hann lét bestu söngvara og tónlistarmenn skemmta sér og naut félagsskapar fegurstu kvenna landsins. — Prédikarinn 2:8.
Salómon hélt sem sagt ekki aftur af sér í munaði og skemmtun. Að hvaða niðurstöðu komst hann eftir að hafa notið ríkulegra lystisemda? Hann sagði: „Er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni.“ — Prédikarinn 2:11.
Niðurstaða þessa vitra konungs er í fullu gildi enn þann dag í dag. Lítum á auðugt ríki eins og Bandaríkin sem dæmi. Á síðastliðnum 30 árum hafa Bandaríkjamenn nánast tvöfaldað efnislegar eigur sínar, svo sem bíla og sjónvarpstæki. Samt eru Bandaríkjamenn ekki hót hamingjusamari að sögn geðverndarsérfræðinga. Samkvæmt einni heimild hefur „tíðni þunglyndis stóraukist á sama tímabili. Sjálfsvíg unglinga hafa þrefaldast. Tíðni hjónaskilnaða hefur tvöfaldast.“ Rannsóknarmenn hafa nýlega komist að sams konar niðurstöðu um tengsl peninga og hamingju meðal íbúa um það bil 50 ólíkra landa. Með öðrum orðum, það er ekki hægt að kaupa hamingjuna.
Hins vegar mætti réttilega kalla eftirsókn eftir peningum lykil óhamingjunnar. Páll postuli varaði við: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun. Fégirndin er rót alls þess, sem illt er. Við þá fíkn hafa nokkrir villst frá trúnni og valdið sjálfum sér mörgum harmkvælum.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.
Hvorki peningar, heilbrigði, æska, fegurð, vald né nokkur blanda af þessu getur tryggt mönnum varanlega hamingju. Hvers vegna ekki? Vegna þess að við getum ekki komið í veg fyrir skakkaföll. Salómon konungur sagði réttilega: „Maðurinn þekkir ekki einu sinni sinn tíma: Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni — á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð, þá er hún kemur skyndilega yfir þá.“ — Prédikarinn 9:12.
Örðugt markmið
Engar vísindarannsóknir megna að koma fram með formúlu að hamingjunni. Salómon sagði líka: „Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.“ — Prédikarinn 9:11.
Margir taka undir þessi orð og komast jafnframt að þeirri niðurstöðu að það sé óraunhæft að vænta sannrar hamingju í lífinu. Þekktur uppeldis- og kennslufræðingur segir að „hamingja sé ímyndun.“ Aðrir telja að lykill hamingjunnar sé dularfullur leyndardómur og að það sé aðeins á færi fáeinna, sérstaklega hæfra dulvitringa að ljúka upp leyndardómnum.
En hvað sem því líður heldur fólk áfram að reyna fyrir sér með alls konar lífsstíl í leit sinni að hamingjunni. Þrátt fyrir að forverunum hafi mistekist reyna margir enn að lækna sig af óhamingjunni með því að sækjast eftir peningum, völdum, hreysti eða skemmtun. Leitin er linnulaus því að innst inni trúa flestir að varanleg hamingja sé ekki bara ímyndun. Þeir vona að hamingjan sé ekki bara draumur sem aldrei rætist. Þú spyrð því kannski hvernig þú getir höndlað hamingjuna.