Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.2. bls. 5-7
  • Réttlátur heimur er ekki draumur!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Réttlátur heimur er ekki draumur!
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Af hverju hefur manninum mistekist?
  • Réttlátur heimur verður að veruleika — hvernig?
  • Líf í réttlátum heimi
  • Jehóva hefur mætur á réttlæti
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Verður ákalli eftir réttlæti svarað?
    Fleiri viðfangsefni
  • „Er Guð óréttlátur?“
    Nálgastu Jehóva
  • Réttlæti einkennir alla vegu Guðs
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.2. bls. 5-7

Réttlátur heimur er ekki draumur!

„RÉTTLÆTI er helsta hugðarefni manna á jörðinni,“ sagði bandaríski stjórnmálamaðurinn Daniel Webster. Og Biblían segir: „[Jehóva] hefir mætur á réttlæti.“ (Sálmur 37:28) Fyrstu mannhjónin voru sköpuð í mynd Guðs og höfðu sams konar eiginleika og hann, þar á meðal réttlætiskennd. — 1. Mósebók 1:26, 27.

Ritningin talar líka um að ‚heiðingjar, sem hafi ekki lögmál, geri að eðlisboði það sem lögmálið býður.‘ Þannig sýna þeir „að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.“ (Rómverjabréfið 2:14, 15) Já, mennirnir hafa samvisku sem er innra skyn á rétt og rangt. Ljóst er að réttlætisþörfin er manninum ásköpuð.

Leit mannsins að hamingjunni er nátengd réttlætisþörf hans því að Sálmur 106:3 segir: „Sælir eru þeir, sem gæta réttarins, sem iðka réttlæti alla tíma.“ En af hverju hefur manninum ekki tekist að skapa réttlátan heim?

Af hverju hefur manninum mistekist?

Ein meginástæðan fyrir því að manninum hefur mistekist að skapa réttlátan heim er gallinn sem við höfum erft frá fyrstu foreldrum okkar, Adam og Evu. Biblían segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Þessi galli er syndin. Adam og Eva voru sköpuð fullkomin en ákváðu að gera uppreisn gegn Guði og gerðu sig þar með að syndurum. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:1-6) Þar af leiðandi gáfu þau börnum sínum syndugar og rangar tilhneigingar í vöggugjöf.

Eru ekki persónueinkenni eins og ágirnd og fordómar afleiðing syndugra tilhneiginga? Og stuðla þessi einkenni ekki að margvíslegu ranglæti í heiminum? Ágirnd er meira að segja undirrót vísvitandi umhverfisspjalla og efnahagskúgunar! Það eru vissulega fordómar sem búa að baki þjóðernisátökum og kynþáttamisrétti. Það eru slíkir eiginleikar sem koma mönnum til að ræna, svíkja og valda öðrum tjóni með hegðun sinni.

Jafnvel þegar við reynum eftir bestu vitund að stunda réttlæti og gera öðrum gott mistekst það oft vegna syndugra tilhneiginga okkar. Páll postuli játaði: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég.“ Síðan útskýrir hann baráttuna nánar og segir: „Innra með mér hef ég mætur á lögmáli Guðs, en ég sé annað lögmál í limum mínum, sem berst á móti lögmáli hugar míns og hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.“ (Rómverjabréfið 7:19-23) Við eigum trúlega í sömu baráttu. Þess vegna er ranglætið svona algengt.

Stjórnarhættir manna hafa líka stuðlað að ranglæti í heiminum. Í hverju landi eru bæði lög og menn sem framfylgja þeim. Og þar eru auðvitað líka dómarar og dómstólar. Vissulega hafa réttsýnir menn reynt að standa vörð um mannréttindi og freistað þess að tryggja að allir sitji við sama borð. En viðleitni þeirra hefur að mestu leyti verið unnin fyrir gýg. Af hverju? Jeremía dregur saman í örstuttu máli margt af því sem stuðlar að því að þeim mistekst: „Ég veit, [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum.“ Þar eð maðurinn er fráhverfur Guði er hann einfaldlega ófær um að skapa réttlátan heim. — Orðskviðirnir 14:12; Prédikarinn 8:9.

Satan djöfullinn er stór hindrun í vegi fyrir viðleitni mannsins til að byggja upp réttlátan heim. Biblían segir skýrt og greinilega að uppreisnarengillinn Satan sé hinn upphaflegi „manndrápari“ og „lygari“ og að ‚allur heimurinn sé á valdi hins vonda.‘ (Jóhannes 8:44; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Páll postuli kallar hann „guð þessarar aldar.“ (2. Korintubréf 4:3, 4) Satan hatar réttlætið og gerir allt sem hann getur til að ýta undir vonskuna. Eins lengi og hann stjórnar heiminum er mannkynið í fjötrum alls konar ranglætis og þeirra hörmunga sem af því leiða.

Þýðir þetta þá að ranglæti sé óhjákvæmilegt í mannlegu samfélagi? Er réttlátur heimur aðeins draumur sem aldrei verður að veruleika?

Réttlátur heimur verður að veruleika — hvernig?

Til að vonin um réttlátan heim verði að veruleika þarf mannkynið að leita lausnar hjá einhverjum sem getur upprætt orsakir ranglætisins. En hver getur upprætt syndina og útrýmt Satan og stjórn hans? Ljóst er að enginn mannlegur máttur og engin mannleg samtök geta það. Það getur enginn nema Jehóva Guð. Biblían segir um hann: „Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4) Og þar eð Jehóva „hefir mætur á réttlæti“ vill hann að mannkynið fái að lifa í réttlátum heimi. — Sálmur 37:28.

Pétur postuli segir um fyrirkomulag Guðs til að koma á réttlátum heimi: „Eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Þessi ‚nýi himinn‘ er ekki nýr efnishiminn. Guð skapaði efnishimininn fullkominn og hann er honum til dýrðar. (Sálmur 8:4; 19:2, 3) ‚Nýi himinninn‘ er ný stjórn yfir jörðinni. Núverandi ‚himinn‘ er stjórnir í höndum manna. Mjög bráðlega, í Harmagedónstríði Guðs, víkja þær fyrir ‚nýja himninum‘ — himnesku ríki hans eða stjórn. (Opinberunarbókin 16:14-16) Jesús Kristur er konungur þessa ríkis. Þessi stjórn bindur varanlegan enda á stjórn manna og ríkir að eilífu. — Daníel 2:44.

Hvað er þá ‚nýja jörðin‘? Hún er ekki ný reikistjarna því að Guð skapaði jörðina svo að hún hæfði manninum fullkomlega, og það er vilji hans að hún standi að eilífu. (Sálmur 104:5) ‚Nýja jörðin‘ er nýtt samfélag manna. (1. Mósebók 11:1; Sálmur 96:1) ‚Jörðin,‘ sem verður eytt, er það fólk sem gerir sig að hluta af þessu illa heimskerfi. (2. Pétursbréf 3:7) ‚Nýja jörðin,‘ sem kemur í stað þeirra, er mynduð af sönnum þjónum Guðs sem hata hið illa og elska réttlæti og réttvísi. (Sálmur 37:10, 11) Þannig hverfur heimur Satans.

En hvað á Satan í vændum? Jóhannes postuli spáði: „Hann [Kristur Jesús] tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár. Hann kastaði honum í undirdjúpið og læsti og setti innsigli yfir, svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega.“ (Opinberunarbókin 20:1-3) Áhrif hins fjötraða Satans á mannkynið verða ekki meiri en áhrif fanga í djúpri dýflissu. Þetta verður mikill léttir fyrir mannkynið, undanfari réttláts heims! Og í lok þúsund áranna verður Satan endanlega tortímt. — Opinberunarbókin 20:7-10.

En hvað um erfðasyndina? Jehóva hefur nú þegar gert ráðstafanir til að uppræta syndina. ‚Mannssonurinn (Jesús Kristur) kom til að gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.‘ (Matteus 20:28) Orðið ‚lausnargjald‘ táknar það verð sem greitt er til lausnar bandingjum. Jesús greiddi fullkomið líf sitt sem lausnargjald til að frelsa mannkynið. — 2. Korintubréf 5:14, 15a; 1. Pétursbréf 1:18, 19.

Við getum haft gagn af lausnarfórn Jesú nú þegar. Með því að iðka trú á hana getum við staðið hreinir frammi fyrir Guði. (Postulasagan 10:43; 1. Korintubréf 6:11) Undir stjórn Guðsríkis gerir lausnargjaldið mannkyninu kleift að losna algerlega úr fjötrum syndarinnar. Síðasta bók Biblíunnar lýsir táknrænni „móðu lífsvatnsins“ sem rennur frá hásæti Guðs, og á bökkum hennar vaxa táknræn ávaxtatré með blöðum sem eru „til lækningar þjóðunum.“ (Opinberunarbókin 22:1, 2) Það sem Biblían lýsir hér táknar hina stórkostlegu ráðstöfun skaparans til að leysa mannkynið úr fjötrum syndarinnar á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Þessi ráðstöfun verður nýtt að fullu til að frelsa hlýðna menn undan synd og dauða.

Líf í réttlátum heimi

Hugsaðu þér hvernig lífið verður undir stjórn Guðsríkis. Glæpir og ofbeldi verða liðin tíð. (Orðskviðirnir 2:21, 22) Efnahagslegt ranglæti heyrir sögunni til. (Sálmur 37:6; 72:12, 13; Jesaja 65:21-23) Allt misrétti vegna þjóðfélagsstöðu, kynþáttar eða þjóðernis verður upprætt. (Postulasagan 10:34, 35) Stríð og stríðsvopn hverfa. (Sálmur 46:10) Milljónir látinna manna verða reistar upp frá dauðum til að lifa í heimi án ranglætis. (Postulasagan 24:15) Allir munu njóta fullkominnar heilsu og heilbrigðis. (Jobsbók 33:25; Opinberunarbókin 21:3, 4) Biblían fullvissar okkur um að Jesús Kristur ‚boði réttinn með trúfesti.‘ — Jesaja 42:3.

Uns þetta gerist getum við orðið fórnarlömb ranglætis en við megum aldrei vera ranglát á móti. (Míka 6:8) Reynum að vera jákvæð jafnvel þegar við þurfum að þola óréttlæti. Hinn réttláti heimur, sem heitið er, verður brátt að veruleika. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 2. Pétursbréf 3:11-13) Alvaldur Guð hefur gefið orð sitt og það stendur. (Jesaja 55:10, 11) Núna er rétti tíminn til að búa sig undir lífið í þessum réttláta heimi með því að kynna sér hvers Guð krefst af okkur. — Jóhannes 17:3; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Allt ranglæti verður upprætt í nýja heiminum sem Guð hefur heitið.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila