Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w98 1.4. bls. 6-8
  • Fjölskyldan — manninum nauðsynleg

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fjölskyldan — manninum nauðsynleg
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Heimilið er athvarf
  • Stuðlaðu að því að fjölskylda þín bjargist
  • Rétt afstaða til peninga
  • Biblíufræðsla er mikils virði
  • Býr leyndardómur að baki farsælu fjölskyldulífi?
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
  • Kristin fjölskylda gerir hlutina saman
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1994
  • Fjölskyldur, nemið orð Guðs reglulega saman
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Farsælt fjölskyldulíf
    Farsælt fjölskyldulíf
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
w98 1.4. bls. 6-8

Fjölskyldan — manninum nauðsynleg

SAGT er að mannlegu samfélagi líði aldrei betur en fjölskyldunum sem mynda það. Sagan sýnir að styrkur samfélags og þjóðar dvínar þegar fjölskyldunni hnignar. Þegar siðspilling sundraði fjölskyldum í Forn-Grikklandi hrakaði þjóðmenningunni svo að ríkið varð varnarlítið gegn Rómverjum. Rómaveldi var sterkt jafnlengi og fjölskyldur Rómverja voru sterkar. En aldir liðu, fjölskyldulífinu hnignaði og styrkur heimsveldisins dvínaði samhliða því. „Öryggi og reisn fjölskyldunnar og fjölskyldulífsins eru meginmarkmið siðmenningarinnar og æðsta takmark allrar ástundunar,“ segir Charles W. Eliot, fyrrverandi rektor Harvardháskóla.

Já, fjölskyldan er manninum nauðsynleg. Hún hefur bein áhrif á stöðugleika þjóðfélagsins og velferð barna og komandi kynslóða. Á því leikur enginn vafi að ótalmargar einstæðar mæður leggja mikið á sig til að ala börn sín vel upp og þær eiga hrós skilið fyrir dugnað sinn. Rannsóknir sýna hins vegar að börnum farnast yfirleitt miklu betur ef þau alast upp hjá báðum foreldrum sínum.

Í rannsókn, sem náði til rösklega 2100 unglinga í Ástralíu, kom í ljós að „táningar frá sundruðum fjölskyldum voru almennt lakari til heilsunnar en aðrir, voru líklegri til að sýna merki tilfinningalegra erfiðleika og til að stunda kynlíf en krakkar óskaddaðra fjölskyldna.“ Rannsókn á vegum bandarískra stofnana, sem sjá um heilbrigðisskýrslur, leiddi í ljós að börn frá sundruðum heimilum voru „20-30 prósent líklegri en önnur til að verða fyrir slysum, 40-75 prósent líklegri til að þurfa að sitja aftur í sama bekk í skóla og 70 prósent líklegri til að vera vikið úr skóla.“ Og sérfræðingur segir að „börn einstæðra foreldra séu langtum líklegri til að lenda í afbrotum en þau sem alast upp á hefðbundnum heimilum.“

Heimilið er athvarf

Fjölskylduumgerðin býður upp á hamingjuríkt, uppbyggilegt og þægilegt heimili handa öllum. „Mikilvægasta uppspretta hamingju og vellíðanar er hvorki starfsframi, hlutir, tómstundagaman né vinir heldur fjölskyldan,“ fullyrðir sænskur heimildarmaður.

Biblían bendir á að sérhver fjölskylda jarðarinnar eigi nafn sitt að þakka hinum mikla skapara fjölskyldunnar, Jehóva Guði, af því að hann er höfundur fjölskyldufyrirkomulagsins. (1. Mósebók 1:27, 28; 2:23, 24; Efesusbréfið 3:14, 15, NW) En í Ritningunni, sem er innblásin af Guði, spáði Páll postuli grimmilegri árás á fjölskylduna með tilheyrandi siðferðishruni og hnignun mannlegs samfélags utan kristna safnaðarins. Hann sagði að ‚síðustu dagar‘ myndu einkennast af ótryggð, kærleiksleysi og óhlýðni við foreldra, jafnvel meðal þeirra sem hefðu á sér „yfirskin guðhræðslunnar.“ Hann hvatti kristna menn til að snúa sér burt frá slíkum. Jesús sagði fyrir að andstaða við sannleika Guðs myndi valda klofningi í fjölskyldum. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 10:32-37.

Guð hefur þó ekki skilið okkur eftir án hjálpar. Fyrirmæli og leiðbeiningar um samskipti fjölskyldunnar eru stór þáttur í efni Biblíunnar. Hún segir okkur hvernig fjölskyldan geti verið farsæl og heimilið notalegur staður þar sem hver og einn hefur ábyrgð að gegna gagnvart hinum.a — Efesusbréfið 5:33; 6:1-4.

Er hægt að byggja upp hamingjusamt heimili núna meðan fjölskyldunni er ógnað svo mjög sem raun ber vitni? Vissulega. Þú getur gert heimili þitt að unaðslegri og hressandi vin í þeirri eyðimörk sem þessi harði heimur er. En það kostar alla í fjölskyldunni eitthvað. Hér koma nokkrar tillögur.

Stuðlaðu að því að fjölskylda þín bjargist

Einhver besta leiðin fyrir fjölskylduna til að varðveita einingu sína er að vera saman. Allir ættu fúslega að nota frítíma sinn saman. Það getur kostað fórnir. Þið unglingar þurfið kannski að fórna einhverjum uppáhaldsþáttum í sjónvarpinu, íþróttaleikjum eða skemmtiferð með vinum. Þið feður, sem eruð að jafnaði aðalfyrirvinna fjölskyldunnar, megið ekki nota allar frístundir í eitthvert tómstundagaman eða önnur persónuleg hugðarefni. Skipuleggið eitthvað með fjölskyldunni, svo sem hvernig nota eigi helgarnar eða fríin saman. Og þið þurfið auðvitað að skipuleggja eitthvað sem allir geta hlakkað til og haft gaman af.

Börnin þurfa meira en svokallaðan gæðatíma, það er að segja að tekinn sé frá hálftími eða svo til að vera með þeim á einhverjum ákveðnum tímum af og til. Þau þurfa tíma í miklu magni. Sænskur dálkahöfundur segir: „Þau 15 ár, sem ég hef starfað við blaðamennsku, hef ég hitt fjöldann allan af afbrotaunglingum . . . Það er sammerkt með þeim að þeir virðast hafa fengið uppeldi sem byggðist á gæðatíma: ‚Pabbi og mamma höfðu aldrei tíma.‘ ‚Þau hlustuðu aldrei.‘ ‚Hann var alltaf á ferðalögum.‘ . . . Foreldri getur alltaf valið hve mikinn tíma það gefur barni sínu. Val þitt er dæmt 15 árum síðar af miskunnarlausum 15 ára unglingi.“

Rétt afstaða til peninga

Allir í fjölskyldunni ættu líka að þroska með sér rétta afstöðu til peninga. Þeir ættu að vera fúsir til að leggja í sameiginlegan sjóð til að standa undir sameiginlegum útgjöldum fjölskyldunnar. Margar konur þurfa að vinna úti til að ná endum saman, en þið eiginkonur ættuð að vera vakandi yfir hættunum og freistingunum sem þið gætuð orðið fyrir. Þessi heimur hvetur ykkur til að „láta hæfileika ykkar njóta sín“ og „gera það sem ykkur langar til.“ Það getur orðið til þess að þið viljið verða sjálfstæðar og verðið óánægðar með húsmóður- og móðurhlutverkið sem Guð hefur falið ykkur. — Títusarbréfið 2:4, 5.

Ef þið mæður getið verið heima og leiðbeint börnum ykkar og verið vinir þeirra, þá á það tvímælalaust drjúgan þátt í að byggja upp sterk bönd sem stuðla að því að halda fjölskyldunni saman gegnum þykkt og þunnt. Kona er í einstakri aðstöðu til að gera heimilið hamingjuríkt og öruggt svo að það þjóni hlutverki sínu vel. „Það þarf hundrað karlmenn til að setja upp búðir en ein kona getur búið til heimili,“ sagði stjórnmálamaður á 19. öld.

Ef allir vinna saman að því að lifa á þeim tekjum, sem fjölskyldan hefur, hlífir það henni við mörgum vandamálum. Hjón ættu að vera samtaka um að hafa lífið einfalt og láta andleg hugðarefni ganga fyrir. Börnin ættu að læra nægjusemi og ekki heimta hluti sem fjárhagur fjölskyldunnar leyfir ekki. Varið ykkur á fýsn augnanna! Freistingin til að stofna til skulda og kaupa hluti sem fjölskyldan hefur ekki efni á hefur orðið banabiti margra. Það getur stuðlað að samheldni ef allir í fjölskyldunni leggja saman í sjóð til að fjármagna eitthvað sameiginlegt — upplífgandi ferðalag, eitthvert nytsamlegt og gott tæki handa heimilinu eða framlag til stuðnings kristna söfnuðinum.

Annað „framlag“ til hamingjuríks heimilis er að allir í fjölskyldunni leggi sitt af mörkum við ræstingu og viðhald hússins, garðsins, bílsins og svo framvegis. Allir í fjölskyldunni, líka börnin, gætu fengið eitthvert ákveðið verkefni. Þið börnin ættuð að reyna að sóa ekki tímanum heldur vera hjálpfús og samvinnuþýð. Það stuðlar að ósvikinni vináttu og samlyndi sem byggir upp einingu fjölskyldunnar.

Biblíufræðsla er mikils virði

Reglulegt fjölskyldubiblíunám er einnig mikilvægt í sameinaðri, kristinni fjölskyldu. Daglegar umræður um biblíutexta og vikulegt nám í Heilagri ritningu er góður grundvöllur sameinaðrar fjölskyldu. Fjölskyldan ætti að ræða saman um grundvallarsannindi og meginreglur Biblíunnar á þann hátt að það snerti hjörtu allra.

Slíkt fjölskyldunám ætti að vera fræðandi en jafnframt ánægjulegt og hvetjandi. Hjón í norðurhluta Svíþjóðar voru vön að láta börnin skrifa hjá sér spurningar sem komu upp yfir vikuna. Síðan ræddu þau þessar spurningar í vikulegu biblíunámi sínu. Spurningarnar voru oft djúphugsaðar og alvarlegar og báru vott um íhygli barnanna og áhuga á kenningum Biblíunnar. Sem dæmi um spurningar þeirra má nefna: „Lætur Jehóva allt vaxa allan tímann eða gerði hann það bara í upphafi?“ „Af hverju segir Biblían að Guð hafi skapað manninn ‚í sinni mynd‘ fyrst Guð er ekki maður?“ „Var Adam og Evu ekki kalt á veturna í paradís af því að þau voru berfætt og áttu engin föt?“ „Af hverju þurfum við að hafa tunglið á kvöldin þegar á að vera myrkur?“ Börnin eru nú orðin fullorðin og þjóna Guði í fullu starfi.

Þegar þið foreldrar þurfið að taka á vandamálum í fjölskyldunni ættuð þið að gera ykkur far um að vera uppbyggjandi og glaðleg. Verið tillitssöm og sveigjanleg en þó stefnuföst þegar mikilvægar meginreglur eiga í hlut. Látið börnin sjá að ákvarðanir ykkar stjórnast alltaf af kærleika til Guðs og réttra meginreglna hans. Börnin finna oft fyrir miklu álagi í skólanum sem gerir þau niðurdregin og þau þurfa á mikilli uppörvun að halda heima fyrir til mótvægis við slík áhrif.

Foreldrar, reynið ekki að þykjast fullkomnir. Viðurkennið mistök ykkar og biðjið börnin afsökunar ef þörf krefur. Þið börn, þegar pabbi og mamma gera mistök skuluð þið láta ykkur þykja enn vænna um þau. — Prédikarinn 7:16.

Já, sameinuð fjölskylda skapar friðsælt, öruggt og hamingjuríkt heimili. Þýska ljóðskáldið Goethe sagði einu sinni: „Sá er hamingjusamastur sem finnur hamingjuna heima, hvort heldur hann er kóngur eða kotbóndi.“ Bæði foreldrum og börnum ætti að finnast að heima sé best.

Fjölskyldunni stendur vissulega ógn af álagi heimsins sem við búum í. En þar eð fjölskyldan er verk Guðs verður henni bjargað. Fjölskylda þín bjargast líka og þú sjálfur einnig ef þú fylgir réttlátum ábendingum Guðs um hamingjuríkt fjölskyldulíf.

[Neðanmáls]

a Ítarlegri upplýsingar um þetta efni er að finna í bókinni Lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila