Jehóva uppfyllir fyrirheit sín við trúfasta menn
„Trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.“ — HEBREABRÉFIÐ 10:23.
1, 2. Af hverju getum við treyst fullkomlega á fyrirheit Jehóva?
JEHÓVA biður þjóna sína að byggja upp sterka trú á sig og fyrirheit sín og viðhalda henni. Með slíka trú að bakhjarli geta þeir treyst honum algerlega til að gera það sem hann hefur lofað. Innblásið orð hans lýsir yfir: „[Jehóva] allsherjar hefir svarið og sagt: Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, skal verða og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.“ — Jesaja 14:24.
2 Orðin „[Jehóva] allsherjar hefir svarið“ sýna að hann vinnur þess hátíðlegan eið að standa við fyrirheit sín. Þess vegna segir orð hans: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Þegar við treystum á Jehóva og leyfum visku hans að leiðbeina okkur er öruggt að stígir okkar leiða okkur til eilífs lífs, því að viska hans er „lífstré þeim, sem grípa hana.“ — Orðskviðirnir 3:18; Jóhannes 17:3.
Ósvikin trú forðum daga
3. Hvernig sýndi Nói trú á Jehóva?
3 Verk Jehóva forðum daga í þágu þeirra sem höfðu ósvikna trú bera vitni um áreiðanleika hans. Nefnum dæmi. Guð sagði Nóa fyrir 4400 árum að heiminum á hans dögum yrði eytt í heimsflóði. Nói átti að smíða risastóra örk til bjargar mönnum og dýrum. Hvað gerði Nói? Hebreabréfið 11:7 segir okkur: „Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu.“ Hvers vegna trúði Nói á það sem hafði aldrei áður gerst, sem „enn þá var ekki auðið að sjá.“ Vegna þess að hann vissi nógu mikið um fyrri samskipti Guðs við mennina til að vera það ljóst að allt sem hann segir rætist. Nói var því viss um að flóðið myndi eiga sér stað. — 1. Mósebók 6:9-22.
4, 5. Af hverju treysti Abraham fullkomlega á Jehóva?
4 Abraham er annað dæmi um mann með ósvikna trú. Fyrir nálega 3900 árum sagði Guð honum að fórna Ísak, einkasyni hans sem hann átti með eiginkonunni Söru. (1. Mósebók 22:1-10) Hvernig brást hann við? Hebreabréfið 11:17 segir: „Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur.“ Engill Jehóva stöðvaði hann á síðustu stundu. (1. Mósebók 22:11, 12) En hvers vegna tók Abraham svo mikið sem í mál að gera slíkt? Vegna þess að „hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja [Ísak] upp frá dauðum,“ eins og Hebreabréfið 11:19 segir. En hvernig gat Abraham trúað á upprisu þar sem hann hafði aldrei séð hana og engar heimildir voru til um að upprisa hefði átt sér stað?
5 Munum að Sara var 89 ára þegar Guð hét þeim syni. Hún var komin úr barneign, segja mátti að móðurkviður hennar væri dauður. (1. Mósebók 18:9-14) Guð vakti móðurkvið Söru til lífs og hún eignaðist Ísak. (1. Mósebók 21:1-3) Abraham vissi að Guð gæti reist Ísak aftur upp til lífs ef þörf krefði, fyrst hann hafði endurlífgað móðurkvið Söru. Rómverjabréfið 4:20, 21 segir um Abraham: „Um fyrirheit Guðs efaðist hann ekki með vantrú, heldur gjörðist styrkur í trúnni. Hann gaf Guði dýrðina, og var þess fullviss, að hann er máttugur að efna það, sem hann hefur lofað.“
6. Hvernig lét Jósúa í ljós traust á Jehóva?
6 Fyrir meira en 3400 árum, þegar Jósúa var rösklega tíræður og hafði kynnst á langri ævi hve áreiðanlegur Guð er, gaf hann þessa ástæðu fyrir trausti sínu: „Þér skuluð vita af öllu hjarta yðar og af allri sálu yðar, að ekkert hefir brugðist af öllum þeim fyrirheitum, er [Jehóva] Guð yðar hefir gefið yður. Öll hafa þau rætst, ekkert af þeim hefir brugðist.“ — Jósúabók 23:14.
7, 8. Hvaða stefnu tóku trúfastir kristnir menn á fyrstu öld sér til bjargar og hvers vegna?
7 Fyrir hér um bil 1900 árum sýndu margir auðmjúkir menn ósvikna trú. Þeir gerðu sér ljóst með hliðsjón af uppfylltum biblíuspádómum að Jesús væri Messías og tóku við kenningu hans. Þeir höfðu Hebresku ritningarnar og traustan staðreyndagrunn að bakhjarli og lögðu trúnað á það sem Jesús kenndi. Þeir trúðu því Jesú þegar hann sagði að dómur Guðs kæmi yfir Júda og Jerúsalem vegna ótrúmennsku íbúanna. Og þegar hann sagði þeim hvað þeir þyrftu að gera til að bjarga lífinu gerðu þeir það.
8 Jesús sagði þeim sem trúðu á hann að þeir skyldu flýja þegar hersveitir umkringdu Jerúsalem. Árið 66 settist rómverskur her um borgina. En síðan fór herinn án nokkurrar sýnilegrar ástæðu. Það var bendingin til kristinna manna um að yfirgefa borgina því að Jesús hafði sagt: „Þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd. Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.“ (Lúkas 21:20, 21) Þeir sem höfðu ósvikna trú yfirgáfu Jerúsalem og nánasta umhverfi og flúðu í öruggt skjól.
Afleiðingar trúleysis
9, 10. (a) Hvernig sýndu trúarleiðtogarnir að þeir trúðu ekki á Jesú? (b) Hvaða afleiðingar hafði trúleysið?
9 Hvað gerðu þeir sem höfðu ekki ósvikna trú? Þeir flúðu ekki þegar tækifæri gafst. Þeir héldu að leiðtogar sínir gætu bjargað sér. En þessir leiðtogar og fylgjendur þeirra höfðu líka séð sannanirnar fyrir því að Jesús væri Messías. Hvers vegna tóku þeir þá ekki til greina það sem hann sagði? Vegna illskunnar í hjörtum sér. Það hafði komið berlega fram áður þegar þeir sáu almúgamenn flykkjast til Jesú eftir að hann reisti Lasarus upp frá dauðum. Jóhannes 11:47, 48 segir: „Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið [hæstarétt Gyðinga] og sögðu: ‚Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður [Jesús] gjörir mörg tákn. Ef vér leyfum honum að halda svo áfram, munu allir trúa á hann, og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm vorn og þjóð.‘“ Vers 53 bætir við: „Upp frá þeim degi voru þeir ráðnir í að taka hann af lífi.“
10 Jesús hafði unnið stórkostlegt kraftaverk — vakið Lasarus upp frá dauðum. En trúarleiðtogarnir vildu Jesú feigan fyrir. Hin mikla illska þeirra sýndi sig enn frekar þegar „æðstu prestarnir [réðu] af að taka einnig Lasarus af lífi, því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.“ (Jóhannes 12:10, 11) Lasarus var nývakinn upp frá dauðum og þessir prestar vildu sjá hann dauðan aftur! Þeim var ekki umhugað um vilja Guðs eða velferð fólksins. Þeir voru eigingjarnir og hugsuðu aðeins um eigin stöðu og eigin hag. „Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.“ (Jóhannes 12:43) En trúleysið varð þeim dýrkeypt. Árið 70 kom rómverskur her aftur og eyddi bæði helgidóm þeirra og þjóð. Margir trúarleiðtoganna týndu einnig lífi.
Trú í verki á okkar tímum
11. Hvernig sýndu menn ósvikna trú snemma á þessari öld?
11 Á þessari öld hafa margir einnig sýnt ósvikna trú, bæði karlar og konur. Snemma á öldinni sáu menn almennt fram á friðsæla og bjarta framtíð. Þeir sem trúðu á Jehóva boðuðu hins vegar að mestu erfiðleikatímar mannkyns til þessa væru að skella á. Það er það sem orð Guðs spáði í 24. kafla Matteusar, 3. kafla 2. Tímóteusarbréfs og víðar. Það sem þetta trúaða fólk sagði kom raunverulega fram með fyrri heimsstyrjöldinni árið 1914. Hinir ‚síðustu dagar‘ komu yfir heiminn, eins og boðað var, með ‚örðugum tíðum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Hvernig vissu þjónar Jehóva sannleikann um heimsástandið á þeim tíma sem aðrir gerðu ekki? Af því að þeir trúðu eins og Jósúa að ekkert orð Jehóva gæti brugðist.
12. Hvaða fyrirheitum Jehóva treysta nútímaþjónar hans algerlega?
12 Þjónar Jehóva setja traust sitt á hann og eru nú næstum sex milljónir um heim allan. Uppfyllt spádómsorð Guðs er þeim vitnisburður þess að hann bindi innan skamms enda á þetta ofbeldisfulla og siðlausa heimskerfi. Þeir treysta því að tíminn sé í nánd þegar þeir sjá 1. Jóhannesarbréf 2:17 rætast sem segir: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ Þjónar Jehóva treysta því fullkomlega að hann standi við fyrirheit sín.
13. Að hvaða marki geturðu treyst Jehóva?
13 Að hvaða marki geturðu treyst Jehóva? Þú getur treyst honum fyrir lífi þínu! Jafnvel þótt þú deyir núna í þjónustu hans gefur hann þér miklu betra líf í upprisunni. Jesús fullvissar okkur: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Þekkirðu einhvern lækni, stjórnmálaleiðtoga, vísindamann, kaupsýslumann eða nokkurn annan sem getur gert það? Sagan sýnir að þeir geta það ekki! Jehóva getur það hins vegar og gerir það.
Stórkostleg framtíð trúfastra manna
14. Hvaða stórkostlegri framtíð lofar orð Guðs trúföstum mönnum?
14 Jesús gaf til kynna hve öruggt það væri að nýr heimur kæmi undir stjórn ríkis Guðs á himnum: „Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matteus 5:5) Með því styrkti hann fyrirheit Guðs í Sálmi 37:29: „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ Og rétt fyrir dauða sinn sagði Jesús illvirkja sem lét í ljós trú á hann: „Þú skalt vera með mér í paradís.“ (Lúkas 23:43, NW) Jesús, konungur Guðsríkis, mun sjá til þess að þessi maður verði reistur upp hér á jörð og fái tækifæri til að lifa að eilífu í paradís. Þeir sem leggja traust sitt á ríki Jehóva nú á dögum geta líka hlakkað til að lifa í paradís þegar hann „mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ — Opinberunarbókin 21:4.
15, 16. Af hverju verður lífið svona friðsælt í nýja heiminum?
15 Við skulum ímynda okkur að nýi heimurinn sé genginn í garð og við séum stödd þar. Við tökum strax eftir að fólk er alls staðar hamingjusamt og býr saman í algerum friði. Það býr við ámóta skilyrði og lýst er í Jesaja 14:7: „Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við.“ Af hverju er fólk svona glatt? Ástæðurnar eru margar. Þú tekur til dæmis eftir að engir lásar eru á útihurðum. Þeirra er engin þörf því að afbrot og ofbeldi þekkist ekki. Ástandið er alveg eins og orð Guðs sagði að það yrði: „Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ — Míka 4:4.
16 Það eru engar styrjaldir heldur því að stríð eru bönnuð með öllu í nýja heiminum. Öllum vopnum hefur verið breytt í áhöld til friðsamlegra nota. Jesaja 2:4 hefur ræst til fullnustu: „Þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ En við bjuggumst líka við þessu. Af hverju? Af því að margir íbúar nýja heimsins höfðu lært þetta meðan þeir þjónuðu Guði í gamla heiminum.
17. Hvernig verða lífsskilyrðin undir stjórn Guðsríkis?
17 Þú tekur eftir öðru. Fátækt sést ekki; enginn er klæddur tötrum, enginn býr í sóðalegu hreysi og enginn er heimilislaus. Allir eiga þægilegt heimili og velhirta lóð með fallegum trjám og blómum. (Jesaja 35:1, 2; 65:21, 22; Esekíel 34:27) Og hungur er ekki til því að Guð hefur uppfyllt loforð sitt um kappnóg matvæli handa öllum: „Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum.“ (Sálmur 72:16) Dýrleg paradís teygir sig um alla jörðina undir umsjón Guðsríkis, alveg eins og Guð hafði í hyggju í Eden forðum. — 1. Mósebók 2:8.
18. Hvað mun ekki ógna mönnum framar í nýja heiminum?
18 Þú dáist líka að lífskrafti allra manna. Hann stafar af því að allir eru fullkomnir á huga og líkama. Sjúkdómar, kvöl og dauði eru ekki til lengur. Enginn er bundinn við hjólastól eða rúmliggjandi á spítala. Allt slíkt er horfið fyrir fullt og allt. (Jesaja 33:24; 35:5, 6) Mönnum stafar ekki heldur ógn af dýrunum því að þau eru orðin friðsöm vegna máttar Guðs. — Jesaja 11:6-8; 65:25; Esekíel 34:25.
19. Af hverju mun hver dagur í nýja heiminum hafa í för með sér ‚ríkulega gæfu‘?
19 Trúfastir byggjendur þessa nýja heims koma sér upp stórfenglegri siðmenningu. Þeir verja hæfni sinni og kröftum til gagnlegra verka, ekki skaðlegra; til samvinnu en ekki samkeppni. Og þú getur treyst öllum sem þú hittir því að allir eru ‚lærisveinar Jehóva‘ eins og hann lofaði. (Jesaja 54:13) Þar eð allir stjórnast af lögum Guðs er jörðin „full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Hver dagur í þessum nýja heimi er dagur ‚ríkulegrar gæfu‘ eins og Sálmur 37:11 sagði að verða myndi.
Hamingjurík framtíð tryggð
20. Hvað verðum við að gera til að njóta friðsællar framtíðar?
20 Hvað þurfum við að gera til að eiga hlut í þessari hamingjuríku framtíð? Jesaja 55:6 segir: „Leitið [Jehóva], meðan hann er að finna, kallið á hann, meðan hann er nálægur!“ Við þessa leit ættum við að hugsa eins og lýst er í Sálmi 143:10: „Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð.“ Þeir sem gera það geta gengið ráðvandir og flekklausir frammi fyrir Jehóva gegnum hina síðustu daga með fagra framtíð í vændum. „Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum, en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.“ — Sálmur 37:37, 38.
21, 22. Hvað er Guð að mynda nú á dögum og hvernig þjálfun fær þetta fólk?
21 Jehóva er núna að kalla út úr sérhverri þjóð þá sem vilja gera vilja hans. Hann er að mynda úr þeim grundvöll að nýju samfélagi sínu á jörðinni eins og biblíuspádómurinn sagði: „Það skal verða á hinum síðustu dögum [tímanum sem við lifum], að . . . margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva] [upphafinnar tilbeiðslu hans] . . . svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.‘“ — Jesaja 2:2, 3.
22 Opinberunarbókin 7:9 lýsir þeim sem ‚miklum múgi af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ Fjórtánda versið segir: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu.“ Þeir lifa af endalok núverandi heimskerfis. Nú þegar hafa safnast saman næstum sex milljónir manna í þennan grundvöll nýja heimsins og margir nýir bætast við ár hvert. Öllum þessum trúföstu þjónum Jehóva er veitt þjálfun fyrir lífið í nýjum heimi hans. Þeir eru að tileinka sér þá andlegu kunnáttu og aðra færni sem þarf til að breyta jörðinni í paradís. Og þeir treysta því fullkomlega að paradís verði að veruleika af því að „trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið.“ — Hebreabréfið 10:23.
Til upprifjunar
◻ Hvaða afleiðingar hafði trúleysi manna á fyrstu öld?
◻ Að hvaða marki geta þjónar Guðs treyst honum?
◻ Hvaða framtíð bíður trúfastra manna?
◻ Hvað þurfum við að gera til að tryggja okkur hamingjuríka framtíð í nýjum heimi Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 17]
Jehóva er að mynda grundvöll nýs samfélags á jörð.