Af hverju grípur fólk til ofbeldis?
DRENGURINN fæddist fyrir tímann á spítala í Denver í Colorado í Bandaríkjunum eftir 27 vikna meðgöngu. Hann lifði og foreldrarnir tóku við honum eftir að hann hafði verið þrjá mánuði á spítalanum. Þrem vikum síðar var drengurinn lagður inn á spítalann aftur með stórfelldan heilaskaða. Hvað hafði gerst? Faðirinn þoldi ekki grátinn í honum og hristi hann ofsalega. Litli drengurinn varð blindur og bæklaður fyrir vikið. Læknavísindin höfðu bjargað honum þótt hann fæddist löngu fyrir tímann en þau gátu ekki hlíft honum við ofbeldi föðurins.
Óteljandi börn eru barin, svívirt og drepin á einhverjum hættulegasta stað jarðar — heimilinu. Sumir telja að í Bandaríkjunum deyi allt að 5000 börn á ári af völdum foreldra sinna. Og börnin eru ekki einu fórnarlömbin. Að sögn tímaritsins World Health er „heimilisofbeldi algengasta orsök meiðsla meðal kvenna á barneignaraldri“ í Bandaríkjunum. Hvað um önnur lönd? „Á bilinu þriðjungur til rösklega helmingur kvenna, sem spurðar voru [í þróunarlöndunum], sögðust hafa sætt barsmíð af hendi maka síns.“ Já, ofbeldið tekur sinn toll, einkum á heimilinu.
Mörg hjón reyna að útkljá deilumál sín með ofbeldi. Sums staðar gefa foreldrar og kennarar reiði sinni útrás með því að níðast á börnunum. Ribbaldar skemmta sér við að áreita þá sem minna mega sín og beita þá ofbeldi. Af hverju eru menn svona ofbeldishneigðir?
Af hverju verður fólk ofbeldishneigt?
Sumir segja að ofbeldishneigðin sé okkur í blóð borin. Þótt ofbeldisglæpum hafi fækkað í Bandaríkjunum þegar á heildina er litið hefur þeim fjölgað meðal unglinga. Og ofbeldisáhuginn hefur aukist. Þrjár stærstu sjónvarpsstöðvarnar slá upp helmingi fleiri glæpum en áður og hafa þrefaldað umfjöllun sína um morð. Glæpir eru ágæt söluvara. „Það er ekki nóg með það að við sættum okkur við ofbeldið heldur sláum við því upp á forsíðum dagblaða,“ segir geðlæknirinn Karl Menningar. „Í þriðjungi til fjórðungi sjónvarpsefnis er ofbeldi notað sem skemmtiefni handa börnum. Við sættum okkur ekki bara við ofbeldið, kæru vinir, við elskum það!“
Nýlegar vísindarannsóknir benda til að árásarhneigð manna stjórnist bæði af líffræði heilans og umhverfinu. „Við erum allir að komast á þá skoðun að ofbeldisfaraldur sé að brjótast út, og að hinu skaðlega umhverfi, sem æ fleiri börn búa við, sé um að kenna,“ segir dr. Markus J. Kruesi við Unglingarannsóknarstofnun Illinois-háskóla. „Atburðir í umhverfinu valda raunverulegum, efnafræðilegum breytingum í heilanum sem gera fólk hvatvísara.“ Umhverfisþættir eins og „hrun hefðbundinnar fjölskyldugerðar, fjölgun einstæðra foreldra, langvinn fátækt og langvarandi fíkniefnanotkun geta raunverulega sett efnabúskap heilans í árásarham — sem var einu sinni talið óhugsandi,“ segir bókin Inside the Brain.
Því er haldið fram að ein af breytingunum í heilanum sé lækkað serótónínstig en það er heilaboðefni sem talið er hamla árásarhneigð. Rannsóknir hafa leitt í ljós að áfengi getur lækkað serótónínstig heilans, og þar með er fundin einhver vísindaleg skýring á hinum alþekktu tengslum ofbeldis og misnotkunar áfengis.
Ofbeldisalda nútímans á sér einnig aðrar orsakir. „Vita skalt þú þetta,“ segir traust spádómsbók, það er að segja Biblían, „að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, . . . kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir . . . Snú þér burt frá slíkum!“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Já, ofbeldið, sem við sjáum núna, er uppfylling biblíuspádóms um hina ‚síðustu daga.‘
Og annað veldur því að ofbeldið er sérstaklega mikið. „Vei sé jörðunni og hafinu,“ segir Biblían, „því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Djöflinum og illum öndum hans hefur verið kastað niður af himnum og þeir beina allri vonsku sinni að mannkyninu. Djöfullinn er ‚valdhafinn í loftinu‘ og stjórnar ‚andanum sem nú starfar í þeim sem ekki trúa‘ með þeim afleiðingum að ofbeldið eykst jafnt og þétt á jörðinni. — Efesusbréfið 2:2.
Hvernig getum við varist ofbeldisanda umheimsins? Og hvernig getum við leyst ágreining án ofbeldis?
[Innskot á blaðsíðu 3]
Óteljandi börn eru barin, svívirt og drepin á einhverjum hættulegasta stað jarðar — heimilinu.