Hvernig getur Jesús breytt lífi þínu?
JESÚS KRISTUR var mikill kennari í Palestínu fyrir næstum 2000 árum. Fátt er vitað um bernsku hans. Hins vegar er það vel vottfest að hann hóf það starf sitt að ‚bera sannleikanum vitni‘ þegar hann var um þrítugt. (Jóhannes 18:37; Lúkas 3:21-23) Ævisöguritarar hans fjórir beindu athyglinni að næstu þrem og hálfu ári í ævi hans.
Jesús Kristur gaf lærisveinum sínum boðorð sem segja má að feli í sér ráð við mörgum af meinum mannkyns. Hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ (Jóhannes 13:34) Já, kærleikur er lausnin á mörgum af vandamálum mannkyns. Þegar Jesús var spurður við annað tækifæri hvert væri æðsta boðorðið svaraði hann: „‚Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.‘ Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: ‚Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.‘“ — Matteus 22:37-40.
Jesús sýndi bæði í orði og verki hvernig kærleikurinn til Guðs og náungans ætti að birtast. Við skulum líta á nokkur dæmi og sjá hvað við getum lært af honum.
Kenningar hans
Í einhverri þekktustu ræðu, sem flutt hefur verið, sagði Jesús Kristur fylgjendum sínum: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Matteus 6:24) Er það raunhæft nú á tímum, þegar margir álíta að peningar leysi öll vandamál, að láta Guð ganga fyrir í lífi sínu eins og Jesús kenndi? Við þurfum auðvitað peninga til að framfleyta okkur. (Prédikarinn 7:12) En ef „mammón“ er húsbóndi okkar nær „fégirndin“ tökum á okkur og stjórnar öllu lífi okkar. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Margir, sem hafa fallið í þá gildru, hafa glatað fjölskyldunni, heilsunni og jafnvel lífinu.
Hins vegar gefur það lífinu gildi að gera Guð að húsbónda sínum og herra. Hann er skapari okkar og uppspretta lífsins. Þess vegna er hann einn verðugur tilbeiðslu okkar. (Sálmur 36:10; Opinberunarbókin 4:11) Þeir sem kynnast eiginleikum hans og læra að elska hann finna sig knúna til að halda boðorð hans. (Prédikarinn 12:13; 1. Jóhannesarbréf 5:3) Um leið gera þeir sjálfum sér gagn. — Jesaja 48:17.
Jesús benti lærisveinum sínum einnig á það í fjallræðunni hvernig þeir ættu að sýna náungakærleika. Hann sagði: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) „Aðrir menn,“ sem Jesús nefnir, geta jafnvel verið óvinir manns. Hann sagði annars staðar í fjallræðunni: „Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður.“ (Matteus 5:43, 44) Ætli slíkur kærleikur geti ekki leyst mörg af þeim vandamálum sem við eigum við að glíma? Hindúaleiðtoginn Mohandas Gandhi var þeirrar skoðunar. Haft er eftir honum: „Þegar [við] sameinumst um þær kenningar sem Kristur setti fram í fjallræðunni, þá höfum við leyst vandamál . . . alls heimsins.“ Kærleiksboð Jesú getur læknað meinsemdir mannkynsins ef eftir þeim er farið.
Verk hans
Jesús kenndi ekki aðeins djúptæk sannindi um kærleikann heldur fór líka eftir því sem hann kenndi. Til dæmis lét hann hag annarra ganga fyrir sínum eigin. Dag einn voru Jesús og lærisveinar hans svo uppteknir við að hjálpa fólki að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast. Jesú var ljóst að lærisveinarnir þyrftu að hvílast um stund svo að hann fór með þá á óbyggðan stað. En þegar þangað kom beið mikill mannfjöldi eftir þeim. Hvernig myndir þú bregðast við ef þú stæðir frammi fyrir mannfjölda sem ætlaðist til að þú ynnir þegar þér fyndist þú vera hvíldarþurfi? Jesús „kenndi í brjósti um þá“ og „kenndi þeim margt.“ (Markús 6:30-34) Umhyggja hans fyrir öðrum var svo sterk að hún knúði hann alltaf til að hjálpa þeim.
Góðverk Jesú voru ekki einvörðungu fólgin í kennslu heldur einnig í því að fullnægja líkamlegum þörfum fólks. Til dæmis mettaði hann einu sinni meira en 5000 manns sem höfðu hlýtt á hann langt fram eftir degi. Skömmu síðar mettaði hann ríflega 4000 manns sem höfðu hlýtt á hann í þrjá daga og voru orðnir matarlausir. Í fyrra sinnið notaði hann til verksins fimm brauðhleifa og tvo fiska en í hið síðara sjö brauð og fáeina smáfiska. (Matteus 14:14-21; 15:32-38) Kraftaverk? Já, hann var kraftaverkamaður.
Jesús læknaði fjölda sjúkra. Hann læknaði blinda, halta, holdsveika og heyrnarlausa. Hann reisti jafnvel upp dána! (Lúkas 7:22; Jóhannes 11:30-45) Einu sinni bað holdsveikur maður hann ásjár: „Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig.“ Hvernig brást Jesús við? „Hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: ‚Ég vil, verð þú hreinn!‘“ (Markús 1:40, 41) Með kraftaverkum sínum sýndi hann kærleika sinn til bágstaddra.
Ertu vantrúaður á kraftaverk Jesú? Sumir eru það. En mundu að þau voru flest unnin í fjölmenni. Andstæðingar hans, sem reyndu að finna honum allt til foráttu, gátu ekki einu sinni neitað því að hann hefði unnið þessi kraftaverk. (Jóhannes 9:1-34) Og kraftaverkin gegndu ákveðnum tilgangi. Þau sýndu fólki fram á að hann væri sendur af Guði. — Jóhannes 6:14.
Með kraftaverkum sínum var Jesús ekki að draga athygli að sjálfum sér heldur vegsama Guð sem hann fékk kraft sinn frá. Einu sinni var hann staddur á heimili í Kapernaum ásamt miklum fjölda fólks. Lamaður maður vildi fá lækningu en komst ekki inn. Vinir hans rufu þá þakið og létu hann síga niður á börum. Jesús sá trú þeirra og læknaði lamaða manninn. Fólkið ‚lofaði Guð‘ og sagði: „Aldrei áður höfum vér þvílíkt séð.“ (Markús 2:1-4, 11, 12) Kraftaverk Jesú vegsömuðu Jehóva, Guð hans, og hjálpuðu þeim sem þurfandi voru.
En kraftaverkalækningar voru ekki kjarninn í þjónustu Jesú. Einn af ævisöguriturum hans sagði: „Þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“ (Jóhannes 20:31) Já, Jesús kom til jarðar til að trúaðir menn gætu hlotið líf.
Fórn hans
‚Jesús kom til jarðar?‘ spyrðu kannski. ‚Hvaðan kom hann?‘ Hann sagði sjálfur: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.“ (Jóhannes 6:38) Hann var til sem eingetinn sonur Guðs áður en hann varð maður. Hver var þá vilji hans sem sendi hann til jarðar? „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn,“ segir Jóhannes, einn guðspjallaritaranna, „til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóhannes 3:16) Hvernig var þetta mögulegt?
Biblían opinberar hvernig dauðinn varð óumflýjanlegt hlutskipti mannkynsins. Fyrstu mannhjónin fengu lífið að gjöf frá Guði og áttu í vændum að lifa eilíflega. En þau kusu að gera uppreisn gegn skapara sínum. (1. Mósebók 3:1-19) Vegna þessarar fyrstu syndar mannanna fengu afkomendur Adams og Evu dauðann í vöggugjöf. (Rómverjabréfið 5:12) Til að gefa mannkyninu hið sanna líf þarf að útrýma synd og dauða.
Enginn vísindamaður getur útrýmt dauðanum með erfðatækni. Skapari mannkynsins er hins vegar fær um að veita hlýðnum mönnum fullkomleika svo að þeir geti lifað að eilífu. Biblían kallar þessa ráðstöfun lausnargjaldið. Fyrstu mannhjónin seldu sig og afkomendur sína í þrælkun syndar og dauða. Þau kusu frekar að vera óháð Guði og ákveða sjálf hvað væri rétt og rangt en að hlýða honum og varðveita fullkomleika sinn. Til að kaupa aftur fullkomið líf handa manninum þurfti að greiða gjald sem jafngilti hinu fullkomna lífi sem fyrstu foreldrar okkar fyrirgerðu. Þar eð allir menn höfðu erft ófullkomleikann var enginn þeirra fær um að greiða gjaldið. — Sálmur 49:8.
Jehóva Guð skarst því í leikinn. Hann flutti fullkomið líf eingetins sonar síns í móðurkvið meyjar sem fæddi síðan Jesú. Fyrir nokkrum áratugum hefði þér kannski þótt fráleitt að meyjarfæðing gæti átt sér stað. Nú hafa vísindamenn hins vegar einræktað spendýr og flutt gen úr einu dýri í annað. Hver getur véfengt með réttu að skaparinn sé fær um að láta getnað eiga sér stað með óvenjulegum hætti?
Með tilkomu fullkomins mannslífs lágu fyrir þau verðmæti sem þurfti til að kaupa mannkynið undan synd og dauða. En áður en það gat gerst þurfti barnið Jesús að vaxa upp svo að það gæti orðið „læknir“ og gefið mannkyni það „lyf“ sem þurfti til að lækna meinsemdir þess. Þetta gerði Jesús með fullkomnu og syndlausu lífi sínu. Hann sá ekki aðeins angist mannkynsins undir oki syndarinnar heldur kynntist líka af eigin raun hvernig það var að vera maður. Fyrir vikið varð hann enn meðaumkunarsamari læknir. (Hebreabréfið 4:15) Kraftaverkalækningar hans meðan hann var á jörðinni sönnuðu að hann bæði vildi lækna sjúka og gat það. — Matteus 4:23.
Andstæðingar Jesú drápu hann eftir þriggja og hálfs árs þjónustu hér á jörð. Hann sýndi fram á að fullkominn maður getur jafnvel verið skaparanum hlýðinn í erfiðustu prófraunum. (1. Pétursbréf 2:22) Hið fullkomna mannslíf, sem hann fórnaði, var lausnargjaldið sem gat keypt mannkynið undan synd og dauða. Jesús Kristur sagði: „Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóhannes 15:13) Á þriðja degi eftir dauða sinn var hann reistur upp sem andavera, og nokkrum vikum síðar steig hann upp til himna til að bera lausnargjaldið fram fyrir Jehóva Guð. (1. Korintubréf 15:3, 4; Hebreabréfið 9:11-14) Þar með gat Jesús beitt verðgildi lausnarfórnarinnar í þágu fylgjenda sinna.
Langar þig til að njóta góðs af þessari andlegu, tilfinningalegu og líkamlegu lækningu sem þér stendur til boða? Til að gera það þarftu að trúa á Jesú Krist. Hvernig væri að leita sjálfur „læknishjálpar“ hjá honum? Það geturðu gert með því að fræðast um Jesú Krist og hlutverk hans í að bjarga trúföstu mannkyni. Vottar Jehóva eru meira en fúsir til að veita þér aðstoð.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Jesús er bæði fús til að lækna sjúka og fær um það.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Hvaða áhrif hefur dauði Jesú á þig?