Það sem Jósúa gleymdi ekki
„MÓSE þjónn minn er dáinn,“ sagði Jehóva. „Leggðu nú af stað yfir Jórdan, þú og allt þetta fólk, og farið inn í landið sem ég gef ykkur.“ (Jósúabók 1:2) Þetta var ekkert smáræðis verkefni sem Jósúa fékk! Hann hafði verið aðstoðarmaður Móse í næstum 40 ár. Nú átti hann að taka við hlutverki meistara síns og leiða Ísraelsþjóðina, sem var oft uppreisnargjörn, inn í fyrirheitna landið.
Þegar Jósúa hugsaði um það sem beið hans hefur hann kannski rifjað upp erfiðleikana sem hann hafði yfirstigið. Reynslan hefur eflaust komið honum að gagni. Og hún getur líka nýst þjónum Guðs nú á dögum.
Þræll verður foringi
Jósúa hafði verið þræll í mörg ár. (2. Mósebók 1:13, 14; 2:23) Biblían greinir ekki frá því hvernig líf hans var þá þannig að við getum aðeins ímyndað okkur það. Ef til vill lærði hann að vera góður skipuleggjandi á þessum tíma og aðstoðaði því við að skipuleggja flótta Gyðinga og ‚fjölmenns blandaðs hóps‘ úr landinu. – 2. Mósebók 12:38.
Jósúa var af ættkvísl Efraíms. Elísama afi hans var höfðingi ættkvíslarinnar og að því er virðist foringi tveggja ættkvísla til viðbótar, alls 108.100 vopnaðra manna. (4. Mósebók 1:4, 10, 16; 2:18–24; 1. Kroníkubók 7:20, 26, 27) En þegar Amalekítar réðust á Ísraelsmenn stuttu eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland fékk Móse Jósúa til að skipuleggja varnirnar. (2. Mósebók 17:8, 9a) Hvers vegna valdi hann Jósúa en ekki föður hans eða afa? Fræðimaður kemur með þá skýringu að Móse hafi valið Jósúa til að skipuleggja og leiða herinn vegna þess að hann var þegar virtur í sinni ættkvísl og fólk treysti honum best til þess.
Hvað sem öðru líður gerði Jósúa eins og Móse fyrirskipaði. Jósúa var viss um stuðning Guðs þótt Ísraelsmenn væru algerlega óreyndir í hernaði. Það dugði til að sannfæra Jósúa þegar Móse sagði: „Á morgun ætla ég að standa efst uppi á hæðinni með staf hins sanna Guðs í hendinni.“ Það var Jósúa eflaust í fersku minni að Jehóva var nýbúinn að þurrka út öflugasta her þess tíma. Næsta dag, þegar Móse hélt höndunum á lofti þar til sól var sest, gat enginn óvinur staðið gegn Ísrael og Amalekítar voru gersigraðir. Þá sagði Jehóva Móse að skrifa í bók: „Ég ætla að eyða Amalekítum af yfirborði jarðar og þeirra verður ekki minnst framar.“ Hann átti síðan að lesa það fyrir Jósúa. (2. Mósebók 17:9b–14) Jehóva ætlaði sannarlega að refsa Amalekítum.
Sem aðstoðarmaður Móse
Viðureignin við Amalekíta hlýtur að hafa styrkt vináttu Jósúa og Móse. Jósúa fékk að vera persónulegur aðstoðarmaður eða þjónn Móse „frá unga aldri“ þangað til Móse féll frá, í um 40 ára skeið. – 4. Mósebók 11:28.
Jósúa gegndi greinilega mikilvægu ábyrgðarstarfi. Þegar Móse, Aron, synir hans og 70 öldungar Ísraels fóru upp á Sínaífjall og sáu dýrð Jehóva var Jósúa líklega með í hópnum. Þar sem hann var aðstoðarmaður Móse fór hann með honum hærra upp á fjallið og beið augljóslega í nokkurri fjarlægð þegar Móse gekk inn í skýið sem táknaði nærveru Jehóva. Svo virðist sem Jósúa hafi líka verið á fjallinu í 40 daga og 40 nætur. Hann beið trúfastur eftir meistara sínum því hann tók á móti honum þegar hann kom til baka með vitnisburðartöflurnar. – 2. Mósebók 24:1, 2, 9–18; 32:15–17.
Eftir að Ísraelsmenn bjuggu til gullkálfinn og tilbáðu hann hélt Jósúa áfram sem aðstoðarmaður Móse við samfundatjaldið sem var fyrir utan tjaldbúðirnar. Jehóva talaði þar við Móse augliti til auglitis. En þegar Móse sneri aftur til tjaldbúðanna varð Jósúa „eftir í tjaldinu“. Ef til vill þurfti hann að gera það til að koma í veg fyrir að Ísraelsmenn færu þar inn á meðan þeir væru enn óhreinir. Jósúa tók hlutverk sitt sannarlega alvarlega. – 2. Mósebók 33:7, 11.
Samkvæmt Jósefusi, sagnaritara Gyðinga á fyrstu öld, var Jósúa 35 árum yngri en Móse. Það hlýtur að hafa styrkt trú Jósúa mjög mikið að vinna við hlið Móse. Fræðimenn hafa sagt að samband Móse og Jósúa hafi verið eins og samband lærimeistara og nemanda. Þjálfunin sem Jósúa fékk hefur gert hann sterkan og áreiðanlegan. Við höfum ekki spámenn eins og Móse en meðal fólks í söfnuðum Jehóva eru aldraðir sem geta hvatt okkur og uppörvað vegna reynslu sinnar og sambands við Jehóva. Kanntu að meta þá? Og hefurðu gagn af samveru við þá?
Njósnari í Kanaanslandi
Stuttu eftir að Ísraelsmenn fengu lögin komu upp örlagaríkar aðstæður í lífi Jósúa. Hann var valinn til að verða fulltrúi ættkvíslar sinnar til kanna fyrirheitna landið. Þetta er vel þekkt saga. Allir njósnararnir 12 voru sammála um að landið ‚flyti í mjólk og hunangi‘ eins og Jehóva hafði lofað. En tíu þeirra skorti trú og þeir óttuðust að Ísraelsmenn gætu ekki sigrað íbúa landsins. Aðeins Jósúa og Kaleb sögðu fólkinu að óttast ekki og gera ekki uppreisn á móti Jehóva því hann yrði með þeim. Þá mótmælti fólkið og sú hugmynd kom upp að grýta Jósúa og Kaleb. Ef til vill hefði sú orðið raunin ef Jehóva hefði ekki skorist í leikinn og birt dýrð sína. Guð sagði að enginn af þeim sem voru skrásettir, tvítugir og eldri, fengju að fara inn í Kanaansland vegna þess að þá skorti trú. Aðeins Jósúa og Kaleb og Levítarnir myndu komast inn í landið. – 4. Mósebók 13:1–16, 25–29; 14:6–10, 26–30.
Hafði ekki allt fólkið orðið vitni að máttarverkum Jehóva í Egyptalandi? Hvers vegna treysti Jósúa á hjálp Guðs á meðan meirihluti fólksins efaðist? Jósúa hlýtur að hafa haft skýrt í huga allt sem Jehóva hafði lofað og gert og hugleitt það. Mörgum árum síðar gat hann sagt: „Ekki eitt orð hefur brugðist af öllum þeim góðu loforðum sem Jehóva Guð ykkar hefur gefið ykkur. Þau hafa öll ræst.“ (Jósúabók 23:14) Jósúa hafði þá trú að öll loforð sem Jehóva hafði gefið um framtíðina myndu líka verða að veruleika. (Hebreabréfið 11:6) Við ættum að spyrja: Hvað með mig? Hef ég lagt mig fram við að ígrunda loforð Jehóva og hefur það sannfært mig um að þau rætist? Trúi ég því að Guð geti verndað mig ásamt fólki sínu í þrengingunni miklu sem er fram undan?
Jósúa hafði sterka trú og hann hafði líka hugrekki til að gera það sem var rétt. Hann og Kaleb stóðu einir á móti öllum söfnuðinum sem hótaði að grýta þá. Hvernig hefði þér liðið? Hefðirðu orðið hræddur? Ekki Jósúa. Hann og Kaleb voru ákveðnir og tóku skýra afstöðu. Tryggð við Jehóva gæti krafist þess að við gerðum einhvern tíma slíkt hið sama.
Það er við þetta tækifæri sem nafni Jósúa var breytt. Upphaflega hét hann Hósea sem merkir „hjálpræði“ en Móse gaf honum nafnið Jehósúa sem merkir „Jehóva er hjálpræði“. Í Grísku Sjötíumannaþýðingunni er hann nefndur „Jesús“. (4. Mósebók 13:8, 16, neðanmáls) Jósúa stóð undir þessu frábæra nafni og kunngerði hjálpræði Jehóva af hugrekki. Það var ekki að ástæðulausu að nafni Jósúa var breytt. Það endurspeglaði virðingu Móse fyrir Jósúa og var í samræmi við það háleita hlutverk hans að leiða nýja kynslóð inn í fyrirheitna landið.
Ísraelsmenn reikuðu í 40 lýjandi ár um óbyggðirnar á meðan eldri kynslóðin týndi tölunni. Öll þessi ár kemur Jósúa ekki við sögu. En án efa hefur hann lært heilmikið á þessum tíma. Að öllum líkindum varð hann vitni að því þegar Guð dæmdi uppreisnarseggina Kóra, Datan og Abíram og þá sem fylgdu þeim að málum og eins þá sem lögðust svo lágt að tilbiðja Baal Peór. Það hefur án efa hryggt hann mjög að Móse skyldi ekki heldur fá að fara inn í fyrirheitna landið vegna þess að hann gaf Jehóva ekki heiðurinn við Meríbavötn. – 4. Mósebók 16:1–50; 20:9–13; 25:1–9.
Skipaður eftirmaður Móse
Þegar dauði Móse nálgaðist bað hann Guð að útnefna eftirmann svo að Ísraelsmenn yrðu ekki „eins og sauðir án hirðis“. Hvernig brást Jehóva við? Jósúa var „dugmikill maður“ og það átti að gera hann að leiðtoga frammi fyrir allri þjóðinni. Hún átti að hlusta á hann. Hvílík meðmæli! Jehóva hafði séð trú Jósúa og hæfni hans. Það hefði ekki verið hægt að fela hæfari manni forystuna. (4. Mósebók 27:15–20) En Móse vissi að það átti eftir að reyna verulega á Jósúa. Þess vegna hvatti hann eftirmann sinn til að vera „hugrakkur og sterkur“ því að Jehóva myndi vera með honum. – 5. Mósebók 31:7, 8.
Jehóva endurtók sömu hvatninguna við Jósúa og bætti síðan við: „Fylgdu vandlega öllum lögunum sem Móse þjónn minn setti þér. Víktu ekki frá þeim, hvorki til hægri né vinstri. Þá ferðu skynsamlega að ráði þínu hvert sem þú ferð. Þessi lögbók á ekki að víkja frá munni þínum. Lestu í henni lágum rómi dag og nótt svo að þú farir vandlega eftir öllu sem stendur í henni. Þá verður þú farsæll og gerir það sem er skynsamlegt. Hef ég ekki sagt þér að vera hugrakkur og sterkur? Vertu ekki hræddur eða óttasleginn því að Jehóva Guð þinn er með þér hvert sem þú ferð.“ – Jósúabók 1:7–9.
Hvernig ætti Jósúa að geta efast með þessi orð ómandi í eyrunum og með þá reynslu sem hann hafði þegar öðlast? Það var alveg öruggt að Ísraelsmenn myndu leggja landið undir sig. Erfiðleikar ættu eftir að mæta þeim. Fyrir það fyrsta þurfti þjóðin að komast yfir Jórdanána sem flæddi yfir bakka sína. En Jehóva sjálfur hafði fyrirskipað: „Leggðu nú af stað yfir Jórdan.“ Var þá eftir nokkru að bíða? – Jósúabók 1:2.
Það sem gerðist í lífi Jósúa eftir það sýnir að hann missti aldrei sjónar á loforðum Guðs. Undir forystu hans unnu Ísraelsmenn Jeríkó, yfirbuguðu óvini sína jafnt og þétt og skiptu landinu. Þegar dauði hans nálgaðist og Jehóva hafði gefið Ísrael hvíld frá óvinum sínum safnaði Jósúa þjóðinni saman til að fara yfir samskipti Guðs við hana og hvetja hana til að þjóna honum heils hugar. Það varð til þess að Ísraelsmenn endurnýjuðu heils hugar sáttmála sinn við Jehóva eins og leiðtogi þeirra hafði gert og „Ísraelsmenn þjónuðu Jehóva meðan Jósúa var á lífi“. – Jósúabók 24:16, 31.
Jósúa er okkur frábær fyrirmynd. Kristnir menn mæta alls konar trúarprófraunum. Þegar við stöndumst þær varðveitum við velþóknun Jehóva og munum erfa það sem hann hefur lofað. Velgengni Jósúa byggðist á sterkri trú hans. Við höfum að vísu ekki upplifað máttarverk Guðs eins og Jósúa gerði. En ef einhver skyldi efast um að orð Jehóva séu áreiðanleg inniheldur bókin sem ber nafn Jósúa vitnisburð sjónarvotts um að þau eru það. Líkt og Jósúa er okkur heitið velgengni ef við lesum orð Guðs daglega og gætum þess að fara eftir því.
Ert þú stundum sár vegna breytni trúsystkina þinna? Hugleiddu þá úthald Jósúa í 40 ár, þegar hann þurfti að reika um óbyggðirnar með trúlausu samferðafólki þótt hann hefði hlýtt Jehóva. Finnst þér erfitt að verja trú þína? Mundu þá eftir því sem Jósúa og Kaleb gerðu. Þeir fengu frábæra umbun fyrir trú sína og hlýðni. Já, Jósúa trúði sannarlega að Jehóva myndi efna loforð sín. Megi það sama eiga við um okkur. – Jósúabók 23:14.
[Mynd á bls. 10]
Jósúa og Kaleb treystu á mátt Jehóva.
[Mynd á bls. 10]
Vinátta Móse styrkti trú Jósúa.
[Mynd á bls. 10]
Forysta Jósúa var fólkinu hvatning til að halda sig nálægt Jehóva.