Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w10 15.1. bls. 24-28
  • Misheppnað stjórnarfar Satans

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Misheppnað stjórnarfar Satans
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Endar með ósköpum
  • Af hverju leyfði Guð þetta?
  • Uppreisnin hefur orðið til þess að upphefja Jehóva
  • Af hverju er heimurinn sjúkur?
  • Stjórnarfar Jehóva er hið eina rétta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Hvers vegna leyfir Guð þjáningar?
    Þekking sem leiðir til eilífs lífs
  • Jehóva er kærleiksríkur Guð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Vertu á verði – Satan vill tortíma þér
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
w10 15.1. bls. 24-28

Misheppnað stjórnarfar Satans

„Hinum rangláta mun ekki vel vegna.“ — PRÉD. 8:13.

1. Af hverju er hughreystandi til þess að vita að ranglátir og óguðlegir verða dæmdir innan tíðar?

FYRR eða síðar þurfa ranglátir og óguðlegir að svara til saka. Þeir þurfa að taka afleiðingum illra verka sinna. (Orðskv. 5:22; Préd. 8:12, 13) Það er hughreystandi til að vita, ekki síst fyrir þá sem unna réttlætinu og hafa mátt þola óréttlæti og illa meðferð af hendi óguðlegra. Satan djöfullinn, faðir illskunnar, þarf öðrum fremur að svara til saka fyrir vonskuverk sín. — Jóh. 8:44.

2. Af hverju tæki það sinn tíma að útkljá deilumálið sem kom upp í Eden?

2 Satan var heltekinn af hroka þegar hann fékk mennina til að hafna stjórn Jehóva í Eden forðum daga. Það varð til þess að foreldrar mannkyns gengu í lið með Satan og véfengdu að Jehóva væri réttmætur stjórnandi. Þar með urðu þau syndug í augum hans. (Rómv. 5:12-14) Jehóva vissi auðvitað hvernig uppreisn þeirra og óvirðing myndi enda. Það þurfti hins vegar að sýna öllum skynsemigæddum sköpunarverum hans fram á að þetta væri óhjákvæmileg niðurstaða. Það tæki sinn tíma að útkljá deilumálið og sýna fram á að uppreisnarseggirnir hefðu kolrangt fyrir sér.

3. Hvernig lítum við á mennskar stjórnir?

3 Þar eð mennirnir höfnuðu yfirráðum Jehóva urðu þeir að koma á fót eigin stjórnkerfi. Páll postuli talaði um slíkar stjórnir manna í bréf til trúsystkina í Róm og nefndi þær ,yfirvöld‘. Þegar það var skrifað voru yfirvöldin fyrst og fremst stjórnvöldin í Róm undir forystu Nerós keisara en hann var við völd á árabilinu 54-68. Páll sagði um yfirvöldin: „Þau sem eru til hefur Guð skipað.“ (Lestu Rómverjabréfið 13:1, 2.) Hvað þýðir það? Merkir það að Páll hafi aðhyllst stjórn manna frekar en stjórn Guðs? Alls ekki. Páll var einfaldlega að segja að á meðan Jehóva leyfir stjórnum manna að vera við völd ættu kristnir menn að virða það fyrirkomulag sem hann leyfir og viðurkenna slíka valdhafa.

Endar með ósköpum

4. Af hverju hlýtur stjórn manna að misheppnast?

4 En stjórn manna undir áhrifum Satans getur ekki annað en misheppnast. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að hún er ekki byggð á visku Guðs. Enginn nema Jehóva býr yfir fullkominni visku. Hann er sá eini sem getur gefið áreiðanlegar leiðbeiningar um farsælt stjórnarfar. (Jer. 8:9; Rómv. 16:27) Jehóva veit alltaf hvaða aðferð er best, ólíkt mönnunum sem þurfa oft að prófa sig áfram og læra af reynslunni. Hver sú stjórn, sem fylgir ekki leiðsögn hans, hlýtur að vera misheppnuð. Af þessari ástæðu einni var tilraun Satans til að stjórna fyrir milligöngu manna dauðadæmd frá upphafi — og þá er ekki búið að nefna þær illu hvatir sem bjuggu að baki.

5, 6. Hver var greinilega ástæðan fyrir því að Satan snerist gegn Jehóva?

5 Skynsamur maður ræðst sjaldan í verkefni sem er dauðadæmt frá upphafi. Ef hann gerir það samt sem áður neyðist hann fyrr eða síðar til að horfast í augu við mistök sín. Sagan hefur margsannað að það er út í hött að reyna að standa gegn alvöldum skapara alheims. (Lestu Orðskviðina 21:30.) Satan var hins vegar blindaður af sjálfsánægju og hroka og sneri baki við Jehóva. Hann fór því vitandi vits út á braut sem hlaut að enda með ósköpum.

6 Satan sýndi sama hroka og ósvífni og valdhafi einn í Babýlon sem sagði digurbarkalega: „Ég skal stíga upp til himins, ofar stjörnum Guðs, þar skal ég reisa hásæti mitt. Á þingfjalli guðanna tek ég mér sæti, yst í norðri. Ég skal stíga ofar hæstu skýjum, líkjast Hinum hæsta.“ (Jes. 14:13-15) Heimskulegar fyrirætlanir þessa valdhafa urðu að engu og babýlonska konungsættin leið undir lok með vansæmd. Á svipaðan hátt munu Satan og heimur hans líða undir lok innan skamms.

Af hverju leyfði Guð þetta?

7, 8. Að hvaða leyti hefur það verið til góðs að Jehóva skuli hafa leyft illskuna um tíma?

7 Sumum er ef til vill spurn hvers vegna Jehóva hafi ekki komið í veg fyrir að mennirnir tæku afstöðu með Satan og settu á fót stjórnskipan sem hlaut að misheppnast. Þar sem hann er alvaldur Guð hefði hann auðvitað getað það. (2. Mós. 6:3) En hann gerði það samt ekki. Í visku sinni sá hann að til langs tíma litið væri það fyrir bestu að grípa ekki fram fyrir hendurnar á mönnunum heldur leyfa þeim að halda uppreisninni áfram. Með tíð og tíma yrði það deginum ljósara að Jehóva væri réttlátur og kærleiksríkur stjórnandi, og að ákvörðun hans yrði til góðs fyrir þjóna hans á jörð.

8 Mannkyninu hefði verið hlíft við ólýsanlegum þjáningum ef mennirnir hefðu vísað Satan á bug og ekki reynt að verða óháðir stjórn Guðs. En sú ákvörðun Jehóva að leyfa mönnunum að stjórna sér sjálfir hefur haft sína kosti. Hún hefur sýnt hjartahreinum mönnum fram á, svo ekki verður um villst, að það er viturlegt að hlýða á Guð og treysta honum. Í aldanna rás hafa mennirnir prófað alls konar stjórnarfar en ekkert hefur reynst vel. Það hefur styrkt þá sannfæringu þjóna Guðs að stjórnarfar hans sé það besta. Það hefur vissulega valdið þrengingum fyrir mennina að Jehóva skuli hafa leyft Satan að stjórna. Dyggir þjónar Guðs hafa ekki farið varhluta af því. En það hefur líka orðið þessum trúu þjónum hans til góðs að hann skuli hafa leyft illskuna um tíma.

Uppreisnin hefur orðið til þess að upphefja Jehóva

9, 10. Hvernig hefur stjórn Satans orðið til þess að upphefja Jehóva?

9 Það hefur á engan hátt gert lítið úr Jehóva og stjórnarfari hans að hann skyldi leyfa Satan að hafa áhrif á mennina og leyfa þeim að stjórna sér sjálfir. Sagan hefur sannað hið gagnstæða. Jeremía fór með rétt mál þegar hann sagði að mennirnir væru ófærir um að stjórna sér sjálfir. (Lestu Jeremía 10:23.) Uppreisn Satans hefur auk þess veitt Jehóva tækifæri til að sýna hina góðu eiginleika sína enn betur en ella. Hvernig þá?

10 Fullkomnir eiginleikar Jehóva eru enn augljósari en þeir hefðu annars orðið vegna þess að við sjáum hve hrikalegar afleiðingar stjórn Satans hefur haft. Þetta hefur upphafið Jehóva í augum þeirra sem elska hann. Þótt það virðist þverstæðukennt hefur stjórnarfar Satans í rauninni orðið Jehóva til vegsemdar. Það hefur dregið skýrt fram hve frábærlega hann hefur tekið á deilunni um drottinvald sitt. Við skulum sýna fram á það með því að líta stuttlega á nokkra af eiginleikum Jehóva og kanna hvernig ill stjórn Satans varð til þess að Jehóva sýndi þessa eiginleika í enn ríkari mæli.

11. Hvernig hefur Jehóva sýnt kærleika sinn?

11 Kærleikur. „Guð er kærleikur,“ segir í Biblíunni. (1. Jóh. 4:8) Það vitnar um kærleika Guðs að hann skyldi skapa mennina í upphafi. Það er líka til vitnis um kærleika hans hve undursamlega við erum úr garði gerð. Jehóva sá mönnunum fyrir fallegu heimili ásamt öllu sem þurfti til að þeim liði sem best. (1. Mós. 1:29-31; 2:8, 9; Sálm. 139:14-16) En þegar illskan kom til skjalanna í mannheimi sýndi Jehóva kærleika sinn á nýja vegu. Hvernig þá? Jóhannes postuli hefur eftir Jesú: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“ (Jóh. 3:16) Guð gat ekki sýnt mannkyninu kærleika sinn á stórkostlegri hátt en að senda einkason sinn til jarðar til að frelsa syndara. (Jóh. 15:13) Þetta mikla kærleiksverk var mönnunum líka til fyrirmyndar og gaf þeim tækifæri til að endurspegla fórnfúsan kærleika Guðs í daglega lífinu, svipað og Jesús gerði. — Jóh. 17:25, 26.

12. Hvernig sýnir Jehóva mátt sinn?

12 Máttur. Aðeins ,Guð alvaldur‘ hefur mátt til að skapa líf. (Opinb. 11:17; Sálm. 36:10) Við fæðingu er barn eins og óskrifað blað. Við dauðann hefur maðurinn útfyllt blaðið með verkum sínum, ákvörðunum og upplifunum, og það hefur mótað hann sem einstakling og persónu. Jehóva getur geymt þessar upplýsingar í minni sér. Þegar þar að kemur getur hann endurlífgað einstaklinginn með öllum eiginleikum hans og sérkennum. (Jóh. 5:28, 29) Það var ekki ætlun Guðs í upphafi að mennirnir dæju. Hins vegar hefur dauðinn gefið honum tækifæri til að sýna að hann er nógu máttugur til að vekja fólk upp frá dauðum. Jehóva er sannarlega ,alvaldur Guð‘.

13. Hvernig var fórn Jesú dæmi um fullkomið réttlæti Jehóva?

13 Réttlæti. Jehóva lýgur ekki og hann er aldrei ranglátur. (5. Mós. 32:4; Tít. 1:2) Hann er sannorður og réttlátur út í ystu æsar, jafnvel þegar það virðist vera sjálfum honum í óhag. (Rómv. 8:32) Það hlýtur að hafa verið kvalræði fyrir hann að sjá son sinn Jesú deyja á kvalastaur eins og ótrúan guðlastara. Jehóva var hins vegar fús til að láta þennan sársaukafulla atburð eiga sér stað vegna kærleika síns til ófullkominna manna og til að framfylgja fullkomnu réttlæti sínu. (Lestu Rómverjabréfið 5:18-21.) Heimur fullur ranglætis veitti honum tækifæri til að sýna að hann væri réttlátur í einu og öllu.

14, 15. Hvernig hefur viska Jehóva og þolinmæði sýnt sig?

14 Viska. Strax eftir að Adam og Eva syndguðu upplýsti Jehóva hvernig hann ætlaði að gera að engu þau slæmu áhrif sem uppreisn þeirra hafði. (1. Mós. 3:15) Jehóva sýndi greinilega fram á hina miklu visku sína með því að bregðast skjótt við. Síðan opinberaði hann þjónum sínum jafnt og þétt hvernig þessi fyrirætlun myndi ná fram að ganga. (Rómv. 11:33) Ekkert getur hindrað Guð í að taka vel á málum. Í heimi, sem einkennist af siðleysi, styrjöldum, ósanngirni, óhlýðni, miskunnarleysi, hlutdrægni og hræsni, hefur Jehóva haft meira en nóg tækifæri til að sýna sköpunarverum sínum hvað sé sönn viska. Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Sú speki sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.“ — Jak. 3:17.

15 Þolinmæði og langlyndi. Þolinmæði Jehóva og langlyndi hefði varla sýnt sig eins greinilega og raun ber vitni ef hann hefði ekki þurft að bregðast við ófullkomleika, syndum og mistökum mannanna. Hann hefur gert það um þúsundir ára og það sýnir að hann hefur þessa eiginleika til að bera í fullkomnum mæli. Við ættum að vera þakklát fyrir það. Pétur postuli sagði réttilega að við ættum að álíta „langlyndi Drottins vors vera hjálpræðisleið“. — 2. Pét. 3:9, 15.

16. Af hverju er það ákaflega gleðilegt að Jehóva skuli vera fús til að fyrirgefa?

16 Fús til að fyrirgefa. Við erum öll syndarar og hrösum margvíslega. (Jak. 3:2; 1. Jóh. 1:8, 9) Við ættum að vera innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli vera fús til að fyrirgefa „ríkulega“. (Jes. 55:7) Lítum á annað: Þar sem við erum ófullkomnir syndarar frá fæðingu fáum við tækifæri til að kynnast þeirri djúpstæðu gleði sem fylgir því að Jehóva fyrirgefi okkur það sem okkur verður á. (Sálm. 51:7, 11, 19) Þegar við kynnumst af eigin raun þessum hlýlega eiginleika Jehóva styrkir það kærleikann til hans og hvetur okkur til að líkja eftir honum í samskiptum við aðra. — Lestu Kólossubréfið 3:13.

Af hverju er heimurinn sjúkur?

17, 18. Að hvaða leyti er stjórnarfar Satans misheppnað?

17 Heimskerfi Satans í heild — afleiðingin af stjórnarfari hans — hefur brugðist æ ofan í æ í aldanna rás. Árið 1991 stóð í dagblaðinu The European: „Er heimurinn sjúkur? Já, svo sannarlega en það er ekki Guði að kenna. Það eru þjóðir heims sem bera sökina.“ Þetta er hverju orði sannara. Vegna áhrifa Satans völdu foreldrar mannkyns stjórn manna frekar en stjórn Jehóva. Það var upphafið að stjórnarfari sem hlaut að misheppnast. Þjáningar og hörmungar fólks um heim allan eru til vitnis um að stjórn manna er fársjúk.

18 Stjórnarfar Satans höfðar til eigingirni manna. En eigingirni getur aldrei yfirbugað kærleikann sem er grundvöllurinn að stjórnarfari Jehóva. Stjórnarfar Satans hefur ekki tryggt stöðugleika, hamingju né öryggi. Stjórnarfar Jehóva er augljóslega miklu betra. Sjáum við merki þess nú á tímum? Já, og um það er fjallað í næstu grein.

Hvað lærðum við um stjórn af því að lesa . . .

• Rómverjabréfið 13:1, 2?

• Orðskviðina 21:30?

• Jeremía 10:23?

• Kólossubréfið 3:13?

[Myndir á bls. 25]

Stjórn Satans hefur aldrei verið til góðs fyrir mannkyn.

[Rétthafi myndar]

U.S. Army photo

WHO photo: P. Almasy

[Mynd á bls. 26]

Jehóva er nógu máttugur til að vekja fólk upp frá dauðum.

[Mynd á bls. 27]

Kærleikur Jehóva og réttlæti birtist þegar hann fórnaði syni sínum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila