Lesendur spyrja . . .
Hvar er paradísin sem talað er um í Biblíunni?
▪ Jesús lofaði deyjandi manni, sem sýndi það hugrekki að láta í ljós trú á hann, að hann yrði með honum „í Paradís“. (Lúkas 23:43) Hvar átti það að vera? Var paradísin á himni, jörð eða einhverjum stað þar sem menn bíða lokadóms?
Forfeður okkar voru einu sinni í paradís. Í Biblíunni stendur: „Þá plantaði Drottinn Guð aldingarð í Eden, í austri, og setti þar manninn sem hann hafði mótað . . . Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans.“ (1. Mósebók 2:8, 15) Þegar þessi orð voru þýdd á grísku var orðið „aldingarður“ þýtt paraʹdeisos, en þaðan er orðið „paradís“ komið.
Fyrstu hjónin áttu að stækka paradísina út fyrir Edengarðinn jafnóðum og mannkyninu fjölgaði, rétt eins og hjón stækka heimili sitt eftir því sem börnunum fjölgar. Guð sagði: „Fyllið jörðina [og] gerið ykkur hana undirgefna.“ — 1. Mósebók 1:28.
Ætlun skaparans var því sú að mannkynið myndi búa og eignast börn í paradís hér á jörð. Það myndi lifa að eilífu í jarðneskum paradísargarði þar sem engin þörf yrði á grafreitum. Jörðin átti að vera framtíðarheimili alls mannkyns. Það er engin furða að við skulum hafa yndi af því sem jörðin okkar hefur upp á að bjóða. Við erum sköpuð til að búa á dásamlegri jörð.
Hefur fyrirætlun Guðs breyst? Nei. Jehóva Guð lofar okkur: „Orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast.“ (Jesaja 55:11) Meira en 3.000 árum eftir að maðurinn var skapaður var skráð í Biblíuna: „[Guð] mótaði jörðina og bjó hana til . . . hann skapaði hana ekki sem auðn heldur gerði hana byggilega.“ (Jesaja 45:18) Vilji Guðs hefur ekki breyst. Jörðin verður paradís.
Athyglisvert er að á mörgum stöðum í Biblíunni, þar sem talað er um paradís, er einfaldlega verið að lýsa lífi á jörðinni. Til dæmis sagði Jesaja spámaður: „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra.“ (Jesaja 65:21) Hvar byggja menn hús og planta víngarða? Hvar neyta menn ávaxta? Á jörðinni. Í Orðskviðunum 2:21 segir skýrum orðum: „Hinir hreinlyndu munu byggja landið og hinir ráðvöndu verða þar áfram.“
Jesús talaði einnig um jarðneska paradís. Að vísu lofaði hann líka himnesku ríki, en aðeins fyrir fáa útvalda. (Lúkas 12:32) Þeir fá upprisu til himna eftir að þeir deyja og ríkja með Kristi yfir jarðnesku paradísinni. (Opinberunarbókin 5:10; 14:1-3) Þessir meðstjórnendur hans á himnum munu sjá til þess að vel verði hugsað um jörðina og henni stjórnað í samræmi við þær kröfur sem Guð setur.
Jesús vissi að þetta var vilji Guðs með jörðina. Hann var á himnum með föður sínum þegar Edengarðurinn var skapaður. Líf í paradís á jörð stendur öllum til boða sem iðka trú. (Jóhannes 3:16) Jesús lofar slíkum mönnum að þeir verði með honum „í Paradís.“ — Lúkas 23:43.
[Rétthafi myndar á bls. 15]
© FORGET Patrick/SAGAPHOTO.COM/Alamy