Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • wp17 Nr. 6 bls. 12-14
  • Biblían – af hverju svona margar útgáfur?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Biblían – af hverju svona margar útgáfur?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • FRUMTEXTI BIBLÍUNNAR
  • GRÍSKA SJÖTÍUMANNAÞÝÐINGIN
  • LATNESKA VULGATA-ÞÝÐINGIN
  • BIBLÍUÞÝÐINGUM FJÖLGAR TIL MUNA
  • Nafn Guðs og „Nýjatestamentið“
    Nafn Guðs sem vara mun að eilífu
  • „Sjötíumannaþýðingin“ — gagnsemi hennar í fortíð og nútíð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2002
  • Er nauðsynlegt að læra hebresku og grísku?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Jehóva, Guð tjáskipta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
wp17 Nr. 6 bls. 12-14
„Mikill múgur“ manna af öllum þjóðum mun lifa af Harmagedónstríðið.

Biblían – af hverju svona margar útgáfur?

Hvers vegna eru til svona margar útgáfur eða þýðingar af Biblíunni? Lítur þú á nýjar útgáfur sem hjálp til að skilja Biblíuna eða hindrun? Þú getur lært að meta þær rétt með því að kynna þér uppruna þeirra.

En hverjir skrifuðu Biblíuna upphaflega og hvenær?

FRUMTEXTI BIBLÍUNNAR

Biblíunni er venjulega skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum eru 39 bækur sem hafa að geyma ,orð Guðs‘. (Rómverjabréfið 3:2) Guð innblés trúum þjónum sínum að skrifa þessar bækur. Þær voru ritaðar á um 1.100 ára tímabili, frá um það bil 1513 f.Kr. til fram yfir 443 f.Kr. Þeir skrifuðu mestmegnis á hebresku og því er þessi hluti Biblíunnar kallaður Hebresku ritningarnar. Hann er einnig kallaður Gamla testamentið.

Í seinni hlutanum eru 27 bækur sem einnig hafa að geyma ,Guðs orð‘. (1. Þessaloníkubréf 2:13) Guð innblés trúföstum lærisveinum Jesú Krists að rita þessar bækur en á mun skemmra tímabili, eða á tæplega 60 árum, frá um 41 til 98 e.Kr. Þeir skrifuðu aðallega á grísku og því er þessi hluti Biblíunnar kallaður Grísku ritningarnar. Hann er einnig kallaður Nýja testamentið.

Saman mynda þessar 66 innblásnu bækur Biblíuna – boðskap Guðs til mannkyns. En hvers vegna hafa verið gerðar fleiri þýðingar af Biblíunni? Þrjár helstu ástæðurnar eru þessar:

  • Að gera fólki kleift að lesa Biblíuna á móðurmáli sínu.

  • Að færa textann í upprunalegt horf með því að lagfæra villur sem afritarar gerðu.

  • Að gera orðalag hennar nútímalegra.

Skoðum hvernig þessir þættir koma fram í tveim fornum þýðingum.

GRÍSKA SJÖTÍUMANNAÞÝÐINGIN

Um það bil 300 árum fyrir daga Jesú byrjuðu fræðimenn Gyðinga að þýða Hebresku ritningarnar á annað tungumál – grísku. Þessi þýðing varð síðar þekkt sem gríska Sjötíumannaþýðingin. Hún var gerð til að hjálpa Gyðingum, sem á þeim tíma töluðu grísku fremur en hebresku, að halda sig við „heilagar ritningar“. – 2. Tímóteusarbréf 3:15.

Sjötíumannaþýðingin hjálpaði einnig milljónum manna, sem töluðu grísku en voru ekki Gyðingar, að skilja boðskap Biblíunnar. Hvernig? „Frá miðri fyrstu öld,“ segir prófessor Wilbert F. Howard, „varð hún biblía kristinnar kirkju en trúboðar hennar fóru í samkunduhúsin til að ,setja fólki fyrir sjónir að Jesús væri Messías‘.“ (Postulasagan 17:3, 4; 20:20) Það er ein ástæða þess að margir Gyðingar „misstu [fljótlega] áhugann á Sjötíumannaþýðingunni,“ segir biblíufræðingurinn Frederick F. Bruce.

Jafnóðum og lærisveinar Jesú fengu bækur Nýja testamentisins í hendur bættu þeir þeim við Sjötíumannaþýðingu Gamla testamentisins og til varð Biblían eins og við þekkjum hana núna.

LATNESKA VULGATA-ÞÝÐINGIN

Um 300 árum eftir að ritun Biblíunnar lauk þýddi guðfræðingurinn Híerónýmus Biblíuna á latínu. Hún varð síðar þekkt sem latneska Vulgata-þýðingin. Á þeim tíma voru þegar til nokkrar þýðingar á latínu. Hvers vegna var þá þörf á nýrri? Híerónýmus vildi leiðrétta „augljósar villur í textanum, þýðingarvillur og viðbætur og úrfellingar sem áttu ekki rétt á sér,“ segir í alfræðibókinni The International Standard Bible Encyclopedia.

Híerónýmus lagfærði margar af þessum villum. En síðar lýstu kirkjuyfirvöld yfir að latneska Vulgata-þýðingin væri eina viðurkennda þýðingin á Biblíunni og stóðu fast á því í margar aldir. Það voru gríðarleg mistök. Í stað þess að hjálpa almúganum að skilja Biblíuna varð hún þeim lokuð bók vegna þess að með tímanum skildu flestir lítið sem ekkert í latínu.

BIBLÍUÞÝÐINGUM FJÖLGAR TIL MUNA

Menn héldu þó áfram að gera nýjar biblíuþýðingar, eins og hina þekktu sýrlensku Peshitta frá um 5. öld. Það var þó ekki fyrr en á 14. öld að farið var að þýða Biblíuna á enn fleiri tungumál.

Seint á 14. öld átti Englendingurinn John Wycliffe sinn þátt í að leysa Biblíuna úr fjötrum útdauðs tungumáls með því að þýða hana á ensku, mál sem landar hans skildu. Skömmu síðar fann Johannes Gutenberg upp prentunaraðferð sem gerði biblíufræðingum kleift að gefa Biblíuna út á mörgum þeirra tungumála sem töluð voru í Evrópu.

Þegar enskum biblíuþýðingum fjölgaði vöknuðu spurningar um hvers vegna væri þörf á fleiri útgáfum á sama tungumáli. Enski presturinn John Lewis, sem var uppi á 18. öld, skrifaði: „Málfar úreldist og verður illskiljanlegt með tímanum. Þess vegna er nauðsynlegt að endurskoða gamlar þýðingar og nota málfar sem núlifandi kynslóð notar og skilur.“

Nú á tímum eru biblíufræðingar í betri aðstöðu en nokkru sinni fyrr til að endurskoða eldri þýðingar. Þeir hafa mun meiri þekkingu á þeim fornu tungumálum sem Biblían var rituð á og hafa aðgang að verðmætum fornum biblíuhandritum sem fundist hafa á síðari árum. Allt þetta hjálpar þeim að þýða frumtexta Biblíunnar af meiri nákvæmni en áður.

Við getum því haft mikið gagn af nýjum biblíuþýðingum. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hafa varann á þegar maður les sumar þeirra.a En ef einlægur kærleikur til Guðs knýr þýðendurna til að gera nýja biblíuútgáfu getur vinna þeirra verið okkur til mikils gagns.

Hægt er að lesa Biblíuna á ýmsum tungumálum í tölvu, snjallsíma eða spjaldtölvu. Farðu inn á www.jw.org/is og veldu ÚTGAFA > BIBLÍAN.

a Sjá greinina „Hvernig er hægt að velja góða biblíuþýðingu?“ í Varðturninum júlí-september 2008.

HEILAGT NAFN GUÐS Í BIBLÍUNNI

Nafn Guðs á slitri úr handriti af Sjötíumannaþýðingunni frá dögum Jesú.

Nafn Guðs á slitri úr handriti af Sjötíumannaþýðingunni frá dögum Jesú.

Í biblíuþýðingunni New World Translation of the Holy Scriptures er heilagt nafn Guðs, Jehóva, notað bæði í Gamla testamentinu og Nýja testamentinu. Í fæstum öðrum nýlegum biblíuþýðingum er nafnið notað. Algengast er að titillinn „Drottinn“ sé settur í stað nafnsins. Sumir þýðendur segja að ein ástæðan sé sú að nafn Guðs, sem ritað er með fjórum hebreskum samhljóðum (umritað JHVH), hafi aldrei komið fyrir í grísku Sjötíumannaþýðingunni. En er það sannleikanum samkvæmt?

Um miðja 20. öld fundust forn slitur, allt frá dögum Jesú, af Sjötíumannaþýðingunni. Þar er nafn Guðs að finna ritað með hebreskum bókstöfum. Svo virðist sem afritarar hafi síðar fjarlægt nafn Guðs og sett þess í stað gríska orðið Kyrios sem merkir „Drottinn“. Í New World Translation of the Holy Scriptures stendur nafn Guðs þar sem það á með réttu að standa.

HEFUR TEXTI BIBLÍUNNAR BREYST?

Dauðahafshandrit Jesajabókar.

Dauðahafshandrit Jesajabókar, sem er 2.000 ára gamalt, samsvarar vel texta Biblíunnar nú á dögum.

Að sjálfsögðu kom það fyrir að biblíuafritarar gerðu mistök. En engin þeirra voru svo alvarleg að þau breyttu boðskap Biblíunnar. „Engin grundvallarkenning kristinnar trúar byggir á texta sem einhver vafi leikur á að sé réttur.“ – Our Bible and the Ancient Manuscripts.

Afritarar meðal Gyðinga gerðu fæst mistök. „Á fyrstu öldum kristninnar afrituðu fræðimenn Gyðinga hebreskan texta Biblíunnar margoft en alltaf af ýtrustu nákvæmni.“ – Second Thoughts on the Dead Sea Scrolls.

Bókrolla af Jesajabók, sem fannst meðal Dauðahafshandritanna, er til að mynda 1.000 árum eldri en elstu handrit sem áður höfðu fundist. Hvernig ber texta hennar saman við biblíutexta nú á tímum? „Á örfáum stöðum er einstaka orði ofaukið eða vantar í nútímabiblíur.“ – The Book. A History of the Bible.

Óvandvirkari afritarar gerðu stundum mistök eins og að víxla stöfum, orðum eða orðasamböndum. En nú er auðveldlega hægt að koma auga á þessi mistök og leiðrétta þau. Heimildarrit segir um Nýja testamentið: „Ekkert annað safn fornrita er til þar sem staðfest er jafn vel að textinn sé áreiðanlegur.“ – The Books and the Parchments.

„Trúað fólk getur treyst að texti Biblíunnar sé nánast alveg eins og texti elstu papírushandritanna frá Egyptalandi. Textinn hefur varðveist þrátt fyrir að hafa margoft verið afritaður og prentaður í hinum ýmsu prentsmiðjum í Evrópu.“ – The Book. A History of the Bible.

Hefur texti Biblíunnar breyst? Því fer fjarri!

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila