Varðturninn – andleg fæða á réttum tíma
1 Í næstum 114 ár hefur Varðturninn lagt fast að lesendum sínum að halda sér árvökrum andlega. Förunautur hans, tímaritið Vaknið!, byggir upp traust á fyrirheit skaparans um friðsaman og öruggan nýjan heim innan okkar kynslóðar. Saman hafa þessi tvö blöð verið trúföst verkfæri sem lýsa okkur veginn í myrkvuðum heimi. (Jes. 60:2) Sannleikurinn í orði Guðs breytist aldrei en skilningur okkar á honum verður skýrari er Jehóva notar þessi og önnur verkfæri til að gefa okkur andlegan „mat á réttum tíma.“ — Matt. 24:45; Orðskv. 4:18.
2 Notum blöðin sem best: Við getum látið í ljós þakklæti okkar fyrir þá andlegu upplýsingu sem við höfum fengið með því að hvetja fólk af eldmóði til að lesa bæði Varðturninn og Vaknið! Í apríl og maí munum við leggja sérstaka áherslu á blöðin og að bjóða fólki áskrift að þeim. Yfirleitt bjóðum við fólki ekki áskrift að blöðunum strax í fyrstu heimsókn eða þegar við berum óformlega vitni þótt stundum geti það verið vel við hæfi. Margir þiggja hins vegar fáein tölublöð hjá okkur nokkuð reglulega og hafa greinilega ánægju af að lesa þau. Slíkir aðilar munu margir gjarnan þiggja áskrift. Hins vegar er best að bjóða aðeins einstök blöð þeim sem þekkja lítið til rita okkar eða kunna líklega lítið að meta þau.
3 Hvernig getum við fundið út hvort einhver hafi einlægan áhuga? Taktu eftir viðbrögðum húsráðandans þegar þú vekur athygli hans á einhverju atriði í blaði, smáriti eða bæklingi. Hlustar hann vel? Virðir hann Biblíuna og fylgist með þegar þú lest vers úr henni? Svarar hann þegar þú spyrð hann um viðhorf hans? Sé svo getur þú gert ráðstafanir til að koma í endurheimsókn eftir viku eða jafnvel fyrr til að ræða málið frekar. Ef ljóst er að húsráðandinn les þau rit sem hann fékk hjá þér og að hann kann að meta andlegar umræður gætir þú spurt hvort hann myndi vilja fá blöðin send til sín reglulega.
4 Við skulum vera vakandi fyrir því að bjóða vinnufélögum, skólafélögum og ættingjum blöðin þegar tækifæri gefst, svo og þeim sem við höfum viðskiptasamband við. Með hækkandi sól og hlýnandi veðri má einnig leggja aukna áherslu á götustarfið.
5 Þegar nýtt tölublað berst til safnaðarins ættu boðberarnir að geta fengið það afgreitt strax. Þegar þú færð nýtt tölublað skalt þú kynna þér það rækilega. Hvaða málefni er líklegt að komi fólki í þínu starfssvæði mikið við? Friður og öryggi í heiminum? Efnahagsmál? Góð stjórn? Umhverfismál? Varðturninn beinir sjónum fólks á einstakan hátt að einu varanlegu lausninni, ríki Guðs. (Dan. 2:44; Matt. 6:10) Hann er vissulega ómetanleg gjöf frá okkar ‚mikla kennara.‘ — Jes. 30:20.
6 Mánuðirnir apríl og maí bjóða upp á ágæt tækifæri til að verja meiri tíma til boðunarstarfsins. Í maí eru fimm heilar helgar og því munu margir vera aðstoðarbrautryðjendur þann mánuð. Við getum öll sett okkur núna það persónulega takmark að auka boðunarstarf okkar þessa tvo mánuði og hvetja með eldmóði hvern sem við hittum til að lesa Varðturninn og Vaknið!