Snúum aftur til að hjálpa fólki að læra hvernig það geti lifað að eilífu
1 Síðan Lifað að eilífu bókin var gefin út hafa verið prentaðar meira en 65 milljónir eintaka á 115 tungumálum. Margir, sem eru núna þjónar Jehóva, lærðu grundvallarsannindi Biblíunnar með hjálp þessa góða verkfæris. Í þessum mánuði og þeim næsta gefst okkur tækifæri til að útbreiða þetta hjálpargagn til biblíunáms eða við hittum ef til vill fólk í svæði okkar sem þegar á þessa bók.
2 Heimsækjum aftur þá sem eiga bókina: Sumum boðberum hefur reynst vel að vekja athygli á efnisyfirlitinu og spyrja hinn áhugasama hvaða efni honum finnist einna áhugaverðast. Þegar húsráðandinn hefur valið efni, leggðu þá til að hann lesi gegnum þann kafla í bókinni áður en þú kemur í næstu heimsókn.
3 Ef þess er nokkur kostur ættum við að fastráða með húsráðandanum ákveðinn tíma til að heimsækja hann aftur. Áður en við förum aftur viljum við búa okkur undir að ræða um nokkrar tölugreinar í kaflanum sem húsráðandinn valdi. Ef hann velur engan sérstakan getum við byrjað á 1. kafla. Eftir að hafa farið yfir nokkrar greinar ættum við að bera fram spurningu sem fjallað verður um í nokkrum næstu greinum. Það mun verka sem stikla til annarrar endurheimsóknar og þá getum við haldið áfram náminu í Lifað að eilífu bókinni.
4 Ef húsráðandinn hefur spurningar er að sjálfsögðu best að taka þær fyrst til meðferðar. Mestar líkur eru á að spurningum hans sé svarað í bókinni. Ef við þekkjum vel innihald bókarinnar kunnum við að geta flett upp á viðeigandi stöðum og notað efnið þar til að svara spurningunum sem bornar voru fram.
5 Heimsækjum aftur þá sem fengu hjá okkur smárit: Ef til vill skildum við eftir hjá húsráðandanum smáritið Líf í friðsömum nýjum heimi. Þegar við komum aftur getum við rætt um fyrstu efnisgreinarnar í smáritinu.
Ef húsráðandinn sýnir raunverulegan áhuga, þegar við komum að lokum fyrstu efnisgreinar á blaðsíðu 3 þar sem vitnað er í Sálm 37:29, gætum við sagt:
◼ „Þessi orð draga skýrt fram það sem rætt er í þessari bók, Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. Taktu eftir þeirri röksemd sem fram kemur hér í grein 3 í 1. kafla undir fyrirsögninni ‚Hvers vegna við getum trúað því.‘“ Við getum síðan lesið grein 3, spurt prentuðu spurningarinnar við hana og haldið á sama hátt áfram með grein 4 og 5. Síðan gætum við sagt: „Hvers vegna er ástandið núna í svona miklu ósamræmi við tilgang Guðs? Það er útskýrt hér næst á eftir í nokkrum greinum og ég myndi gjarnan vilja koma aftur í næstu viku á sama tíma og svara þeirri spurningu fyrir þig.“ Ef húsráðandinn hefur sýnt raunverulegan áhuga gætum við boðið honum bókina þegar hér er komið sögu, eða við gætum ákveðið að gera það í lok næstu samræðna okkar.
6 Til þess að bjóða „Lifað að eilífu“ bókina gætum við sagt:
◼ „Ég þykist viss um að þú myndir hafa ánægju af að eiga þitt eigið eintak af þessari bók. Þá munt þú geta lesið í henni fyrirfram og þannig fengið meira út úr næstu samræðum okkar.“ Ef húsráðandinn samþykkir að taka við bókinni gætir þú sagt: „Þetta starf er kostað með frjálsum framlögum. Ef þú vilt leggja eitthvað fram til starfs votta Jehóva, sem unnið er um heim allan, þá er þér það velkomið.“
7 Það er mjög þýðingarmikið starf að fara aftur til fólks til að hjálpa því að fræðast um hvernig það geti lifað að eilífu. Jesús sagði lærisveinum sínum að kenna öðrum það sem þeim hafði verið kennt. Við biðjum Jehóva um að senda út fleiri verkamenn. Við skulum þess vegna sinna okkar þætti í að finna áhugasama menn og kenna þeim að vera samverkamenn að uppskerustarfinu. — Matt. 9:37; 28:19, 20.