Sláum ekki slöku við starf okkar í þágu Guðsríkis í sumar
1 Sumarið býður upp á tækifæri til að gefa sig að margvíslegum viðfangsefnum. Flest viljum við nýta okkur góða veðrið með því að breyta eitthvað til, fara jafnvel í ferðalag og slaka á. Við þurfum hins vegar að varast að láta það setja venjubundið starf okkar í þágu Guðsríkis úr skorðum. — Fil. 3:16.
2 Við hlökkum mjög til landsmótsins á hverju sumri. Hefur þú gert ákveðnar áætlanir til að geta verið viðstaddur og gengið frá ferðaáætlun og gistingu ef þess er þörf? Hefur þú hugleitt að taka með í dæmið einhvern í söfnuði þínum sem þarf ef til vill á persónulegri aðstoð að halda? Slík hugsunarsemi getur orðið báðum til blessunar.
3 Hefur þú hugleitt að keppa eftir aukinni hlutdeild í boðunarstarfinu ef þú hefur lausan tíma eins og í skólafríi? Mörgum hefur reynst skólaleyfið góður tími til að vera aðstoðarbrautryðjandi. Oft hefur það opnað dyr aukinna sérréttinda. Fjölskyldur geta haft mikla gleði af því að verja heilu dögunum í boðunarstarfinu. Gætir þú, hvernig svo sem á stendur, starfað meira en þú hefur gert undanfarið? Með betra veðri og lengri sólargangi ættu fleiri að geta notið þess að starfa á kvöldin.
4 Hvað um það að starfa á óúthlutuðu svæði eða hjálpa söfnuði sem þarfnast aðstoðar við að fara yfir allt starfssvæðið sitt? Það gætu verið aðrir í söfnuðinum sem myndu vilja sameinast þér í að starfa í eina eða tvær vikur þar sem þörfin er meiri. Ef hópurinn er lítill vilja boðberar í næsta söfnuði ef til vill koma með ykkur. Ef þið getið ekki farið langt eða verið lengi gæti farandhirðirinn ef til vill bent á nálægan söfnuð sem kynni að meta aðstoð ykkar.
5 Ætlar þú að fara burt í sumarfríinu? Er þá inni í áætlunum þínum að sækja samkomur þar sem þú verður staddur? Hvað um að fara út í starfið með bræðrunum þar? Slíkt starf í sumarleyfinu getur verið mjög umbunarríkt fyrir þig og aðra. (Rómv. 1:11, 12) Getur þú líka gefið tækifærisvitnisburð á ferðalaginu? Gættu þess að taka Biblíuna með og nokkuð af ritum. Notaðu eitthvað af frítímanum til að vinna upp það sem þú átt eftir í lestri þínum og biblíunámi. Mundu að þó að við þurfum endrum og sinnum að fá frí frá veraldlegum störfum okkar höfum við ekki áhuga á að taka okkur frí frá því að þjóna Jehóva.
6 Öldungar ættu að vera vakandi fyrir því að halda safnaðarstarfinu vel skipulögðu. Ef einhverjir öldungar eða safnaðarþjónar verða fjarverandi ætti að gera ráðstafanir til að aðrir sjái um ábyrgðarstörf þeirra. Ef umsjónarmaður í forsæti fær að vita með góðum fyrirvara hvaða daga bræðurnir verða í burtu getur hann betur séð um að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar.
7 Já, sumarið getur verið mjög annasamur tími. En þá getur líka margt auðveldlega truflað góðar starfsvenjur okkar í þjónustunni við Guðsríki. Nýttu tækifærin í sumar sem best. Settu skýrar línur um andleg mál sem hafa skulu forgang og haltu þér við þá þær. — Fil. 1:10.