Hjálpum þeim sem ekki hafa trú
1 Nú á tímum er orðið vinsælt að láta líta á sig sem menntaðan og framsækinn í hugsun. Heimspekihugmyndir manna og nýstárlegar kenningar eru hafnar upp til skýjanna á meðan andleg gildi eru að engu höfð. Einlægt fólk, sem hefur áhuga á einföldum staðreyndum og skiljanlegum sannindum, mun þiggja með þökkum tækifærið til að kanna bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? Þessi bók hefur hjálpað þeim sem skortir trú. (Rómv. 1:19, 20) Gættu þess að fara í endurheimsóknir til allra þeirra sem sýna áhuga.
2 Þú gætir hafið samræðurnar á þennan hátt:
◼ „Ég er viss um að þér er kunnugt um að margir sem fást við uppfræðslu styðja þá trú að maðurinn sé til orðinn vegna þróunar. Þar er kennt að allt hafi orðið til af tilviljun. Hvað finnst þér um það? [Gefðu kost á svari.] Þessi hugmynd er enn þá kölluð kenning. Kenning er ‚tilgáta‘ eða ‚ósönnuð skoðun.‘ Um aldir trúðu menn að jörðin væri flöt; núna vitum við að það var kjánaleg hugmynd sem ekki var byggð á staðreyndum. Gæti það sama átt við þróunarkenninguna?“ Lestu kynningarorðin á blaðsíðu 4 og ræddu um Jesaja 42:5.
3 Önnur leið til að meðhöndla efnið í endurheimsókn er þessi:
◼ „Maður hittir oft fólk sem trúir ekki á Guð. Hér fyrr á árum kom það sjaldan fyrir. Hver heldur þú að sé skýringin á því að svona margir hafi glatað guðstrúnni? [Gefðu kost á svari.] Margir rekja trúleysi sitt til hinnar skelfilegu aukningar á ofbeldi og bágindum í heiminum. Þeir spyrja hvers vegna alvaldur Guð bindi ekki enda á allar þessar þjáningar ef hann er til. Þeir sem geta ekki fundið fullnægjandi svar við þessari spurningu missa oft trúna á Guð. En það er til yfirþyrmandi vitnisburður um að Guð sé til og að hann muni brátt gera jörðina að stað þar sem hamingja og friður ríkir.“ Haltu samræðunum áfram með því að nota biblíulegu hugmyndirnar sem fram koma í grein 19 á blaðsíðu 196.
4 Með Biblíuna í hendinni gætir þú hafið samræðurnar með því að segja:
◼ „Við komum hingað aftur til að benda á hvers vegna það hefur hagnýtt gildi á okkar tímum að nema Biblíuna. Flestir hafa biblíu en fáir taka sér tíma til að lesa hana. Sumir segja okkur blátt áfram að þeir beri ekki lengur mikið traust til Biblíunnar. Hvað finnst þér um það? [Gefðu kost á svari.] Eitt af því sem sannfærir okkur um að Biblían sé innblásið orð Guðs er uppfylling spádóma hennar.“ Þú getur haldið samræðunum áfram með því að benda á uppfyllingu einhverra þeirra spádóma sem fjallað er um í 18. kaflanum.
5 Fólk kynni að bregðast vel við þessum orðum:
◼ „Við sjáum fegurð og stórkostlegan vitnisburð um visku í svo mörgu því sem er í kringum okkur hér á jörðinni. Þessi fallega mynd af sólarlagi er gott dæmi um það.“ Sýndu myndina á blaðsíðu 12 og 13. Nefndu atriði frá „Sitthvað til umhugsunar“ og útskýrðu hvernig þessi bók veitir fullnægjandi svör við áríðandi spurningum um heiminn okkar.
6 Við getum orðið öðrum til blessunar með því að nota þessa bók til að hjálpa þeim að finna traustan grunn að trú á skapara sinn.