Árangursríkar endurheimsóknir krefjast áhrifaríkrar kennslu
1 Endurheimsóknir eru mikilvægur og ánægjulegur þáttur í boðunarstarfi okkar. Hvers vegna ættum við að vera iðin við að fara aftur til áhugasamra manna? Þegar við störfum að því að gera menn að lærisveinum kunngerum við og heiðrum nafn Jehóva og guðhræddu fólki er hjálpað til að finna veginn til lífsins. (2. Kor. 2:17–3:3) Vitundin um að bæði réttlæting nafns Jehóva og líf annarra tengist þessu starfi ætti að fá okkur til að undirbúa okkur vel áður en við förum í endurheimsókn.
2 Góður kennari hjálpar nemandanum að byggja ofan á grunninn sem lagður er. Alveg eins og skólakennari byggir ofan á þá þekkingu sem nemendurnir öðlast dag frá degi ættum við yfirleitt að fylgja fyrstu heimsókn okkar eftir með samræðum um sama efni. Það stuðlar að óslitnum efnisþræði og hugsun þar sem eitt leiðir á rökréttan hátt af öðru.
3 Þegar þú ferð aftur til þeirra sem þáðu bæklinginn „Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur?“ kann þetta að reynast vel:
◼ „Um daginn ræddum við um þá ‚síðustu daga‘ sem minnst er á í Biblíunni og hvaða þýðingu þeir hafa fyrir okkur. Þér kann að vera spurn hvernig við getum vitað hvort við lifum á hinum síðustu dögum. (2. Tím. 3:1) Lærisveinar Jesú voru ákafir í að fá svar við þeirri spurningu. [Lestu Matteus 24:3.] Í svari sínu lýsti Jesús aðstæðum sem við sjáum umhverfis okkur nú á dögum. Þá yrðu meðal annars meiri erfiðleikar og ofbeldi en nokkru sinni fyrr.“ Bentu á þá þætti táknsins sem fjallað er um í tölugrein 3 og 4 á blaðsíðu 19. Ef viðbrögðin eru góð skaltu benda á aðrar hliðar táknsins í grein 5 til 8 á blaðsíðu 20. Bjóðstu til að koma aftur og svara spurningunum sem settar eru fram á forsíðu bæklingsins.
4 Til þess að fylgja eftir áhuga á bæklingnum „Hver er tilgangur lífsins — hvernig getur þú fundið hann?“ gætir þú sagt:
◼ „Ég hef hlakkað til að halda áfram samræðum okkar um tilganginn með lífinu. Ég held að við séum sammála um að Guð hafi ætlað okkur mönnunum að lifa á jörðinni í hamingju og við friðsamar kringumstæður frekar en við þá ólgu og upplausn sem núna ríkir. Heldur þú að Guð standi við loforð sín um bjarta framtíð mannkyninu til handa?“ Gefðu kost á svari. Lestu Jesaja 55:11 og ræddu síðan um það sem fram kemur í grein 25 til 27 á blaðsíðu 30. Mæltu með einkanámi í Biblíunni sem bestu leiðinni til að finna verðugan tilgang með lífinu.
5 Til að fylgja eftir áhuga á bæklingnum „Ættum við að trúa á þrenninguna?“ gætir þú sýnt aftur myndina á blaðsíðu 10 og sagt:
◼ „Við ræddum um það síðast að guðaþrenningar væru algengar í trúarbrögðum heimsins. Kenningin um þríeinan guð á sér hins vegar ekki stoð í Biblíunni. En skiptir það einhverju máli hvort við trúum á þrenninguna eða ekki?“ Gefðu kost á svari og notaðu efni frá blaðsíðu 30 og 31 til að svara spurningunni. Bentu á nauðsyn nákvæmrar þekkingar á Guði og hvernig hægt er að öðlast hana.
6 Að lokinni hverri endurheimsókn skaltu fara yfir hana í huganum til að komast að hvernig þú getir staðið betur að málum í næstu heimsókn. Spyrðu sjálfan þig: Hafði ég eitthvað ákveðið í huga til að segja? Beindi ég sífellt athyglinni að Biblíunni? Byggði ég ofan á þann grunn sem ég lagði í fyrri heimsókn? Var framsetning mín til þess fallin að leiða til biblíunáms? Jákvæð svör við þessum spurningum veita þér vissu fyrir því að þú sért að leitast við að vera góður kennari orðs Guðs.