Búum okkur undir að bjóða bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs
1 Það vakti mikla gleði hjá okkur að heyra tilkynnt um útkomu nýju bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs. Hún er samin til að hjálpa fólki að komast hratt til nákvæmrar þekkingar á sannleikanum. Um leið og íslensk útgáfa bókarinnar berst okkur í hendur munum við kynna okkur vel innihald hennar og byrja að bjóða hana á starfssvæðum okkar. Hvað getum við sagt til að vekja áhuga fólks á að lesa þessa bók?
2 Þessi kynningarorð gætu höfðað til þeirra sem veiklast hafa í trúnni:
◼ „Margir lærðu í barnæsku að trúa á Guð en núna komast þeir að raun um að trú þeirra hefur dofnað verulega frá því sem áður var. Hver heldur þú að gæti verið skýringin á því? [Gefðu kost á svari.] Trú okkar á Guð styrkist þegar við hugleiðum hversu stórkostlegur alheimurinn er. [Lestu Sálm 19:2.] Sá sem hefur sett þau lögmál sem stýra himinhnöttunum hefur einnig veitt okkur verðmæta leiðsögn. [Lestu Sálm 19:8-10.] Þessi vers undirstrika hve mikilvægt það er að læra allt sem við getum um Guð og fyrirætlanir hans. [Vektu athygli á myndinni á blaðsíðu 4 og 5 og lestu textann þar.] Ef þú kærir þig um að njóta góðs af þessari sérstöku þekkingu er þér velkomið að fá þessa bók.“
3 Þú gætir haft í huga átakanlega atburði sem nýlega voru í fréttum og sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Líklega heyrðir þú um [nefndu atburðinn]. Hefur þú einhvern tíma hugleitt hvort Guði sé ef til vill alveg sama um óréttlætið og þjáningarnar sem við sjáum allt í kringum okkur eða verðum jafnvel sjálf fyrir? [Gefðu kost á svari.] Biblían fullvissar okkur um að Guð elski okkur og að hann muni hjálpa okkur á raunarstundum.“ Lestu úrdrátt úr Sálmi 72:12-17. Flettu upp á blaðsíðu 70 og bentu á að þessi bók, Þekking sem leiðir til eilífs lífs, svari spurningu sem milljónir manna hafa spurt: Hvers vegna leyfir Guð þjáningar? „Þú munt sjá að svar Biblíunnar við þessari spurningu er mjög hughreystandi. Mig langar til að skilja þessa bók eftir hjá þér til þess að þú getir lesið um það sjálf(ur).“
4 Ef þú hittir foreldri gætir þú beint athyglinni að fjölskyldunni:
◼ „Flestir foreldrar eru á einu máli um að við mörg vandamál sé að glíma þegar þeir reyna að varðveita hamingju og farsæld fjölskyldunnar. Hvað sýnist þér vinna einna helst gegn viðleitni foreldranna í þessu sambandi? [Gefðu kost á svari.] Flest gerum við okkar besta en yfirleitt kunnum við að meta aðstoð sem hjálpar okkur að ná betri árangri. Biblían veitir frábær ráð. [Lestu úrdrátt úr Galatabréfinu 3:12, 18-21.] Biblían hefur fjölmargt meira að segja um þetta efni, eins og bent er á í þessari bók, í 15. kafla sem heitir ‚Fjölskylda sem er Guði til heiðurs.‘ Þar er farið yfir þær ráðleggingar sem Biblían gefur og sýnt hvernig vinna megi bug á streitu innan hjónabandsins og hvernig takast megi með góðum árangri á við vandamálin sem börnin okkar standa frammi fyrir. Ég er viss um að þú hefur ánægju af að lesa þessa bók.“
5 Ef þú kýst frekar að vera stuttorður gætir þú reynt þetta:
◼ „Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvers vegna við hrörnum og deyjum? Sjötti kaflinn í þessari bók útskýrir hvað það er sem veldur dauða mannsins og hvernig Guð muni fjarlægja það. Biblían segir okkur að Guð hafi heitið þeim sem elska hann eilífu lífi. [Lestu Jóhannes 17:3.] Ef þú hefur áhuga á að lesa um þetta mun þér vafalaust finnast þessi bók mjög upplýsandi.“
6 Ef við erum vel undirbúin tekst okkur ef til vill að nota þessa bók til að ‚ljúka upp fyrir fólki ritningunum‘ á þann hátt sem færir því mikla gleði! — Lúk. 24:32.