Verum ‚kostgæfin til góðra verka‘ í vor!
1 Síðastliðið vor var gefinn meiri vitnisburður en áður hefur þekkst þegar milljónum eintaka af Fréttum um Guðsríki nr. 34 var dreift um víða veröld. Jafnt safnaðarboðberar sem brautryðjendur tóku með kostgæfni þátt í þessu örvandi starfi. Varst þú einn þeirra? Ef svo var hafðir þú vafalaust mikla ánægju af að eiga þátt í þessari merkilegu herferð. Núna veltir þú ef til vill fyrir þér hvaða ‚góð verk‘ bíði okkar á þessu ári. — Tít. 2:14.
2 Í apríl og maí munum við leggja áherslu á að dreifa Varðturninum og Vaknið! Forsíðugreinin í Vaknið! ber titilinn „Af hverju er lífið svona stutt? Breytist það einhvern tíma?“ Það efni ætti að höfða til margra húsráðenda og því ætti með sérstakri herferð fram undir miðjan maí að leitast við að dreifa blaðinu sem víðast, bæði inn á heimili og vinnustaði.
3 Takmark okkar er almenn þátttaka allra boðberanna: Það væri sannarlega uppörvandi ef allir boðberarnir hér á landi gætu tekið þátt í prédikunarstarfinu í apríl. Með minningarhátíðina um dauða Krists ferska í huga okkar munum við sannarlega vilja sýna þakklæti okkar fyrir gæsku Guðs með því að bera fram hreina „lofgjörðarfórn“ í boðunarstarfinu á akrinum. — Hebr. 13:15.
4 Leitast skyldi vandlega við að koma auga á hvað hver meðlimur safnaðarins þarf á að halda svo að allir geti tekið kappsamlega þátt í boðunarstarfinu í vor. (Rómv. 15:1) Bóknámsstjórar ættu að þekkja vel til aðstæðna þeirra sem eru í þeirra bóknámshóp og bjóða fram hagnýta hjálp þegar nauðsyn krefur. Þarf einhver að fá far með öðrum til að komast á samkomur eða út í boðunarstarfið? Hver getur gefið það? Eru einhverjir feimnir eða óframfærir? Geta reyndari boðberar starfað með þeim? Hvað um þá sem ekki komast út úr húsi eða eru veikir? Gætu þeir notað símann til að bera vitni, skrifað bréf eða gert eitthvað annað sem gefur góða raun?
5 Sumir sem hafa orðið óvirkir hafa verið að fá andlega uppörvun reglulega undanfarið og ef til vill finna þeir hjá sér löngun til að taka þátt í boðunarstarfinu enn á ný. Blaðaherferðin í apríl og maí mun veita þeim upplagt tækifæri til að gerast aftur virkir boðberar.
6 Kennið hinum ungu að taka virkan þátt í boðunarstarfinu: Mörg börn votta Jehóva hafa árum saman fylgt foreldrum sínum út í boðunarstarfið hús úr húsi þó að þau séu ekki ennþá óskírðir boðberar. Er núna kominn tími fyrir þau að gerast óskírðir boðberar? Fara þau út í starfið af hjartans hvötum og eru þau reiðubúin til að taka virkan þátt í starfinu hús úr húsi? Höfuð fjölskyldunnar ætti að nota einhverja stund í fjölskyldunáminu til að hjálpa hæfum börnum sínum að semja kynningarorð sem sniðin eru að aldri og getu þeirra hvers og eins. Þau sem eldri eru geta valið umhugsunarverða spurningu sem nota má til að vekja upp áhuga húsráðandans og benda síðan á svarið í blaðinu. Yngri börnin geta gefið áhrifaríkan vitnisburð með aðeins fáeinum orðum. Til dæmis geta þau hvatt húsráðandann til að „lesa alveg sérstaka grein um hvers vegna lífið sé svona stutt.“ Þegar fjölskyldan undirbýr sig þannig í sameiningu skuluð þið ekki láta hjá líða að koma með tillögur um hvernig takast megi á við algengar mótbárur. Þið finnið margar góðar hugmyndir í Rökræðubókinni. Á matmálstímum og við önnur hentug tækifæri ættuð þið að hvetja fjölskyldumeðlimina til að segja reynslusögur úr boðunarstarfinu.
7 Hæfir biblíunemendur taka upp það starf sem Jesús vann: Jesús takmarkaði ekki kennslu sína við fræðslu um kenningarleg efni. Hann fylgdi nemendum sínum út í boðunarstarfið og kenndi þeim hvernig þeir ættu að prédika. (Lúk. 8:1; 10:1-11) Hvernig er staða mála í þessum efnum nú á dögum? Biblíunámin hér á landi slaga núna hátt í tvö hundruð. Vafalaust gætu margir biblíunemenda okkar, með tilhlýðilegri hvatningu, stigið næsta skrefið í þjálfun sinni og orðið hæfir til að verða óskírðir boðberar í apríl.
8 Ef þú stýrir biblíunámi skaltu hugleiða þessar spurningar: Eru framfarir nemandans í samræmi við aldur hans og hæfileika? Er hann farinn að segja öðrum óformlega frá því sem hann trúir? Er hann að ‚íklæðast hinum nýja manni?‘ (Kól. 3:10) Uppfyllir hann þær kröfur sem gerðar eru til óskírðra boðbera og tilgreindar eru á blaðsíðu 97 til 99 í Þjónustubókinni? Ef þú álítur að hann standist kröfurnar hvers vegna þá ekki að ræða málið við hann? Sumir nemendur þurfa lítið meira en beint boð um að taka þátt í starfinu. Ef nemandinn er fús til að fara í starfið er að sjálfsögðu fyrst nauðsynlegt að umsjónarmaðurinn í forsæti sjái að venju um að tveir öldungar ræði við nemandann. Á hinn bóginn getur verið að eitthvað haldi aftur af nemandanum. Ef til vill gæti einn öldunganna komið með þér í biblíunámið og fengið nemandann til að tjá sig óþvingað um hvað honum finnist um sannleikann. Eftir að hafa hlustað á það sem nemandinn hefur að segja gæti öldungurinn ef til vill komið með hagnýtar tillögur, ásamt því að nota Biblíuna til að veita aðstoð.
9 Reyndu að finna tíma til að vera aðstoðarbrautryðjandi: Þakklæti fyrir lausnargjaldið fær þúsundir manna til að finna sér tíma til að vera aðstoðarbrautryðjendur vikurnar í kringum minningarhátíðina ár hvert. (Ef. 5:15-17) Þó að einhverju þurfi til að fórna er umbunin, sem menn fá, mjög mikil. Það er hrósunarvert hversu margir unglingar notfæra sér skólafríið til að vera aðstoðarbrautryðjendur. Fólk, sem vinnur fulla vinnu, nýtir sér kvöldin og helgarnar eins og best má verða til þessa sama starfs. Vitað er um heilu fjölskyldurnar sem hafa tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu saman með þessu móti. Í sumum söfnuðum hafa flestir öldungarnir og safnaðarþjónarnir og konur þeirra skráð sig sem aðstoðarbrautryðjendur. Fordæmi þeirra hefur örvað aðra til að ganga sömu braut og stundum hefur stór hluti safnaðarins tekið þátt í aðstoðarbrautryðjandastarfinu í apríl.
10 Hvort sem þú getur verið aðstoðarbrautryðjandi eða ekki ættir þú að leita leiða til að auka starf þitt úti á akrinum í apríl og maí. Settu þér þitt eigið markmið. Hafðu það nógu hátt til að þú þurfir eitthvað á þig að leggja til að ná því en reistu þér samt ekki hurðarás um öxl með óraunhæfu markmiði. Löngun þín til að ‚verja því sem þú átt, já, leggja sjálfan þig í sölurnar‘ í þjónustu Jehóva í samræmi við persónulegar kringumstæður þínar, mun færa þér blessun hans. — 2. Kor. 12:15.
11 Samkomur fyrir boðunarstarfið: Skipuleggja ætti samansafnanir á hverjum degi meðan á herferðinni með Vaknið! stendur og á tímum sem gera boðberunum kleift að byrja snemma að starfa og nýta tímann vel. Gera skyldi líka ráðstafanir til kvöldstarfs. Meginþorri boðberanna tekur þátt í starfinu um helgar og þess vegna ættu söfnuðirnir að skipuleggja samansafnanir á laugardögum, bæði fyrir og eftir hádegi meðan hin sérstaka dreifing á Vaknið! fer fram.
12 Þeir sem stjórna samkomum fyrir boðunarstarfið ættu að sjá um að nóg sé til af starfssvæði til að starfa á. Fara skyldi fyrst yfir það svæði sem ekki hefur nýlega verið starfað á. Hins vegar skyldi ekki farið yfir óhlutað starfssvæði í umsjón Félagsins án þess að fá leyfi til þess frá Félaginu. Ert þú með eitt eða fleiri einkasvæði sem ekki hefur verið farið yfir nýlega? Ef þú þarft á hjálp að halda til að komast yfir þau með blöðin í apríl eða maí skaltu tala við starfshirðinn eða bróðurinn sem annast starfssvæðin og þeim mun verða það ánægja að koma því í kring að þú fáir einhverja aðstoð við að fara yfir starfssvæðin þín.
13 Hversu mörg blöð munt þú útbreiða? Þeirri spurningu getur hver og einn svarað fyrir sig. Þegar þú leitast við að meta hversu mörg blöð þú gætir útbreitt í apríl og maí skaltu hafa til hliðsjónar hvernig starfssvæðið er, aldur þinn og heilsu, hve miklum tíma þú getir varið til þessa starfs og ýmsa aðra þætti sem málið varða. Taktu samt sem áður eftir því sem minnt var á Varðturninum, 1. janúar 1994: „Boðberar gætu til dæmis sett sér það markmið að dreifa 15 eintökum á mánuði ef kringumstæður þeirra leyfa; brautryðjendur gætu keppt að 130 eintökum. Að sjálfsögðu kann að vera að sumir boðberar geti dreift fleiri eintökum í hverjum mánuði og munu þess vegna setja sér hærra markmið.“ Í þeim mánuðum sem lögð er sérstök áhersla á að bjóða blöðin, eins og apríl, maí og október, er ekki óeðlilegt að setja sér talsvert hærra markmið í blaðastarfinu en aðra mánuði ársins. Það sem máli skiptir er að meta hvað sé raunhæft og setja sér persónulegt takmark sem endurspeglar kostgæfni í að boða fagnaðarerindið.
14 Öldungar — þörf er á vandlegri skipulagningu: Reynið að tryggja, eftir því sem hægt er, að farið verði fyrir allt starfssvæði safnaðarins með blöðin, einkum Vaknið!, í apríl og maí. Gæta skyldi vandlega að því að starfa á hverju því verslunar- og viðskiptasvæði sem er í umsjá safnaðarins. Þeir sem starfa á slíkum svæðum ættu að vera vel undirbúnir og sérlega snyrtilegir til fara. Margbrotin kynningarorð eru ekki nauðsynleg. Þegar þú tekur kaupsýslumann tali getur þú sagt að þú sért kominn á vinnustað hans til að sýna honum grein sem honum muni áreiðanlega finnast athyglisverð lesning. Síðan getur þú bent stuttlega á eitt atriði í blaðinu. Starf með blöðin á götum úti ætti líka að vera vel skipulagt innan svæðis safnaðarins. Áhrifaríkasta aðferðin í götustarfinu er að taka þá tali sem fram hjá fara í stað þess að bíða eftir að þeir gefi sig á tal við okkur. Vegna þess að fólk mun taka eftir þér í götustarfinu ættir þú að gæta þess vel að útlit þitt sæmi boðbera Guðsríkis. Það kunna að vera aðrir staðir á svæði ykkar þar sem bjóða má fólki blöðin, svo sem vistheimili, bílastæði og ýmiss konar útivistar- og athafnasvæði. Öldungaráðið ætti að ákveða hvaða heppilegar ráðstafanir hægt sé að gera til að bera vitni á þessum stöðum á starfssvæði safnaðar þíns.
15 Jehóva er látlaust að störfum. (Jóh. 5:17) Hann skapaði himin og jörð svo og plönturnar og dýrin. Hann hélt líka áfram að starfa uns hann hafði skapað kórónu sköpunarverks síns á jörðinni — manninn. Sú staðreynd að við skulum vera á lífi er bein afleiðing af fúsleika Guðs til að starfa. Sem „eftirbreytendur Guðs“ ætti kærleikur okkar til hans að knýja okkur til að vera ‚kostgæfin til góðra verka.‘ (Ef. 5:1; Tít. 2:14) Jehóva er þess verður að við leggjum okkur eins vel fram í þjónustu hans og við mögulega getum. Þess vegna, svo og sökum þess að löngun til að ná árangri einkennir þann sem er kostgæfinn, ætti okkur að vera umhugað um að allt starf okkar við boðun fagnaðarerindisins sé í háum gæðaflokki. Vitaskuld kann Jehóva að meta allt sem við gerum til að þjóna honum og starf okkar er aldrei til einskis. (1. Kor. 15:58) Með þakklátum hjörtum skulum við þess vegna leggja okkur fram við að vera kostgæfin í boðunarstarfinu í apríl og maí, sannfærð um velþóknun Jehóva og blessun, svo og ríkulegan og góðan árangur.