Efnum heit okkar dag frá degi
1 Sálmaritarinn Davíð fann hjá sér hvöt til að segja við Jehóva: „Ég [vil] lofsyngja nafni þínu um aldur, og efna heit mín dag frá degi.“ (Sálm. 61:9) Davíð vissi að mönnum er það algerlega í sjálfsvald sett hvort þeir gefi heit. En hann gerði sér líka grein fyrir að ef hann gæfi heit bæri honum skylda til að efna það. (Préd. 5:4-6) Engu að síður lofaði hann Jehóva fyrir að hafa tækifæri til að efna heit sín dag frá degi.
2 Þegar við vígðum okkur Jehóva hétum við því fúslega að gera vilja hans. Við afneituðum sjálfum okkur og gerðum þjónustuna við Jehóva að helsta keppikefli okkar í lífinu. (Lúk. 9:23) Þess vegna verðum við líka að efna heit okkar dag frá degi. (Matt. 5:37) Yfirlýsingin, sem við gáfum þá er við létumst skírast í vatni, verður að endurspeglast í öllu lífsmynstri okkar, því við vitum að „með munninum [er] játað til hjálpræðis.“ (Rómv. 10:10) Boðun fagnaðarerindisins er hér innifalin. (Heb. 13:15) Persónulegar aðstæður okkar eru mjög mismunandi en dag frá degi ættum við öll að sjá skýrt mikilvægi þess að deila fagnaðarerindinu með öðrum.
3 Skapaðu þér tækifæri til að prédika daglega: Það er mjög ánægjulegt að deila fagnaðartíðindunum með einhverjum öðrum. Til þess að gera það daglega verðum við að skapa okkur tækifæri til að prédika hvenær sem aðstæður okkar leyfa. Þeir sem hafa að eigin frumkvæði vitnað óformlega fyrir fólki í vinnunni eða í skólanum og fyrir nágrönnum sínum eða öðrum sem þeir hitta á hverjum degi, hafa átt mörg ánægjuleg samtöl. Til að vitna fyrir öðrum má jafnvel skrifa bréf eða nota símann. Allar þessar aðferðir, svo og reglulegt boðunarstarf hús úr húsi, geta leitt til þeirrar einstöku ánægju sem fylgir því að stýra heimabiblíunámi. Já, dag hvern kunnum við að geta skapað okkur tækifæri til að prédika.
4 Systir fór að lesa Rannsökum daglega ritningarnar í vinnuhléum. Hún bauð vinnufélaga að lesa dagstextann með sér og af því hlaust fljótlega biblíunám með konunni. Námið stóð í hálfa klukkustund hvern dag, fimm daga í viku. Annar vinnufélagi tók eftir daglegu námi þeirra. Svo fór að hann kynnti sig sem óvirkan bróður. Kostgæfni systurinnar fékk hann til að hafa samband við öldung svo að hann gæti fengið hjálp til að verða virkur á ný. Vegna þess að þessi systir fylgdi því eftir að efna heit sitt dag frá degi hafði hún jákvæð áhrif á líf tveggja einstaklinga.
5 Þegar hjarta, sem er fleytifullt af þakklæti fyrir allt það góða sem Jehóva hefur gert fyrir okkur, hvetur okkur áfram færir það okkur gleði og ánægju að efna heit okkar eins vel og við getum dag hvern. Við getum sagt eins og sálmaritarinn: „Ég vil lofa þig, [Jehóva], Guð minn, af öllu hjarta og heiðra nafn þitt að eilífu.“ — Sálm. 86:12.