Tökum þátt í þörfum annarra
1 Jehóva gerir ráðstafanir til að mæta andlegum þörfum okkar fyrir milligöngu hins trúa ‚þjóns.‘ (Matt. 24:45-47) Margar þessara ráðstafana eru í mynd bóka, biblía, innbundinna árganga, myndbanda, upptaka á segulsnældum og geisladiska í tölvur til fræðilegra athugana á biblíulegu efni. Það sem Jehóva lætur í té er alltaf nóg án þess að eytt sé í óþarfa. Hann væntir þess að við deilum hvert með öðru því sem þörf er á og gætum þess að allir fái notið ráðstafana hans.
2 Allt sem við fáum þannig kostar mikla fjármuni að framleiða. Alheimsbræðrafélagið stendur undir þeim kostnaði. Þetta á sérstaklega við eftir að skipulagið kom á því fyrirkomulagi að dreifa ritum endurgjaldslaust og reiða sig einvörðungu á að frjáls framlög standi undir útgjöldum. Þar fyrir utan fá margar deildarskrifstofur þessar vörur frá Félaginu á verði sem gerir bræðrunum kleift að fá það sem þeir þurfa fyrir samkomur og boðunarstarfið, jafnvel þótt þeir hafi úr mjög litlu að spila efnislega.
3 Hvernig við getum hjálpað: Við getum brugðist vel við áminningu Páls um að ‚taka þátt í þörfum annarra.‘ (Rómv. 12:13) Þegar við leggjum fram fé til alþjóðastarfsins erum við á beinan hátt að deila því sem við höfum með bræðrum okkar um allan heim og tökum þannig þátt í þörfum þeirra. Með þetta í huga hafa sumir ákveðið að leggja til hliðar vissa upphæð til að gefa til alþjóðastarfsins í hverjum mánuði, á sama hátt og þeir gera til að standa undir útgjöldum vegna ríkissalarins sem söfnuður þeirra notar. Þeir gera sér grein fyrir að því fé, sem lagt er fram til alþjóðastarfsins, er ekki aðeins varið til framleiðslu rita heldur þar að auki til að standa undir öllum þáttum starfseminnar. Gerðu þér í hugarlund hversu mikill hagur það væri fyrir bræðrafélagið um allan heim ef fleiri tækju á þennan hátt þátt í að leggja fram framlög á reglulegum grundvelli.
4 Auk þess getum við tekið þátt í þörfum annarra með því að gæta alltaf hófs þegar við biðjum um rit eða aðrar vörur sem við getum hvenær sem er fengið. Ef við pöntum aðeins það sem við raunverulega þurfum gerir það bræðrum okkar annars staðar kleift að fá það andlega efni sem þeir þarfnast líka til að halda sér sterkum og efla prédikun fagnaðarerindisins í sínum heimshluta. — Hebr. 13:16.
5 Við ættum sér í lagi að hafa þetta hugfast þegar við pöntum vörur sem eru verulega dýrar í framleiðslu fyrir Félagið. Hér er meðal annars um að ræða myndbönd, geisladiska, stór tilvísunarrit, innbundna árganga og áskriftir að blöðunum á segulsnældum. Er ekki möguleiki á að öll fjölskyldan komist af með aðeins eitt eintak af slíkum vörum í stað þess að panta eintak fyrir hvern og einn í fjölskyldunni? Ef við takmörkum það sem við tökum handa okkur leyfir það öðrum að fá sömu góðu hlutina og við njótum. — Fil. 2:4.
6 Framlög okkar í ríkissalnum til alþjóðastarfs Félagsins og framlög áhugasamra manna, sem þiggja af okkur ritin, vega að hluta til upp á móti kostnaðinum við framleiðslu þeirra rita sem við útbreiðum. En við getum ekki vænst þess að utanaðkomandi fólk annist þarfir okkar hvað snertir rit sem við pöntum til eigin nota, eins og söngbækur, Árbækur, biblíur og svo framvegis. Fjármagnið, sem til þess þarf, kemur að langmestu leyti frá vígðum þjónum Jehóva. Með það í huga reyna margir boðberar að áætla hvað þessar vörur myndu kosta frá veraldlegum framleiðanda og miða framlög sín við það. Biblía í skinnbandi og með gylltum köntum kostar til dæmis um 5000 krónur, uppsláttarrit getur kostað frá 4000 krónum, veggdagatal í litum getur selst fyrir að minnsta kosti 500 krónur, alfræðibók á geisladisk frá 1000 upp í 8000 krónur eða meira, algengt verð á geisladisk með tónlist er 1200 til 2000 krónur og sum myndbönd eru iðulega mun dýrari. Ef ekki er lagt nægilega mikið fram til að mæta kostnaðinum hamlar það að lokum því sem skipulagið kynni annars að geta gert til eflingar alþjóðastarfinu.
7 Jesús sagði að sannir lærisveinar hans myndu þekkjast greinilega af elsku sinni hver til annars. (Jóh. 13:34, 35) Örlæti í að gefa efnislega og óeigingirni, þegar við tökum þátt í þörfum annarra, eru svo sannarlega góðar leiðir til að sanna að við séum ósviknir kristnir menn.