Stýrum heimabiblíunámum þannig að nemendurnir taki framförum
1 Hvað eiga hjúkrunarkona í Tansaníu, unglingur í Argentínu og móðir í Lettlandi sameiginlegt? Árbókin 1997 (bls. 8, 46 og 56) skýrir frá því að öll þrjú hafi þau tekið hröðum framförum í heimabiblíunámi vegna fúsleika síns til að hafa fleiri en eina námsstund í hverri viku í Þekkingarbókinni. Mælt hefur verið með að boðberar ættu, hvenær sem það er gerlegt, að fara yfir einn kafla í bókinni í hverjum námstíma. En sumum finnst það hægara sagt en gert. Þó að kringumstæðurnar og námsgeta hvers nemanda ráði miklu hafa reyndir kennarar náð góðum árangri með því að hrinda í framkvæmd eftirfarandi tillögum.
2 Eins og rætt var í viðaukanum við Ríkisþjónustu okkar fyrir júní 1996 er nauðsynlegt að kenna nemendunum að búa sig undir námið. Strax í byrjun væri gott að sýna þeim hvernig staðið er að slíkum undirbúningi. Sýndu þeim einkaeintak þitt af Þekkingarbókinni. Undirbúið fyrstu námsstundina saman. Hjálpaðu nemendunum að finna lykilorðin eða -setningarnar sem svara beint neðanmálsspurningunum og strika síðan undir þær eða ofan í þær með áherslupenna. Sumir boðberar hafa jafnvel gefið nemendum sínum slíkan penna. Hvettu þá til að fletta upp öllum ritningarstöðunum þegar þeir búa sig undir námsstundina. Þá kennir þú þeim jafnframt að búa sig undir að sækja safnaðarbóknámið og Varðturnsnámið. — Lúk. 6:40.
3 Góður kennari fær nemandann til að tjá sig og talar ekki of mikið sjálfur. Hann forðast að láta leiðast inn á hliðarspor í umfjöllun sinni um minni háttar atriði. Hann kemur sjaldan með viðbótarefni. Þess í stað leggur hann áherslu á aðalatriðin í námsefninu. Sumir hafa látið nemendurna fá fleiri rit sem hjálpa þeim að finna svör við spurningum. Þar fyrir utan fá áhugasamir nemendur auknar upplýsingar um afmörkuð efni með því að sækja safnaðarsamkomur.
4 Það er ekki endilega nauðsynlegt að fletta upp öllum ritningarstöðunum sem vísað er til í námsefninu. Útskýra mætti sum aðalatriðin út frá ritningartextunum sem skrifaðir eru út í tölugreininni. Í upprifjuninni skaltu draga skýrt fram lykilritningarstaðina sem fjallað var um og hvetja nemandann til að leggja þá á minnið.
5 Hve löng ætti hver námsstund að vera?: Námið þarf ekki að takmarka við eina klukkustund. Sumir húsráðendur hafa lengri tíma aflögu og kunna að vilja nema lengur. Svo má vera að nemandinn vilji hafa námið oftar en einu sínni í viku. Það væri gagnlegt fyrir þá sem geta gert það.
6 Eins og Jesaja 60:8 lýsir skipta þeir þúsundum sem nú á dögum taka að lofa Jehóva og “koma fljúgandi eins og ský og sem dúfur til búra sinna“ inn í söfnuði fólks hans. Við skulum öll sinna okkar hlutdeild í því að starfa náið með Jehóva þegar hann hraðar söfnun sauðumlíkra manna. — Jes. 60:22.