Spurningakassinn
◼ Hvernig getum við stuðlað að áhrifaríkum samkomum?
Sumir halda kannski að öldungar og safnaðarþjónar séu einir ábyrgir fyrir því að safnaðarsamkomurnar séu áhrifaríkar af því að þeir stjórna og sjá um flest dagskráratriðin. En í rauninni getum við öll átt þátt í að gera samkomurnar áhugaverðar og gagnlegar. Við getum stuðlað að áhrifaríkum samkomum á tíu vegu:
Undirbúðu þig fyrirfram. Þegar við erum vel undirbúin á samkomum fylgjumst við með af athygli og þegar við öll gerum það verða samkomurnar líflegri og meira uppbyggjandi. Komdu reglulega. Góð samkomusókn er hvatning fyrir alla viðstadda og minnir þá á mikilvægi þess að koma. Komdu á réttum tíma. Ef við erum sest áður en dagskráin hefst getum við tekið þátt í upphafssöngnum og bæninni og þannig haft fullt gagn af samkomunni. Hafðu öll gögn meðferðis. Með því að hafa biblíuna okkar og þau rit sem notuð eru á samkomunni meðferðis, getum við fylgst með og skilið betur það sem verið er að ræða um. Forðastu truflanir. Við fylgjumst betur með þegar við sitjum framarlega. Hvísl og tíðar salernisferðir geta truflað einbeitingu okkar og annarra. Vertu þátttakandi. Þegar margir rétta upp hönd og svara uppbyggjast fleiri af tjáningu trúarinnar. Gefðu stutt svör. Það gefur eins mörgum og mögulegt er tækifæri til þátttöku. Við ættum að takmarka stutt svör okkar við efnið sem verið er að nema. Gerðu verkefnum þínum góð skil. Þegar þú hefur verkefni í Guðveldisskólanum eða ert þátttakandi í þjónustusamkomunni skaltu undirbúa þig vel, æfa fyrirfram og forðast að boða forföll. Hrósaðu þátttakendum. Segðu öðrum hve mikils metin viðleitni þeirra sé. Það byggir þá upp og hvetur þá til að gera jafnvel betur í framtíðinni. Hvetjum hver annan. Vingjarnlegar kveðjur og uppörvandi samræður fyrir og eftir samkomur auka ánægjuna og gagnið sem við höfum af því að sækja samkomurnar.