Mig langar til að stjórna biblíunámskeiði!
1 Mörg okkar hafa látið þessa ósk í ljós af skiljanlegri ástæðu. Það er í biblíufræðslustarfinu sem við náum markmiði okkar að gera menn að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Samt sem áður hafa mörg okkar mánuðum eða jafnvel árum saman farið á mis við þá einstöku ánægju sem fylgir því að kenna fólki sannleikann. Hvað getum við gert í málinu í nóvembermánuði? Þar sem Þekkingarbókin er tilboð okkar í mánuðinum getum við lagt sérstaka áherslu á að nota hana í þeim tilgangi að hefja ný biblíunámskeið.
2 Takið frá eina eða fleiri helgar: Við hvetjum alla til að taka frá einhvern tíma í þessum mánuði til að einbeita sér að því að hefja nýtt biblíunámskeið. Bóknámsstjórar ættu að velja helgi eða helgar í þessu augnamiði og skipuleggja síðan samstillt átak innan bóknámshópanna í endurheimsóknastarfinu.
3 Hafðu endurheimsóknalistann þinn meðferðis í allar samansafnanir fyrir boðunarstarfið. Farðu síðan til allra sem hafa sýnt áhuga, þegið rit eða komið á samkomur. Farðu í hverja heimsókn með það fyrir augum að hefja biblíunámskeið.
4 Sýnið hvernig biblíunámskeið fer fram: Í samansöfnunum skal sviðsetja vel undirbúna kynningu sem sýnir hvernig byrja megi biblíunámskeið í endurheimsóknum. Þú gætir sagt: „Margir eiga Biblíu en gera sér ekki grein fyrir því að hún hefur að geyma svör við þeim þýðingarmiklu spurningum sem við öll stöndum frammi fyrir í lífinu. [Sýndu efnisyfirlitið í Þekkingarbókinni og lestu kaflaheiti 3, 5, 6, 8 og 9.] Með því að nota þessa námsbók í um það bil klukkustund á viku getur þú á örfáum mánuðum öðlast undirstöðuþekkingu á Biblíunni. Ef þú vilt velja eitthvert þessara málefna væri mér sönn ánægja að sýna þér hvernig námskeiðið fer fram.“ Hiki viðmælandi þinn við að þiggja biblíunámskeið sökum annríkis skaltu nefna að við bjóðum einnig upp á styttra námskeið. Sýndu Kröfubæklinginn og bjóddu stutta námstund, 15-30 mínútur vikulega.
5 Leggjumst öll á eitt við að hefja biblíunámskeið og biðjum Jehóva um að blessa viðleitni okkar. Þá getum við örugglega farið af stað með ný biblíunámskeið! (1. Jóh. 5:14, 15) Langi þig til að stjórna biblíunámskeiði þá gæti þetta einmitt verið tækifærið til að koma því til leiðar.