Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 12.98 bls. 3-4
  • Byggðu líf þitt í kringum þjónustu Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Byggðu líf þitt í kringum þjónustu Jehóva
  • Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Svipað efni
  • Búið til hentuga dagskrá fyrir fjölskylduna
    Ríkisþjónusta okkar – 2005
  • Brautryðjandastarfið — er það fyrir þig?
    Ríkisþjónusta okkar – 1998
  • Fjölskyldur, lofið Guð með söfnuði hans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Hvernig fjölskyldan vinnur saman að biblíunámi
    Ríkisþjónusta okkar – 1999
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 1998
km 12.98 bls. 3-4

Byggðu líf þitt í kringum þjónustu Jehóva

1 Jesús líkti áheyrendum sínum við tvenns konar húsbyggjendur. Annar byggði lífsveg sinn á því bjargi að hlýða Kristi og gat staðist andstöðu- og þrengingarstorma. Hinn byggði hús sitt á sandi eigingjarnrar óhlýðni og stóðst ekki þegar á reyndi. (Matt. 7:24-27) Þar sem við lifum við endalok þessa heimskerfis verðum við fyrir miklu andstreymi. Dimm ský þrengingarinnar miklu hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Verðum við staðföst allt til enda með óbilandi trú? (Matt. 24:3, 13, 21) Það veltur að miklu leyti á því hvernig við byggjum upp líf okkar núna. Það er því brýnt að við spyrjum okkur: ‚Byggi ég líf mitt tryggilega á hlýðinni þjónustu við Guð?‘

2 Hvað merkir það að byggja líf sitt í kringum þjónustu Jehóva? Það merkir að gera Jehóva að þungamiðju lífsins. Það felur í sér að hafa Guðsríki í brennidepli. Það þýðir að hlýða Guði í öllu sem við gerum í daglega lífinu. Það merkir að vera heilshugar í einka-, fjölskyldu- og safnaðarbiblíunámi og í boðunarstarfinu. Við þurfum að láta þetta ganga fyrir. (Préd. 12:13; Matt. 6:33) Að vera hlýðinn og samkvæmur sjálfum sér hefur í för með sér bjargfasta trú sem fellur ekki í neinum mótlætisstormi sem getur skollið á.

3 Það er ánægjulegt að sjá milljónir manna byggja líf sitt og framtíðarvon traustlega í kringum þjónustu Guðs eins og Jesús gerði. (Jóh. 4:34) Þeir fylgja reglufastri áætlun guðræðislegra athafna og njóta ríkulegrar blessunar fyrir vikið. Móðir nokkur skýrði svo frá hvernig þeim hjónunum tókst vel til við uppeldi tveggja sona sinna í þjónustu Jehóva: „Við fylltum líf okkar sannleikanum — sóttum öll mótin, undirbjuggum okkur fyrir og sóttum samkomurnar og létum þjónustuna á akrinum vera fastan þátt í lífi okkar.“ Eiginmaður hennar bætti við: „Sannleikurinn er ekki hluti af lífi okkar; hann er lífið sjálft. Allt annað snýst um hann.“ Lætur þú líka tilbeiðsluna á Jehóva ganga fyrir öllu öðru í þinni fjölskyldu?

4 Semdu nothæfa vikuáætlun: Skipulag Jehóva hjálpar okkur að hafa góðar andlegar venjur með því að halda fimm samkomur á viku. Kristnir menn, sem byggja líf sitt í kringum tilbeiðslu Jehóva, ráðstafa veraldlegum málum og fjölskyldumálum þannig að þeir geti sótt allar þessar nauðsynlegu samkomur. Þeir leyfa ekki lítilvægum málum að trufla reglulega samkomusókn sína. — Fil. 1:10; Hebr. 10:25.

5 Þroskaðir kristnir menn vita að rétt eins og það er nauðsynlegt að borða reglulega á hverjum degi er nauðsynlegt að semja ákveðna áætlun fyrir einka- og fjölskyldunám, þar á meðal að undirbúa sig fyrir samkomur. (Matt. 4:4) Gætir þú tekið frá að minnsta kosti 15 eða 20 mínútur á hverjum degi fyrir einkanám? Lykilatriðið er að leyfa ekki öðru að ganga á tímann sem tekinn er frá til að nema. Gerðu þetta að gagnlegri venju. Það gæti kostað þig að vakna fyrr á morgnana en ella. Hinir 17.000, sem mynda Betelfjölskylduna út um allan heim, vakna snemma á morgnana til að ræða um dagstextann. Að sjálfsögðu þarf að fara nógu snemma í háttinn til að geta vaknað snemma næsta dag hress og úthvíldur.

6 Ef þú ert höfuð fjölskyldunnar skaltu eiga frumkvæðið að því að gera guðræðisáætlun fjölskyldunnar. Sumar fjölskyldur lesa saman í Biblíunni, Árbókinni eða öðrum ritum þegar þær slappa af eftir kvöldmatinn. Margir foreldrar, sem hafa séð börn sín ná góðri fótfestu í trúnni, segja að eitt af því sem stuðlaði að góðum árangri þeirra hafi verið sú venja fjölskyldunnar að eiga saman andlega uppbyggjandi stund eitt kvöld í viku. Einn slíkur faðir sagði: „Ég tel að andlegan þroska barna okkar megi að stórum hluta rekja til reglulegs fjölskyldunáms á miðvikudagskvöldum sem hófst fyrir einum 30 árum.“ Öll börnin hans þrjú létu skírast ung að aldri og hófu seinna þjónustu í fullu starfi. Auk fjölskyldunáms er hægt að æfa verkefni fyrir samkomu eða kynningarorð fyrir boðunarstarfið og finna eitthvað annað heilnæmt til að gera saman.

7 Hefurðu ‚keypt tíma‘ fyrir boðunarstarfið í vikulegri áætlun þinni? (Kól. 4:5, NW) Flest okkar eru mjög upptekin. Við þurfum að axla fjölskyldu- og safnaðarábyrgð. Önnur mál gætu auðveldlega ýtt prédikunar- og kennslustarfinu til hliðar ef við gerum ekki ákveðnar ráðstafanir til að eiga þátt í þessu mikilvæga starfi í hverri viku. Eigandi stórs nautgripabús sagði: „Um árið 1944 gerði ég mér ljóst að eina leiðin til að komast út í þjónustuna væri að taka frá ákveðinn dag fyrir hana. Enn þann dag í dag tek ég mér frí einn dag í viku fyrir þjónustuna.“ Einn kristinn öldungur getur varið að meðaltali 15 stundum á mánuði í prédikunarstarfið með því að hafa ákveðna starfsáætlun. Þurfi hann að sinna veraldlegri vinnu á laugardegi gerir hann það síðdegis og notar morguninn til boðunarstarfsins. Getur þú og fjölskylda þín tekið að minnsta kosti einn dag í viku fyrir starfið og gert það að hluta af andlegri lífsstefnu ykkar? — Fil. 3:16.

8 Grannskoðaðu lífsvenjur þínar: Margt vinnur gegn því að við byggjum líf okkar í kringum þjónustu Jehóva. Ófyrirsjáanlegar aðstæður geta raskað vel skipulagðri náms-, samkomu- og starfsáætlun. Óvinur okkar Satan gerir líka hvað sem hann getur til að „hamla“ áætlunum okkar og ónýta þær. (1. Þess. 2:18; Ef. 6:12, 13) Leyfðu ekki þessum hindrunum að draga úr þér kjarkinn og fá þig til að gefast upp. Gerðu þær breytingar sem þarf til að fylgja guðræðislegri áætlun þinni. Staðfesta og þolgæði er nauðsynlegt til að áorka því sem er í raun ómaksins virði.

9 Við megum ekki leyfa veraldlegum áhrifum og slæmum hvötum okkar ófullkomna holds að koma óandlegum athöfnum inn í líf okkar sem gætu rænt okkur sífellt meiri tíma og athygli. Sjálfsrannsókn er nauðsynleg. Hægt er að spyrja spurninga eins og: ‚Hefur líf mitt smám saman komist úr jafnvægi eða hefur slaknað á einbeitingunni? Er ég byrjaður að byggja líf mitt í kringum hluti í heiminum sem fyrirfarast? (1. Jóh. 2:15-17) Hve miklum tíma eyði ég í einkamál, skemmtiferðir, íþróttir eða aðra skemmtun — þar með talinn tíminn sem fer í að horfa á sjónvarpið, eða vafra á Netinu — í samanburði við tímann sem ég nota í andleg mál?‘

10 Hvað geturðu gert ef þér finnst að líf þitt fyllist æ meir af lítilvægum málum? Er ekki ráð að biðja Jehóva um hjálp til að beina lífi manns aftur að þjónustu hans, eins og Páll bað um að bræður sínir yrðu „leiðréttir“ eða þeim „stýrt inn á rétta braut“? (2. Kor. 13:9, 11, NW neðanm.) Vertu síðan ákveðinn að lifa eftir ásetningi þínum og gerðu nauðsynlegar breytingar. (1. Kor. 9:26, 27) Jehóva hjálpar þér að forðast að beygja út af veginum til hægri eða vinstri þegar þú þjónar honum í hlýðni. — Samanber Jesaja 30:20, 21.

11 Vertu upptekinn í gleðilegri þjónustu Guðs: Milljónir manna sækjast í örvæntingu eftir hamingju. En þegar dauðinn nálgast komast þeir aðeins að raun um að hinir efnislegu hlutir, sem þeir sóttust svo ákaft eftir, hafa ekki fært þeim varanlega hamingju. Það hefur verið „eftirsókn eftir vindi.“ (Préd. 2:11) Þegar við á hinn bóginn látum líf okkar snúast í kringum Jehóva, ‚höfum hann ætíð fyrir augum,‘ öðlumst við mikla gleði. (Sálm. 16:8, 11) Það er af því að Jehóva er ástæðan fyrir því að við erum til. (Opinb. 4:11) Án hans, hins mikla Guðs sem hefur tilgang, er lífið tilgangslaust. Að þjóna Jehóva fyllir líf okkar með tilvinnandi, tilgangsríku starfi sem er bæði öðrum og okkur varanlega til góðs, já, að eilífu.

12 Heimur Satans líður bráðlega undir lok og það er mikilvægt að verða ekki sjálfsöruggur og glata tilfinningunni að mikið liggi við. Viðhorf okkar til framtíðarinnar hefur áhrif á daglegt líf okkar. Fólkið á dögum Nóa, sem trúði ekki að koma myndi heimsflóð, „gaf því engan gaum“ og lét líf sitt snúast um einkamál — að eta, drekka, kvænast og giftast — þar til flóðið „hreif þá alla burt.“ (Matt. 24:37-39, NW) Þeir sem láta líf sitt snúast um þennan heim nú á dögum sjá lífshorfur sínar hverfa í stærstu eyðingu sem maðurinn hefur nokkurn tíma orðið fyrir, ‚degi Jehóva.‘ — 2. Pét. 3:10-12.

13 Haltu því áfram að byggja líf þitt í kringum hinn lifandi Guð, Jehóva, og það að gera vilja hans. Engin fjárfesting í þessum heimi hefur eins áreiðanlegan bakhjarl og Jehóva. Hann getur ekki logið — hann reynist trúr loforðum sínum. (Tít. 1:2) Hann getur ekki dáið — ekkert sem Jehóva er trúað fyrir er glatað. (Hab. 1:12; 2. Tím. 1:12) Sú hlýðni og trú, sem við byggjum upp núna, er aðeins upphaf eilífrar og gleðilegrar þjónustu við okkar hamingjusama Guð! — 1. Tím. 1:11; 6:19.

[Innskot á blaðsíðu 3]

„Sannleikurinn er ekki hluti af lífi okkar; hann er lífið sjálft. Allt annað snýst um hann.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila