Geturðu rétt hjálparhönd?
1 Páll postuli hvatti safnaðarmenn til að „bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.“ (1. Kor. 12:25) Þess vegna eigum við að sýna hver öðrum persónulegan áhuga og vera fús til að rétta hjálparhönd hvenær sem þörf er á. Sumar systranna á meðal okkar eru til dæmis að ala börn sín upp í sannleikanum einar síns liðs. Þær þurfa að bera einar alla ábyrgðina á andlegu uppeldi barnanna. Þær verðskulda vissulega hlýlega uppörvun og aðstoð í samræmi við ‚þarfir‘ sínar. (Rómv. 12:13a) Getur þú rétt þeim hjálparhönd?
2 Leiðir til að hjálpa: Ef þú getur boðið fjölskyldu, sem þarf annars að nota almenningsfarartæki, far á samkomur og mót getur það haft nokkurn sparnað í för með sér fyrir hana. Ef þú hjálpar móður að annast lítið barn meðan samkoma stendur yfir getur hún kannski haft meira gagn af dagskránni. Og þú getur ef til vill orðið henni að liði með því að aðstoða hana þegar hún fer með börnin sín út í boðunarstarfið. Þú getur haft mjög góð áhrif á börnin með því að sýna þeim ósvikinn áhuga og vingast við þau. Og það gæti verið hressandi og andlega upplífgandi fyrir einstætt foreldri og börnin að vera með í fjölskyldunámi þínu af og til.
3 Vertu háttvís: Við ættum þó að gæta þess að þröngva ekki hjálp okkar upp á fólk sem finnst það ekki þarfnast hjálpar. Við viljum ekki heldur skipta okkur af einkamálum fjölskyldunnar þegar við erum að rétta henni hjálparhönd. Og auðvitað er heppilegast að systur og hjón aðstoði systur sem er hjálparþurfi.
4 Allir kristnir menn eru hvattir til að ‚stunda gestrisni‘ hver gagnvart öðrum. (Rómv. 12:13b) Að rétta andlegum bræðrum okkar og systrum hjálparhönd er ein leið af mörgum til að sýna sams konar kærleika innan vébanda safnaðarins og Kristur sýndi. — Jóh. 13:35.