Veraldleg menntun og andleg markmið þín
1 Staðgóð menntun í æsku hjálpar þér að verða vel læs og skrifandi og kunna almenn skil á landafræði, sögu, stærðfræði og raunvísindum. Þú lærir jafnframt að hugsa skýrt, rannsaka staðreyndir, leysa þrautir og temja þér frjóa hugsun. Slík skólaganga kemur þér til góða alla ævi. Hvernig geturðu látið veraldlega menntun og andleg lífsmarkmið þín fara saman þannig að þau hjálpi þér að ‚varðveita visku og gætni‘? — Orðskv. 3:21, 22.
2 Vertu nytsamur í þjónustu Guðs: Þegar þú ert í skóla skaltu fylgjast með í kennslustundum og vinna heimaverkefni þín vel. Ef þú nærð góðri lestrar- og námstækni muntu eiga auðveldara með að rannsaka orð Guðs og halda þér andlega sterkum. (Post. 17:11) Alhliða þekking hjálpar þér að ná betur til fólks, sem þú hittir í starfinu, með ólíkan bakgrunn, áhugamál og trúarskoðanir. Sú menntun, sem þú aflar þér í skóla, mun koma að góðum notum þegar þú sinnir kristnum skyldum þínum í skipulagi Guðs. — Samanber 2. Tímóteusarbréf 2:21; 4:11.
3 Lærðu að sjá fyrir þér: Ef þú leggur þig fram geturðu einnig aflað þér þeirrar kunnáttu sem þú þarft til að sjá þér farborða að skólagöngu lokinni. (Samanber 1. Tímóteusarbréf 5:8.) Veldu fögin vel og vandlega. Í stað náms, sem býður upp á takmarkaða atvinnumöguleika, skaltu íhuga hvort ekki sé betra að læra einhverja iðn eða afla þér fagkunnáttu sem gerir þér kleift að fá hentuga vinnu hvar sem er. (Orðskv. 22:29) Slík verkkunnátta og þjálfun getur gert þér kleift að sjá fyrir þér ef þú ákveður að þjóna þar sem þörfin er meiri. — Samanber Postulasöguna 18:1-4.
4 Að afla sér góðrar undirstöðumenntunar meðan maður er í skóla getur hjálpað manni að færa út kvíarnar í þjónustunni. Leggðu hart að þér svo að þú getir aflað þér nauðsynlegrar kunnáttu til að sjá þér farborða meðan þú sækir fram í þjónustu Jehóva. Þannig getur skólagangan hjálpað þér að ná andlegum markmiðum þínum.