Hvað geturðu sagt við múslíma?
1 Hefurðu einhvern tíma borið vitni fyrir múslíma? Þá hefurðu vafalaust tekið eftir brennandi trú þeirra á Guð. Múslímar vita hins vegar lítið um hina komandi paradís á jörð sem spámenn Jehóva sögðu fyrir. Það er þessi von sem við viljum segja þeim frá. (1. Tím. 2:3, 4) Eftirfarandi upplýsingar ættu að hjálpa þér að bera vitni fyrir þeim.
2 Múslímar trúa á Allah eða Guð og líta á Múhameð sem spámann hans. Kóraninn er helgibók þeirra og trúarbrögð þeirra kallast íslam sem merkir „undirgefni.“ Kóraninn segir að það sé rangt að stela og tilbiðja skurðgoð, að Guð sé einn og ekki hluti af þrenningu. Hann kennir ódauðleika sálarinnar, helvíti og himneska paradís. Múslímar viðurkenna Biblíuna sem orð Guðs en trúa því að henni hafi verið breytt og að Kóraninn, sem sé enn á upprunalega málinu, hafi haldist óspilltur.
3 Vertu vingjarnlegur, háttvís og skarpskyggn: Vertu vingjarnlegur og háttvís þegar þú tekur múslíma tali. (Orðskv. 25:15) Hafðu hugfast að múslímar hafa mjög rótgrónar trúarskoðanir og hafa lært þær flestar utanbókar. Það er ekki hluti af trúaruppeldi þeirra að rökræða um trúarkenningar og sannfæra sig um hver vilji Guðs sé. (Rómv. 12:2) Það er mjög mikilvægt að sýna múslímum þolinmæði og skilning til að geta orðið þeim að liði. — 1. Kor. 9:19-23.
4 Forðastu orðfæri sem fengi múslíma til að tengja þig við kristna heiminn. Láttu koma skýrt fram að þú tengist á engan hátt kaþólskri trú eða mótmælendatrú, að þú sért frábrugðinn þeim. Talaðu um Biblíuna sem bók Guðs. Þar eð flestir múslímar hafa andúð á hugtakinu „sonur Guðs“ er yfirleitt best að nota það ekki og ræða það ekki fyrr en viðkomandi hefur tekið andlegum framförum. Þú getur hins vegar talað um Jesú og kallað hann spámann eða sendiboða. Forðastu þrætur. Ef þú sérð að viðmælanda þínum er að hitna í hamsi skaltu kveðja hann kurteislega og hafa þig tafarlaust á burt.
5 Það er best að ræða aðeins við einn mann en ekki við hóp manna. Yfirleitt er ráðlegt að konur vitni fyrir konum og karlar fyrir körlum. Það eru auðvitað til undantekningar frá þessu en það þarf að sýna góða dómgreind. Margir múslímar eru líka viðkvæmir fyrir því sem þeir telja ósæmandi klæðaburð og snyrtingu kvenna. Systur þurfa að vera vakandi fyrir því. — 1. Kor. 10:31-33.
6 Umræðuefni: Talaðu opinskátt um mikilleik Guðs og kærleika hans. Hikaðu ekki við að fullyrða að þú sért sannur guðsdýrkandi, að Guð sé einn (ekki þrenning) og að skurðgoðadýrkun sé röng. Talaðu um illskuna í heiminum — styrjaldir, þjóðfélagsólgu, kynþáttahatur og þá hræsni sem einkennir svo margt trúhneigt fólk nú á dögum.
7 Bæklingurinn The Guidance of God — Our Way to Paradise (Leiðsögn Guðs — leiðin til paradísar) veitir þér betri innsýn í hvaða umræðuefni mætti nota til að koma af stað samræðum við múslíma. Hann er gerður til að höfða til múslíma búsetta á svæðum þar sem þeir telja sér óhætt að kynna sér Biblíuna. Hann er til á arabísku, dönsku, ensku og fleiri tungumálum.
8 Þú gætir notað eftirfarandi kynningu:
◼ „Ég er að gera mér sérstakt far um að ræða við múslíma. Ég hef verið að lesa um trú ykkar og held að það sé rétt hjá mér að múslímar trúi á einn Guð og á alla spámennina. [Leyfðu viðmælanda þínum að svara.] Mig langar til að ræða við þig um ævafornan spádóm sem segir frá því að jörðinni verði breytt í paradís. Mætti ég lesa fyrir þig orð spámannsins? [Lestu Jesaja 11:6-9.] Þessi spádómur minnir mig á tilvitnun í Kóraninn sem er í þessum bæklingi.“ Flettu upp á bls. 9 í bæklingnum Guidance of God og lestu feitletruðu tilvitnunina sem talar um að hinir réttlátu erfi jörðina. Sé áhugi fyrir hendi skaltu halda samræðunum áfram og ræða 7.-9. grein á næstu blaðsíðu. Skildu bæklinginn eftir og mæltu þér mót við viðmælanda þinn aftur. — Aðra kynningu er að finna í Ríkisþjónustu okkar í febrúar 1998, bls. 6, gr. 27.
9 Þegar þú býðst til að fara yfir bæklinginn Guidance of God með einhverjum er best að kalla það umræðu en ekki biblíunámskeið. Þegar þú hefur lokið yfirferðinni ætti nemandinn að vera reiðbúinn að nema Kröfubæklinginn eða Þekkingarbókina. Önnur sérhönnuð rit fyrir múslíma eru smáritið How to Find the Road to Paradise (Að finna leiðina til paradísar) og bæklingurinn The Time for True Submission to God (Tími sannrar undirgefni við Guð).
10 Með þessa vitneskju um trúarskoðanir og viðhorf múslíma að leiðarljósi getum við valið skynsamlega hvaða rit við bjóðum þeim og hvernig við vitnum fyrir þeim. Megi Jehóva halda áfram að blessa viðleitni okkar að hjálpa alls konar fólki að ákalla nafn hans og bjargast. — Post. 2:21.