Jehóva veitir kraft
1 Hvaða mynd hefur þú af Páli postula? Þegar við lesum Postulasöguna sjáum við hve iðinn hann var í þjónustu Jehóva. Hvernig gat Páll gert allt þetta? Hann sagði: „Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.“ (Fil. 4:13) Við getum líka notið góðs af þeim krafti sem Jehóva veitir. Við gerum það með því að notfæra okkur sex ráðstafanir sem hann hefur gert til að við getum endurnærst og styrkst andlega.
2 Orð Guðs: Við verðum að borða mat til að viðhalda líkamlegum styrk. Eins verðum við að nærast á orði Guðs til að halda okkur andlega lifandi. (Matt. 4:4) Biblían veitir kraft sem heldur okkur gangandi. Til að viðhalda kostgæfni og eldmóði gagnvart sannleikanum verðum við, helst daglega ef mögulegt er, að hafa innihaldsríkt einkanám þar sem við hugleiðum efnið. — Sálm. 1:2, 3.
3 Bænin: Það er mikilvægt að nálgast Jehóva, sérstaklega á erfiðleika tímum. Fyrir milligöngu anda síns veitir hann kraft þeim sem biðja hann. (Lúk. 11:13; Ef. 3:16) Ritningin hvetur okkur til að vera ‚staðföst í bæninni.“ (Rómv. 12:12) Ert þú það?
4 Söfnuðurinn: Safnaðarsamkomurnar og hlýleg samskipti við bræður og systur veita okkur líka styrk og hvatningu. (Hebr. 10:24, 25) Þegar við eigum í erfiðleikum reisa þau okkur á fætur og hjálpa okkur á kærleiksríkan hátt. — Orðskv. 17:17; Préd. 4:10.
5 Boðunarstarfið: Ef við tökum reglulega þátt í starfinu auðveldar það okkur að hafa ríkið og blessun þess efst í huga. Okkur líður betur þegar við hjálpum öðrum að læra um Jehóva. (Post. 20:35) Ekki geta allir flutt til að þjóna þar sem þörfin er meiri eða tekið þátt í fullu starfi en við getum átt marktæka þátttöku í boðunarstarfinu á annan hátt. — Hebr. 6:10-12.
6 Kristnir umsjónarmenn: Við njótum góðs af þeirri uppörvun og hjálp sem öldungarnir veita. Jehóva hefur skipað þá hirða þeirrar hjarðar sem hann hefur falið þeim. (1. Pét. 5:2) Farandhirðar byggja upp söfnuðina sem þeir þjóna, eins og Páll gerði á hans dögum. — Rómv. 1:11, 12.
7 Dæmi um trúfasta menn: Það er styrkjandi að skoða dæmi bæði um trúfasta samverkamenn fortíðarinnar og nútímans. (Hebr. 12:1) Þegar þig vantar uppörvun ættir þú endilega að lesa hvetjandi ævisögu í ritum okkar, uppbyggjandi frásögn í Árbókinni eða spennandi lýsingu á nútímasögu votta Jehóva í Boðendabókinni.
8 Bróðir, sem nú er á tíræðisaldri, tók við sannleikanum þegar hann var ungur drengur. Strax á unglingsárunum varð hann fyrir trúarprófraunum. Í fyrsta lagi yfirgáfu sumir virkir safnaðarmenn skipulag Jehóva. Svo fannst honum starfið hús úr húsi erfitt. Hann reiddi sig samt alltaf á Jehóva. Bráðlega fór hann að njóta starfsins. Og þrátt fyrir heilslubresti er hann enn í Betelfjölskyldunni í Brooklin þar sem hann þjónar í hinu stjórnandi ráði. Hann sér ekki eftir því að hafa haldið sig við skipulag Jehóva.
9 Systir, sem er í Betelfjölskyldunni í Bretlandi, lét skírast þegar hún var 13 ára. Árið eftir hóf hún brautryðjandastarf með bróður sínum og árið þar á eftir var faðir hennar settur í fangelsi vegna hlutleysis síns í síðari heimsstyrjöldinni. Hún hélt áfram að leita kraftar hjá Jehóva og þjóna honum. Seinna giftist hún trúföstum bróður og saman héldu þau áfram að gera vilja Jehóva. Eftir 35 ára hjónaband dó maður hennar skyndilega. Aftur fékk hún kraft frá Jehóva og allt til þessa dags heldur hún áfram að þjóna honum og hún hlakkar til þess að gera það eilíflega í jarðneskri fjölskyldu hans.
10 Jehóva hjálpar trúföstum þjónum sínum og styrkir þá. „Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.“ Við getum fengið ótakmarkaðan kraft ef við nýtum okkur allar þær sex ráðstafanir sem nefndar eru hér að ofan. Mundu að „þeir sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft. . . . Þeir hlaupa og lýjast ekki, þeir ganga og þreytast ekki.“ (Jes. 40:29-31) Páll reiddi sig á styrk frá Jehóva og það verðum við líka að gera.