Heiðrum Jehóva og son hans
Allir geta haft mikið gagn af því að sækja minningarhátíðina 8. apríl
1 Hverjir eru heiðraðir sérstaklega nú á dögum? Þeir sem eru mikils metnir í heiminum fyrir afrek sín. En yfirleitt falla verk þeirra fljótt í gleymsku. Hvað um verk sem eru öllu mannkyni til blessunar? Við beinum athyglinni að mestu kærleiksverkum í þágu mannkyns þegar við höldum kvöldmáltíð Drottins eftir sólsetur 8. apríl, 2001.
2 Hver verðskuldar mestan heiður? Biblían svarar því: „Verður ert þú, [Jehóva] . . . að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti.“ (Opinb. 4:11) Jehóva er skapari og stjórnandi alheimsins. Hann mun aldrei hætta að verðskulda heiður. — 1. Tím. 1:17.
3 Verk Jesú Krists, sonar Guðs, eru mannkyni til blessunar að eilífu. Hann líkti nákvæmlega eftir föður sínum. (Jóh. 5:19) Óbrigðul hlýðni hans og dyggileg þjónusta gerðu hann ‚maklegan að fá máttinn og ríkdóminn, visku og kraft, heiður og dýrð og lofgjörð.‘ (Opinb. 5:12) Faðir hans heiðraði hann með því að krýna hann sem konung. (Sálm. 2:6-8) Við höfum tækifæri til að heiðra bæði föðurinn og soninn þegar við höldum hátíðlega kvöldmáltíð Drottins hinn 8. apríl, 2001.
4 Því miður hafa tiltölulega fáir í sögu mannkyns veitt Jehóva og syni hans verðskuldaðan heiður. Ísraelsmenn, kjörþjóð Guðs til forna, þjónuðu honum stundum aðeins til málamynda. Það var blygðunarlaus óvirðing. (Mal. 1:6) Tilhlýðileg virðing útheimtir trúfasta hlýðni sem byggist á kærleika og þakklæti fyrir allt sem Jehóva og sonur hans hafa gert fyrir okkur. Það ber vott um guðsótta og lotningu ef við veitum Jehóva og Jesú slíkan heiður og virðingu og sýnir að við viðurkennum þá í öllu sem við gerum. Söfnuðurinn leitast við að kenna og hjálpa öðrum að gera það líka.
5 Sérstakt tækifæri til að heiðra Jehóva og Jesú: Minningarhátíðin er þýðingarmesta samkoma fólks Jehóva ár hvert. Hvern sem langar til að þjóna Jehóva og heiðra hann ætti að vera viðstaddur. (Lúk. 22:19) Við væntum þess að aðsóknin fari yfir 14 milljónir. Þetta er gott tækifæri til að heiðra himneskan föður okkar. Enda þótt athyglin beinist mest að Jesú er heiðurinn og virðingin fyrir það sem hann áorkaði til lofs fyrir föðurinn sem sendi hann. — Jóh. 5:23.
6 Hvað getum við gert til að styðja þennan sérstaka viðburð? Við getum hjálpað áhugasömum að hafa sem mest gagn af honum. Hvettu þá til að mæta og hjálpaðu þeim fúslega til þess ef þörf er á. Útskýrðu markmið ræðunnar. Kynntu þá fyrir öðrum. Það sem þeir sjá og heyra gæti vakið löngun hjá þeim til að sameinast okkur í að heiðra Jehóva.
7 Vanmettu ekki þau áhrif sem dagskráin kann að hafa. Háskólanemi sagði: „Ég hef oft gengið til altaris í kirkjunni minni en þetta er allt annað. Ég sé að þetta er alveg eins og Biblían segir og ég held að þið hafið sannleikann.“ Hann fór að sækja samkomur reglulega og lét skírast skömmu síðar.
8 Hjálpaðu nýjum að taka framförum: Veittu athygli nýjum sem sækja minningarhátíðina og heimsæktu þá fljótlega til að ræða um þá örvandi fræðslu sem veitt var. Segðu þeim frá hinum samkomunum þar sem þeir geta bætt við biblíuþekkingu sína. Sautjándi kafli Þekkingarbókarinnar, „Finndu öryggi meðal fólks Guðs,“ sýnir þeim fram á hvernig þeir eiga greiðan aðgang að fjölbreyttri, andlegri fæðu sem miðlað er fyrir milligöngu safnaðarins. Sýndu þeim myndbandið Our Whole Association of Brothers (Bræðrafélag okkar) svo að þeir sjái með eigin augum einingu, gleði og kostgæfni fólks Jehóva.
9 Það er mikilvægt að áhugasamir læri hvernig þeir geta sjálfir heiðrað og virt Jehóva. Skýrðu fyrir þeim að Jehóva hlustar á einlægar bænir og er eilíf uppspretta andlegrar endurnæringar. (1. Jóh. 5:14) Lýstu hvers konar hegðun er Jehóva til sóma með hjálp 8. til 12. kafla í Kröfubæklingnum. Ræddu um það sem kemur fram í bæklingnum Vottar Jehóva á blaðsíðu 30-1 og hvettu nýja til að hugsa um möguleikann á að heiðra Jehóva í boðunarstarfinu.
10 Þakklæti okkar fyrir fórn Jesú og fyrir það að mega vera lærisveinar hans heiðrar föðurinn og er öðrum til blessunar. Jesús lofaði: „Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.“ — Jóh. 12:26.