Spurningakassinn
◼ Hvenær er viðeigandi að mynda nýjan bóknámshóp?
Heppilegast er að ekki séu fleiri en 15 í hverjum bóknámshópi, líka þeim sem er í ríkissalnum. Fari aðsóknin yfir það á einhverjum stað ætti að íhuga að mynda nýjan hóp og jafna töluna. Hvers vegna er mælt með því?
Sé bóknámshópurinn hæfilega smár á stjórnandinn auðveldara með að sinna hverjum og einum í hópnum. Auk þess fá allir betra tækifæri til að leggja orð í belg og játa trú sína í afslöppuðu umhverfi. (Hebr. 10:23; 13:15) Smáir hópar á nokkrum stöðum á safnaðarsvæðinu auðvelda boðberum að sækja bóknámið og samkomur fyrir boðunarstarfið. Heildaraðsókn að safnaðarbóknáminu hefur aukist hjá söfnuðum sem hafa fjölgað bóknámsstöðum.
Sérstakar aðstæður geta gert að verkum að ráðlegt er að mynda annan hóp, jafnvel smáan, til dæmis á einangruðum svæðum, þegar húsnæði er yfirfullt eða ekki með nægilegt sætarými. Þegar þörf er á má mynda daghóp fyrir roskna boðbera, næturvinnufólk eða systur með vantrúaða eiginmenn.
Í hverjum bóknámshópi ættu að vera nokkrir andlega sterkir og virkir boðberar, ásamt hæfum stjórnanda og lesara. Bræður ættu að sækja fram til að fullnægja þessum þörfum safnaðarins.
Öldungarnir geta eflt söfnuðinn með því að tryggja að bóknámshóparnir séu hæfilega stórir, þægilega staðsettir og fullnægi vel andlegum þörfum viðstaddra. Hvenær sem þurfa þykir ætti að mynda nýja hópa svo að allir geti nýtt sér til fulls þessa einstöku andlegu ráðstöfun. Geturðu boðið fram heimili þitt undir bóknámshóp? Margir, sem hafa gert það, hafa uppskorið andlega blessun.