Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 6.01 bls. 3-6
  • Geturðu boðið þig fram?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Geturðu boðið þig fram?
  • Ríkisþjónusta okkar – 2001
  • Svipað efni
  • Góð verk sem gleymast ekki
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2019
  • Velkomin í heimsókn!
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Hvað er Betel?
    Hverjir gera vilja Jehóva?
Ríkisþjónusta okkar – 2001
km 6.01 bls. 3-6

Geturðu boðið þig fram?

1 Óvenjulegur atburður átti sér stað árið 778 f.o.t. Spámaðurinn Jesaja sá þá sýn: „[Jehóva] sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli.“ Hann heyrir serafana vekja athygli á dýrð Jehóva. Þeir kalla: „Heilagur, heilagur, heilagur er [Jehóva] allsherjar.“ Hann hlýtur að hafa fyllst djúpri lotningu við að sjá þetta. Í sýninni varpar Jehóva fram áleitinni spurningu: „Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?“ Engin skýring er gefin á eðli verkefnisins og ósagt er hvort sá sem býður sig fram hafi einhvern ávinning af því sjálfur. En Jesaja svarar án þess að hika: „Hér er ég, send þú mig!“ — Jesaja 6:1, 3, 8.

2 Þessi fúsleiki til að gera hvaðeina sem Jehóva biður um er áberandi í fari fólks hans. (Sálm. 110:3) Og núna er sérstakt boð látið út ganga til þeirra sem geta boðið sig fram. Getur þú tekið þessu boði með sama fúsleika og Jesaja?

3 Það vantar sífellt fleiri starfsmenn á Betel í Reykjavík og þá fyrst og fremst á þýðingadeildina. Sá sem býður sig fram þarf að vera áfram um að láta hagsmuni Guðsríkis sitja í fyrirrúmi og vera fús til að gera hvaðeina sem þarf til að styðja boðunarstarfið í heiminum. (Matt. 6:33) Betelstarf býður reyndar upp á einstakt tækifæri til að þjóna Jehóva af allri sálu. Hvernig þá?

4 Starfsemin á Betel: Vottar Jehóva gefa út rit á 360 tungumálum. Þar af bættust við 22 tungumál á síðasta þjónustuári. Tímaritin Varðturninn og Vaknið! eru tvö helstu ritin sem notuð eru við útbreiðslu sannleikans. Það er ekkert áhlaupaverk að semja og hanna fjögur tímarit á ensku í hverjum mánuði. Að baki þessum ritum liggur geysileg rannsóknarvinna og mikil alúð við að „finna fögur orð“ og „sannleiksorð.“ (Préd. 12:9, 10) En að koma þessum tímaritum út hálfsmánaðarlega, mánaðarlega eða ársfjórðungslega á fjölda tungumála kostar enn meiri vinnu. Þegar það er reiknað með voru gerð alls 4078 ólík blöð á síðasta ári á mismunandi tungumálum. Rösklega 1900 þýðendur vinna að þessu verkefni á Betelheimilum um heim allan. Á Betel í Reykjavík eru þýdd og búin til prentunar 16 blöð á ári og 12 Ríkisþjónustur, og á síðastliðnum tveim árum hafa verið þýddar og búnar til prentunar þrjár námsbækur, söngbók og tveir bæklingar. Einnig eru þýdd uppköst fyrir opinbera fyrirlestra og ræður fyrir mótsdaga, svæðismót og landsmót, ásamt efni fyrir Guðveldisskólann. Og Félagið gaf út fyrsta myndbandið á íslensku á þessu ári. Á síðastliðnum tveim árum hefur á Betel verið unnið öflugt kynningarstarf, annars vegar um læknismeðferð án blóðgjafar og hins vegar í sambandi við sýninguna „Milli andspyrnu og píslarvættis.“ Við þetta má svo bæta umsjón með starfi safnaðanna á landinu og margvíslega þjónustu við þá.

5 Að öllu samanlögðu fer fram viðamikil starfsemi á Betel, en hún er líka andlega gefandi. Það er einkar ánægjulegt til þess að vita að maður beini allri starfsorku sinni að því að styðja boðunar- og kennslustarfið. Á Betel kynnist maður skipulagi Jehóva mjög náið sem minnir á það hvernig sálmaritarinn hvatti Ísraelsmenn til að kynnast hinni jarðnesku guðræðismiðstöð síns tíma. — Sálm. 48:13, 14.

6 Betelþjónusta er blessunarrík: Hvernig líta þeir sem starfa á Betel á þjónustu sína? Athugum hvað bæði ungir og gamlir Betelítar segja um lífið á Betel. Systir, sem hefur starfað á Betel í þrjú ár, segir: „Þjónustan á Betel hefur styrkt samband mitt við Jehóva. Því lengur sem ég þjóna hér og því betur sem ég átta mig á hvernig Betel starfar, þeim mun meira kennir það mér um persónuleika Jehóva. Betelþjónustan hefur opnað augu mín fyrir því að Jehóva notar fólk — alls konar fólk. Og maður þarf ekki að vera fullkomin til að þóknast honum.“

7 Ungur bróðir segir: „Ég man að ég hugsaði með sjálfum mér: ‚Mikið verður það indælt að komast inn í nýja heiminn og geta sagt trúmönnum fortíðar frá árunum sem ég starfaði á Betel en ekki úti í heiminum við að græða peninga.‘“

8 Annar ungur bróðir nefnir áhrif kennslunnar sem hann hefur fengið: „Ég hef kynnst sjálfum mér og áttað mig á í hverju ég þarf að bæta mig. Það hefur verið mikil blessun fyrir mig. Mér finnst ég geta þjónað Jehóva betur núna. Ég er svolítið þolinmóðari en ég var, sýni heldur meiri sjálfstjórn og er ögn kærleiksríkari.“

9 Systir lýsir þeirri blessun sem hún hefur hlotið fram til þessa: „Hin andlega dagskrá á Betel hefur kennt mér meira um Jehóva og ég hef lært að líkja betur eftir honum í hugsun, afstöðu og verki. Og þar sem þjálfunin er samfelld er blessunin það líka.“

10 Bróðir, sem á að baki 59 ára þjónustu í fullu starfi, þar af 43 á Betel, segir: „Sumir halda að Betel sé eins og klaustur en svo er ekki. Við áorkum miklu af því að lífið er í föstum skorðum. . . . Það hefur aldrei liðið sá dagur að ég hafi ekki haft ánægju af vinnunni. Af hverju? Af því að þegar við gefum okkur Jehóva af allri sálu, þá njótum við innri gleði sem fylgir því að vita að ‚við höfum gert það sem við vorum skyldir að gera.‘“ — Lúk. 17:10.

11 Annar bróðir, sem hefur þjónað á Betel í 62 ár, segir: „Ég er sannfærður um að Betel er besti staðurinn á jörð áður en paradís gengur í garð. Ég hef aldrei séð eftir því eitt augnablik að hafa lagt þjónustuna við Jehóva fyrir mig sem ævistarf. Það hefur verið afskaplega ánægjulegt að verða vitni að hinum mikla vexti, sem jarðneskt skipulag Jehóva hefur tekið, og eiga þátt í honum. Ég er staðráðinn í því að láta Betel vera heimili mitt áfram, með hjálp Jehóva, og leggja mig heilshugar fram við að efla hag Guðsríkis.“

12 Þetta Betelfólk hefur aðeins nefnt sum af þeim gæðum sem hægt er að njóta ef maður býður sig fram til Betelþjónustu. En eins og með öll önnur þjónustusérréttindi þarf maður að byrja á því að uppfylla hæfniskröfurnar. Hvaða kröfur eru gerðar til væntanlegra starfsmanna á Betel?

13 Kröfur til Betelstarfsmanna: Helstu kröfurnar til þeirra sem sækja um Betelstarf koma fram í rammanum hér á síðunni. Að auki má nefna að þeir þurfa að vera fúsir til að leggja sig alla fram og þeir mega ekki ‚elska munaðarlífið.‘ (2. Tím. 3:4; 1. Kor. 13:11) Allir í Betelfjölskyldunni þurfa að vera andlega sinnaðir. Þeir þurfa að hafa tamið sér góðar einkanámsvenjur og hafa þjálfað skilningarvitin „til að greina gott frá illu.“ (Hebr. 5:14) Þeir þurfa að hafa sýnt kristinn þroska á öllum sviðum lífsins, þar á meðal í klæðaburði, hársnyrtingu og vali á tónlist og skemmtiefni.

14 Ekki er boðið upp á Betelþjónustu til skemmri tíma en eins árs, og fyrsta árið fer að mestu leyti í kennslu og starfsþjálfun. Á fyrsta árinu ætti það að koma vel í ljós hvort nýr liðsmaður nær tökum á þýðingum. En yfirleitt tekur það töluvert meira en eitt ár að ná góðum tökum á þýðingalistinni. Það er von okkar að nýir liðsmenn geti gert Betel að heimili sínu. Það er kærleikur til Jehóva sem knýr Betelfjölskylduna til að láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir sínum eigin, og Jehóva hefur velþóknun á því. — Matt. 16:24.

15 Núverandi þarfir: Í lokaræðunni á landsmótinu „Gerendur orðsins“ á síðasta ári var sagt: „Til að geta aukið útgáfustarfsemina hér á landi þurfum við að þjálfa fleiri þýðendur. Í tímans rás hafa margir lagt hönd á plóginn í sambandi við þýðingar; flestir hafa gert það um leið og þeir hafa þurft að sinna fjölskylduábyrgð og veraldlegri vinnu. Gott starf þeirra er mikils metið og við þurfum áreiðanlega á slíkum starfskröftum að halda í framtíðinni. En ákjósanlegast er að sjálfsögðu að fá fleiri Betelíta sem geta verið þýðendur í fullu starfi. Félagið er ávallt að leita að bræðrum og systrum sem hafa hæfileika og eru í aðstöðu til að gerast þýðendur í fullu starfi.“ Það er ekki skilyrði að nýir liðsmenn hafi verið reglulegir brautryðjendur en það er óneitanlega kostur, því að þeir þjóna þegar í fullu starfi. Jafnt bræður sem systur á aldrinum 19 til 35 ára koma til greina, og gildir það jafnt um einhleypinga sem hjón. Og fólk, sem býr yfir tilskilinni kunnáttu í þýðingum, er hvatt til að sækja um Betelstarf þótt það sé komið eitthvað yfir 35 ára aldur. En við hvetjum bræður og systur ekki til þess að afla sér sérmenntunar eða starfsþjálfunar í þeim tilgangi að auka líkurnar á því að fá starf á Betel. Þeir sem hafa fengið sérstaka menntun, kannski áður en þeir kynntust sannleikanum, eða hafa fengið starfsþjálfun í þýðingum geta sent ferilskrá með Betelumsókninni..

16 Börn og unglingar — búið ykkur undir Betelþjónustu: Undirbúningur fyrir Betelþjónustu hefst löngu áður en lágmarksaldrinum 19 ára er náð. Hvernig geta börn og unglingar búið sig undir Betelþjónustu? Jesús sagði: „Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn?“ (Lúk. 14:28) Sá sem ætlar að reisa hús þarf að undirbúa verkið og skipuleggja það vel. Börn og unglingar þurfa líka að huga vel að því hvernig þau „byggja“ fyrir framtíðina í þjónustu Jehóva. Þau þurfa að leggja traustan grundvöll snemma á ævinni til að ná góðum andlegum markmiðum. Ertu unglingur? Hversu góðan grundvöll leggurðu þá? Ef þig langar til að þjóna á Betel ættirðu að hugleiða eftirfarandi vandlega.

17 ‚Höndlaðu‘ þessi þjónustusérréttindi: Jesús hvatti lærisveinana til að ‚höndla‘ það að vera einhleypir, eins og fram kemur í Matteusi 19:12. Af hverju? Ekki af persónulegum ástæðum heldur „vegna himnaríkis.“ Páll hvatti til hins sama í þeim tilgangi að ‚þjóna Drottni stöðugt án truflunar.‘ (1. Kor 7:32-35) Sumir fá því miður ekki notið þess að þjóna einhleypir á Betel af því að þeir stofna ungir til hjónabands. Við viljum hvetja unga bræður og systur til að nota krafta sína í fullri þjónustu meðan þau eru laus við fjölskylduábyrgð. Ef þau ákveða síðar að giftast eru þau mun betur í stakk búin til þess eftir að hafa aflað sér reynslu í lífinu og í hinni kristnu þjónustu. Sumir hafa gifst eftir nokkurra ára þjónustu á Betel og hjónin hafa svo getað þjónað þar áfram. Ef þau hljóta önnur sérréttindi síðar, þá sýta þau ekki þann tíma sem þau hafa þjónað á Betel.

18 Látið ekki eltingaleik við efnislega hluti glepja ykkur sýn: Allt ungt fólk ætti að spyrja sig: ‚Hef ég það markmið að þjóna Jehóva í fullu starfi eftir að ég lýk skóla eða ætla ég að leita mér að fullri vinnu?‘ Hið fyrrnefnda kostar vissulega fórnir. En kostar ekki hið síðarnefnda fórnir líka? Hvor stefnan er heillavænlegri til langs tíma litið? Jesús svarar því í Matteusi 6:19-21: „Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela. Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela. Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“ Látum hjartað aldrei leiða okkur út í það að taka efnislega hluti eða starfsferil í heiminum fram yfir heilshugar þjónustu við Jehóva. Við þurfum öll að átta okkur á því að eini fjársjóðurinn, sem er þess virði að sækjast eftir, er gott samband við Jehóva sem gleður hjarta hans. (Orðskv. 27:11) Með því að láta Jehóva sitja í fyrirrúmi í lífi okkar meðan við erum ung sýnum við hvaða gildi við metum mest og hve mikilvægt Guðsríki er fyrir okkur. Munum að „blessun [Jehóva], hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana.“ (Orðskv. 10:22) Unga fólkið hefur kjörið tækifæri til að sýna hvað er því kærast með því að endurgjalda Jehóva að einhverju leyti allt sem hann hefur gefið því. Betelþjónusta er mjög góð leið fyrir þá sem fullnægja skilyrðunum.

19 Þeir sem þjóna á Betel verða að vera siðferðilega hreinir: Sálmaritarinn spurði hvernig ungur maður gæti haldið vegi sínum hreinum og svaraði svo: „Með því að gefa gaum að orði [Jehóva].“ (Sálm. 119:9) Það felur í sér að forðast hvaðeina sem tilheyrir spilltu heimskerfi Satans. Netklám, óviðeigandi hegðun gagnvart hinu kyninu, auvirðandi tónlist, spillandi skemmtiefni og notkun áfengis undir lögaldri eru aðeins nokkur dæmi um þær snörur sem Satan leggur fyrir unga fólkið til að hindra það í að ná andlegum markmiðum sínum. Það þarf einbeitni til að standast honum snúning. Ef þú ert að flækja þig í einhverju af þessu ættirðu að tala við öldungana í söfnuðinum og greiða úr þessu áður en þú sækir um starf á Betel. Hrein samviska er nauðsynleg til að þjóna Jehóva af heilum huga. — 1. Tím. 1:5.

20 Lærðu að umgangast aðra í friði: Það er mikilvægt fyrir þann sem þjónar á Betel að læra að umgangast aðra í friði. Á Betel starfar fólk af ýmsum uppruna og það er fegurð í fjölbreytninni, en fjölbreytnin getur líka reynt á þolrifin í okkur. Ef þú ert að hugsa um Betelstarf ættirðu að spyrja þig: ‚Er ég fljót(ur) að móðgast við þá sem eru ekki sammála mér? Eiga aðrir auðvelt með að umgangast mig?‘ Ef þú þarft að bæta þig á þessu sviði skaltu byrja á því strax. Það auðveldar þér að aðlagast lífinu á Betel og starfa með öðrum.

21 Leggðu þig fram um að vera andleg manneskja með því að styrkja sambandið við Jehóva. Temdu þér góðar einkanámsvenjur, þar á meðal daglegan lestur í Biblíunni. Vertu dugleg(ur) að kynna fagnaðarerindið fyrir öðrum. Ef þú temur þér þetta tekurðu augljósum, andlegum framförum. (1. Tím. 4:15) Þeir sem búa sig núna undir ævistarf í þjónustu Jehóva eiga margt gott í vændum!

22 Foreldrar, kennið börnunum vel: Hvernig geta foreldrar hvatt börnin sín til að setja sér það markmið að þjóna Jehóva í fullu starfi? „Hver sem er fullnuma, verður eins og meistari hans,“ sagði Jesús. (Lúk. 6:40) Vel þjálfaður nemandi getur ekki annað en sýnt sömu góðu eiginleikana og kennari hans. Þessi meginregla er umhugsunarverð fyrir kristna foreldra sem leggja hart að sér við að æfa börnin í guðhræðslu og guðrækni. (1. Tím. 4:7) Börnin hafa sterka tilhneigingu til að sýna sömu afstöðu til andlegra mála og foreldrarnir, svo að foreldrar ættu að spyrja sig: ‚Kunnum við að meta það starf sem unnið er á Betel í þágu tilbeiðslunnar á Jehóva? Sjáum við hvernig Jehóva hefur blessað Betelfyrirkomulagið? Trúum við að þjónusta Jehóva sé besta ævistarfið sem börnin geta valið sér?‘ Ef við höfum sjálf rétta afstöðu til Betelþjónustu og þeirrar starfsemi, sem fer fram á Betel, þá stuðlar það að sömu afstöðu hjá börnunum.

23 Elkana og Hanna mátu sanna tilbeiðslu mjög mikils, og þau eru athyglisverð fyrirmynd fyrir kristna foreldra. Sú kvöð var í Forn-Ísrael að koma þrisvar á ári til tjaldbúðarinnar til að „birtast frammi fyrir herra [Jehóva],“ en hún var aðeins lögð á karlmenn. En Elkana ferðaðist um 30 kílómetra leið, trúlega fótgangandi, með allri fjölskyldunni „á ári hverju“ til að færa fórn við þessa miðstöð tilbeiðslunnar á Jehóva. (2. Mós. 23:17; 1. Sam. 1:3, 4, 9, 19; 2:19) Ljóst er að þessi fjölskyldufaðir vildi að öll fjölskyldan sýndi sama áhuga og hann á því sem andlegt var.

24 Hanna var ekki síður áhugasöm um sanna tilbeiðslu en eiginmaður hennar. Henni fannst sér skylt að leggja sitt af mörkum til stuðnings sannri tilbeiðslu í tjaldbúðinni. Hún hét því að ef Jehóva gæfi henni son myndi hún gefa hann til þjónustunnar við tjaldbúðina. (1. Sam. 1:11) Samkvæmt Móselögunum gat eiginmaður ógilt óviðeigandi heit eiginkonu sinnar. (4. Mós. 30:6-8) En greinilegt er að Elkana féllst á heit konu sinnar og studdi það. Hann leit á það sem þátt í sannri tilbeiðslu. — 1. Sam. 1:22, 23.

25 Hvaða áhrif hafði jákvæð afstaða foreldranna á Samúel? Sem ungur drengur annaðist hann fúslega og trúlega þau verk, sem honum voru falin, og fékk þjálfun fyrir önnur dýrmæt sérréttindi í þjónustu Guðs. Elkana og Hanna hættu ekki að sýna áhuga á þjónustu Samúels við tjaldbúðina eftir að hann hóf hana, heldur heimsóttu hann reglulega til að hvetja hann og styðja. — 1. Sam. 2:18, 19.

26 Elkana og Hanna eru kristnum foreldrum góð fyrirmynd. Þegar börnin heyra okkur tala jákvætt um þau sérréttindi að þjóna á Betel og sjá fórnfýsi okkar í þjónustu Guðsríkis, þá þroskar það einnig þjónustulund með þeim. Mörgum foreldrum tekst með ágætum að vekja þessa heilnæmu löngum með börnunum. Sjö ára stúlka skrifaði: „Þegar ég verð stór langar mig til að fara á Betel, og mig langar til að gera margt þar. (1) Vélrita Varðturninn og Vaknið!, (2) vinna á listadeildinni eða (3) brjóta saman þvott. Bara það sem ég fæ að gera. Mér er alveg sama.“ Er ekki ánægjulegt að sjá slíkan áhuga og fúsleika festa rætur í hjörtum barnanna?

27 Börn og unglingar: Munið að „heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóh. 2:17) Haldið áfram að keppa eftir andlegum markmiðum, þeirra á meðal þeim sérréttindum að þjóna á Betel. Foreldrar: Líkið eftir fordæmi trúfastra fortíðarþjóna Guðs sem hvöttu börnin til að temja sér guðrækni. (2. Pét. 3:11) Og megum við öll leggja okkar af mörkum til að styðja unga bræður og systur í þjónustu þeirra við hinn mikla skapara að því marki sem við höfum tök á, því að hún hefur „fyrirheit bæði fyrir þetta líf og hið komanda.“ — 1. Tím. 4:8; Préd. 12:1.

[Rammi á blaðsíðu 4]

Helstu skilyrðin fyrir starfi á Betel

● Skírður í að minnsta kosti eitt ár.

● Andlegur maður sem elskar Jehóva og skipulag hans.

● Heilbrigður á líkama og sál og sterkur í trúnni.

● Góð tök á ensku og íslensku máli.

● 19-35 ára.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila