Náðu til hjarta nemandans
1 Áður en Jesús fór til himna sagði hann lærisveinunum að kenna öðrum að „halda“ allt sem hann hafði boðið. (Matt. 28:19, 20) Til þess að geta haldið boðorð Krists verða þau að ná til hjartans. (Sálm. 119:112) En hvernig geturðu náð til hjarta biblíunemandans?
2 Biddu um leiðsögn Jehóva: Það er Guð sem gerir menn að lærisveinum. Það er blessun hans sem skiptir mestu máli en ekki hæfni okkar. (Post. 16:14; 1. Kor. 3:7) Þess vegna er nauðsynlegt að biðja Jehóva um hjálp þegar við erum að kenna öðrum sannleikann. — Jes. 50:4.
3 Áttaðu þig á því hverju nemandinn trúir: Ef við vitum hverju fólk trúir og af hverju það trúir því gerum við okkur betur grein fyrir því hvað við þurfum að segja til að ná til hjartans. Af hverju höfðar ákveðin kenning til nemandans og hvað sannfærði hann um hana? Slík vitneskja auðveldar okkur að velja réttu orðin. — Post. 17:22, 23.
4 Notaðu Biblíuna til að rökstyðja sannleikann: Nemandinn þarf að átta sig á því að sannleikurinn er rökréttur. (Post. 17:24-31) Við þurfum að færa góð rök fyrir voninni sem við höfum. (1. Pét. 3:15) En þegar við gerum það verðum við að vera vingjarnleg og þolinmóð.
5 Styrktu kennsluna með líkingum: Líkingar gera efnið ekki aðeins auðskiljanlegra heldur snerta líka tifinningarnar. Þær hafa bæði áhrif á hugann og hjartað. Jesús notaði oft líkingar. (Mark. 4:33, 34) En til að líkingarnar beri árangur verða þær að passa við efnið og höfða til nemandans.
6 Sýndu fram á gagnið af því að taka við sannleikanum: Fólk vill vita hvaða gagn það hefur af því sem það er að læra. Bentu nemandanum á viskuna í orðum Páls í 2. Tímóteusarbréfi 3:14-17.
7 Misstu ekki kjarkinn þótt sumir taki ekki við því sem þú kennir þeim. Það eru ekki öll hjörtu móttækileg. (Matt. 13:15) En sumir taka trú. (Post. 17:32-34) Megi viðleitni þín til að láta fagnaðarerindið ná til hjartna fólks hjálpa fleirum að taka við og „halda“ það sem Jesús bauð.