Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • km 8.01 bls. 3-4
  • Mannasiðir einkenna guðrækna menn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mannasiðir einkenna guðrækna menn
  • Ríkisþjónusta okkar – 2001
  • Svipað efni
  • „Hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Ræktaðu góða, kristna mannasiði í ruddalegum heimi
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
  • Þjónar Guðs eiga að sýna góða mannasiði
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
  • Skipta mannasiðir máli?
    Ungt fólk spyr
Sjá meira
Ríkisþjónusta okkar – 2001
km 8.01 bls. 3-4

Mannasiðir einkenna guðrækna menn

1 Mannasiðir eru sjaldgæfir nú á dögum. Öllum liggur svo mikið á að þeir muna sjaldnast eftir að sýna almenna kurteisi eða nota kurteisisorð. Biblían sagði fyrir að á hinum síðustu dögum færi hegðun manna versnandi. Menn yrðu ‚sérgóðir, raupsamir, hrokafullir, vanþakklátir, kærleikslausir, taumlausir, ekki elskandi það sem gott er og framhleypnir.‘ (2. Tím. 3:1-4) Slíkir eiginleikar stuðla að tillitsleysi. Þjónar Guðs verða að vera á varðbergi til að smitast ekki af virðingarleysi heimsins.

2 Hvað eru mannasiðir? Það má segja að mannasiðir feli í sér að vera meðvituð um tilfinningar annarra og geta búið í sátt við þá. Tillitssemi, kurteisi, góðvild, hæverska og hugulsemi eru allt góðir mannasiðir og eiga sér allir rætur í kærleikanum til Guðs og náungans. (Lúk. 10:27) Þeir kosta ekki neitt en eru mikils virði ef við viljum bæta samband okkar við aðra.

3 Jesús Kristur gaf fullkomið fordæmi. Hann fylgdi alltaf gullnu reglunni: „Svo sem þér viljið, að aðrir menn gjöri við yður, svo skuluð þér og þeim gjöra.“ (Lúk. 6:31) Dáumst við ekki af hugulseminni og kærleikanum sem Jesús sýndi í samskiptum við lærisveinana? (Matt. 11:28-30) Hann lærði ekki mannasiði í siðareglubókum heldur spruttu þeir af einlægu og örlátu hjarta. Við ættum að reyna að líkja eftir góðu fordæmi hans.

4 Hvenær þurfa kristnir menn að sýna mannasiði? Er það bara við sértök tækifæri þegar við viljum sýna okkar bestu hliðar? Eða þurfum við bara á þeim að halda þegar við erum að reyna að hafa áhrif á aðra? Nei, við ættum alltaf að sýna mannasiði. En hvernig snertir þetta samskipti okkar við aðra í söfnuðinum?

5 Í ríkissalnum: Ríkissalurinn er tilbeiðslustaður okkar. Við erum þar í boði Guðs. Í þeim skilningi erum við gestir. (Sálm. 15:1) Erum við fyrirmyndagestir þegar við komum í ríkissalinn? Gefum við nægan gaum að klæðaburði okkar og snyrtingu? Við viljum auðvitað hvorki vera hversdagsleg né öfgafull í klæðaburði. Hvort sem fólk Jehóva er að sækja mót eða vikulegar safnaðarsamkomur er það þekkt fyrir snyrtilegt útlit sem sómir þeim er Guð vilja dýrka. (1. Tím. 2:9, 10) Þannig tökum við bæði tillit til himneska gestgjafans og annarra gesta.

6 Önnur leið til að sýna mannasiði á samkomum er að mæta tímanlega. Það er að vísu ekki alltaf auðvelt. Sumir eiga heima langt frá ríkissalnum eða eiga stórar fjölskyldur sem þarf að hafa til fyrir samkomurnar. En í sumum söfnuðum hefur þess hins vegar orðið vart að allt að fjórðungur boðberanna mætir að staðaldri eftir upphafssönginn og bænina. Þetta er alvarlegt mál. Það er gott að hafa það í huga að mannasiðir fela í sér að vera meðvituð um tilfinningar annarra. Rausnarlegur gestgjafi okkar, Jehóva, heldur þessar andlegu veislur okkur til blessunar. Með því að vera stundvís sýnum við að við erum þakklát og látum okkur annt um tilfinningar hans. Að mæta seint á samkomurnar sýnir þar að auki tillitsleysi því að það truflar þá sem þegar eru mættir.

7 Tökum við eftir þeim sem eru nýir þegar við komum saman? Við sýnum kurteisi með því að bjóða þá velkomna. (Matt. 5:47; Rómv. 15:7) Vingjarnleg kveðja, hlýlegt handaband og blítt bros eru smávægilegir hlutir en þeir eiga samt þátt í því að sýna að við erum sannkristin. (Jóh. 13:35) „Á einum degi hitti ég fleiri bláókunnuga menn, sem sýndu ósvikinn kærleika, en ég hef hitt alla ævi í kirkjunni sem ég ólst upp í,“ sagði maður eftir sína fyrstu heimsókn í ríkissalinn. „Mér varð ljóst að ég hafði fundið sannleikann.“ Þetta varð til þess að hann breytti lífstefnu sinni og lét skírast sjö mánuðum síðar. Já, kurteisi getur haft víðtæk áhrif.

8 Ef við erum kurteis við ókunnuga, ættum við þá ekki enn frekar að vera kurteis við ‚trúbræður okkar?‘ (Gal. 6:10) Meginreglan: ‚Þú skalt heiðra gamalmennið‘ er í fullu gildi. (3. Mós. 19:32) Við ættum aldrei að gleyma hinum öldruðu þegar við komum saman.

9 Fylgjumst vandlega með: Þjónar Guðs tjá sig á safnaðarsamkomum til að veita öðrum hlutdeild í andlegri náðargjöf og styrkja þá. (Rómv. 1:11) Það væri mikil ókurteisi af okkar hálfu að vera hálfsofandi, smjatta á tyggigúmmíi, hvíslast sífellt á við sessunaut okkar, fara óþarfa ferðir á salernið, lesa efni sem ekki tengist dagskránni eða sinna öðrum málum á meðan samkoman stendur yfir. Öldungar ættu að setja gott fordæmi í þessum málum. Það eru kristnir mannasiðir að sýna ræðumanninum og biblíulegum boðskap hans þá virðingu að hlusta með óskiptri athygli.

10 Við ættum líka að sýna bæði ræðumanni og áheyrendunum þá tillitssemi að láta ekki boðtæki og farsíma trufla samkomurnar.

11 Mannasiðir og börnin: Foreldrar ættu alltaf að hafa auga með hegðun barna sinna. Ef barn byrjar að gráta eða verður órólegt á samkomunni og það truflar aðra er gott að fara með það út úr áheyrendasalnum eins fljótt og hægt er til að róa það niður. Þetta getur stundum verið erfitt en mundu að það sýnir að þú tekur tillit til annarra. Foreldrar með lítil börn, sem líkur eru á að verði óróleg, kjósa oft að sitja aftarlega í salnum svo að þeir trufli sem fæsta ef þeir verða að fara fram á meðan samkoman stendur yfir. Hinir samkomugestirnir geta sýnt fjölskyldunum tillitssemi með því að skilja öftustu sætaraðirnar eftir auðar handa þeim.

12 Foreldrar verða líka að fylgjast með hegðun barna sinna fyrir og eftir samkomur. Börn ættu ekki að hlaupa um inni í ríkissalnum því að það gæti valdið slysum. Það getur líka verið hættulegt að hlaupa um fyrir utan ríkissalinn, sérstaklega á kvöldin þegar dimmt er. Hávaðasamar samræður fyrir utan ríkissalinn geta truflað nágrannana og kastað rýrð á tilbeiðsluna. Foreldrar eiga hrós skilið fyrir að leggja sig samviskusamlega fram um að fylgjast með börnum sínum bæði í ríkissalnum og utan hans, vegna þess að það stuðlar að ánægjulegri samveru. — Sálm. 133:1.

13 Í bóknáminu: Við kunnum að meta gestrisnina sem bræður sýna þegar þeir bjóða okkur að halda safnaðarsamkomur á heimilum sínum. Við þurfum að umgangast eignir þeirra af tilhlýðilegri virðingu. Við ættum að passa að hvorki við né börnin berum óhreinindi inn á heimilið. Foreldrar ættu að hafa umsjón með börnunum og gæta þess að þau haldi sér á þeim hluta heimilisins sem ætlaður er fyrir bóknámið. Þó að hópurinn sé minni en í ríkissalnum og andrúmsloftið óformlegra að einhverju leyti ættum við ekki að vera of frjálsleg. Foreldrar ungra barna ættu að fara með þeim þegar þau fara á salernið. Og þar sem bóknámið er safnaðarsamkoma ættum við að klæða okkur eins og við gerum þegar við förum í ríkissalinn.

14 Mannasiðir eru mikilvægir: Þegar við sýnum kristna mannasiði hefur það ekki bara góð áhrif á þjónustu okkar heldur stuðlar líka að góðum samskiptum við aðra. (2. Kor. 6:3, 4, 6) Við erum tilbiðjendur hins sæla Guðs og því ætti að vera auðvelt fyrir okkur að brosa, vera viðkunnanleg og gleðja aðra. Mannasiðir, kurteisi og háttprýði þjóna Guðs fegra lífið.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila