Kemur vinnan í veg fyrir að þú prédikir?
1 Flestir eiga mjög annríkt ekki síst vottar Jehóva. Þeir nema orð Guðs, sækja samkomur og taka þátt í boðunarstarfinu. Vinna, heimilisstörf, skóli, heimaverkefni og margar aðrar skyldur taka þar að auki allar sinn tíma. Þetta er sérstaklega mikil áskorun fyrir þá sem veita fjölskyldu forstöðu.
2 Á mörgum stöðum er efnahagsástandið slíkt að höfuð fjölskyldunnar getur þurft að vinna langan og erfiðan vinnudag til að sjá fyrir henni. Það getur verið erfitt að sinna prédikunarstarfinu þegar krefjandi atvinna tekur mestallan tíma okkar og orku. Sumum finnst þeir aðeins geta tekið takmarkaðan þátt í boðunarstarfinu þar sem þeim ber að sjá fyrir fjölskyldunni. (1. Tím. 5:8) Að vísu getur verið mjög erfitt nú á dögum að afla helstu lífsnauðsynja. En vinnan þarf ekki að koma í veg fyrir að við prédikum fagnaðarerindið. (Mark. 13:10) Það væri því viturlegt að skoða núverandi aðstæður okkar vel.
3 Þar sem heimsástandið er síbreytilegt gæti höfuð fjölskyldunnar talið sig þurfa að eyða óhóflegum tíma í vinnunni til að eiga eitthvað upp á að hlaupa ef óvænt kreppir að í fjármálum. (1. Kor. 7:31) Aukin vinna getur kannski veitt okkur fleiri efnislega hluti eða aukin tækifæri til afþreyingar og skemmtunar en gerir það fjölskylduna hamingjusamari ef það er gert á kostnað þess að mæta reglulega á samkomur og nota tíma til andlegra mála? Við ættum auðvitað að vilja forðast hvaðeina sem gæti stefnt andlegu hugarfari okkar í voða. Það er skynsamlegt að fylgja ráðleggingum Jesú og ‚safna okkur fjársjóðum á himni‘ og vera ‚rík hjá Guði.‘ — Matt. 6:19-21; Lúk. 12:15-21.
4 Leitið fyrst og fremst Guðsríkis: Jesús kenndi fylgjendum sínum að láta andlegu málin ganga fyrir öllu öðru. Hann hvatti þá: „Segið því ekki áhyggjufullir: ‚Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast?‘“ Af hverju sagði hann þetta? Hann útskýrði það og sagði: „Yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa.“ Ef við erum sannfærð um það kemur ekkert í veg fyrir að við fylgjum því sem Jesús sagði næst: „En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta [efnislegar nauðsynjar] veitast yður að auki.“ Guð sér til þess! (Matt. 6:31-33) Tíminn er naumur svo að við megum alls ekki láta óhóflegar áhyggjur af efnislegum hlutum trufla okkur eða láta stjórnast af löngun til að koma okkur vel fyrir í heimi sem bráðum líður undir lok. — 1. Pét. 5:7; 1. Jóh. 2:15-17.
5 Við stundum fyrst og fremst vinnu til að sjá fyrir efnislegum þörfum okkar. En hvað þurfum við mikið? Páll postuli skrifaði: „Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja.“ Erum við að reyna að afla okkur meira en það? Þá erum við kannski að uppskera afleiðingarnar sem Páll varaði okkur við: „Þeir, sem ríkir vilja verða, falla í freistni og snöru og alls kyns óviturlegar og skaðlegar fýsnir, er sökkva mönnunum niður í tortímingu og glötun.“ (1. Tím. 6:8, 9; Matt. 6:24; Lúk. 14:33) Hvernig getum við séð hvort óhófleg löngun í efnislega hluti sé þrándur í götu okkar?
6 Ef vinna og veraldleg hugðarefni gera það að verkum að við tökum aðeins lágmarksþátt í boðunarstarfinu eða sjáum ekki ástæðu til að fórna einhverju í þágu fagnaðarerindisins verðum við að endurskoða áherslur okkar í lífinu. (Hebr. 13:15, 16) Einfaldari lífsstíll getur hjálpað okkur að ryðja úr veginum því sem kemur í veg fyrir að við tökum þátt í boðunarstarfinu. Hagur Guðsríkis ætti alltaf að vera í fyrsta sæti þegar við ákveðum hvernig við ætlum að nota tíma okkar og krafta.
7 Erfiði sem ekki er árangurslaust: Orð Páls hvetja okkur til að vera ‚síauðug í verki Drottins því við vitum að erfiði okkar er ekki árangurslaust í Drottni.‘ (1. Kor. 15:58) Mikilvægasta ‚verk Drottins‘ er að prédika Guðsríki og gera menn að lærisveinum. (Matt. 24:14; 28:19, 20) Til að eiga sem mestan þátt í boðunarstarfinu ættum við að taka frá tíma til þess í hverri viku og reyna eftir fremsta megni að nota þann tíma ekki til neins annars. (Ef. 5:15-17) Þá kemur hvorki vinnan né eitthvað annað í veg fyrir að við förum í boðunarstarfið.
8 Þegar við bjóðum okkur fram til þess að miðla sannleika Biblíunnar til annarra njótum við hinnar meiri gleði sem hlýst af því að gefa. (Post. 20:35) Ef við keppum að því að prédika Guðsríki getum við horft örugg til framtíðarinnar því að ‚Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki okkar og kærleikanum, sem við auðsýndum nafni hans.‘ — Hebr. 6:10.