Ferðu eftir því sem þú lærðir á landsmótinu „Kennarar orðsins“?
1 Allir sem sóttu landsmótið í ár sáu að þjónar Jehóva eru staðráðnir í að vera kennarar orðsins eins og þeim er falið. (Matt. 28:19, 20) Hvaða leiðbeiningar varstu ákveðinn í að tileinka þér eða nota í boðunarstarfinu þegar þú komst heim af mótinu?
2 Ritningin er innblásin og nytsöm til fræðslu: Stef fyrsta dagsins beindi athyglinni að 2. Tímóteusarbréfi 3:16. Aðalræðan sýndi fram á að ef við ætlum að vera „albúnir kennarar orðsins“ verðum við að meta orð Guðs mikils, nota það trúfastlega og virða það meira en skoðanir manna eða hefðir. Við þurfum daglega að biðja um hjálp heilags anda í þjónustunni og þroska með okkur kærleikann sem er mikilvægasti ávöxtur hans. Og við verðum að taka við þeirri þjálfun sem jarðneskt skipulag Jehóva veitir okkur á safnaðarsamkomum.
3 Í ræðusyrpu föstudagsins, „Lærum sjálf þegar við kennum öðrum,“ var bent á að við yrðum að vera til fyrirmyndar í að (1) fylgja siðferðislögum Guðs á öllum sviðum lífsins, (2) viðhalda góðum námsvenjum og (3) útrýma viðhorfum og hugsunarhætti sem djöfullinn gæti notfært sér. Þar á eftir lærðum við nokkrar raunhæfar leiðir til að vernda fjölskylduna fyrir klámplágu heimsins. Foreldrar voru hvattir til að fylgjast með Net- og sjónvarpsnotkun barnanna og setja gott fordæmi með því að horfa aldrei á kynferðisleg atriði í sjónvarpinu. Ertu farinn að tileinka þér eitthvað af ráðleggingunum sem fram komu á föstudeginum?
4 Lokaræða dagsins styrkti þann ásetning að láta okkur annt um ljós Jehóva, halda nánum tengslum við trúfastan hóp hinna smurðu og stuðla að friði meðal fólks Jehóva. Ert þú búinn að lesa nýju bókina Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 2?
5 Færir um að kenna öðrum: Stef laugardagsins var tekið úr 2. Tímóteusarbréfi 2:2. Í ræðusyrpu morgunsins voru gefnar ábendingar um það hvernig hægt væri að (1) leita að hinum verðugu, (2) halda áhuga þeirra vakandi og (3) kenna þeim að halda allt sem Kristur bauð. Punktaðirðu hjá þér tillögur? Ferðu eftir þeim leiðbeiningum að sýna húsráðandanum að minnsta kosti einn ritningarstað og leggja grunn að endurheimsókn?
6 Síðdegisdagskráin lagði áherslu á mikilvægi þess að líkja eftir kennaranum mikla, Jesú. Hvernig leggur þú þig fram um að líkjast honum? Hvernig finnst þér þú geta ‚haft meira gagn af fræðslu Guðs‘ eftir að hafa hlustað á aðra ræðusyrpu dagsins? Hvaða leiðbeiningar hefur þú tileinkað þér til að bæta einbeitinguna í einkanáminu og á safnaðarsamkomum?
7 Nýja kennslubókin Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum, sem er væntanleg, mun án efa hjálpa okkur að verða færari ræðumenn og kennarar orðsins. Aukinni athygli verður beint að ræðutækni trúfastra þjóna Guðs á biblíutímanum. Í hverjum námskafla eru litlir rammar sem sýna hvað við þurfum að gera, hvers vegna það er mikilvægt og hvernig við getum gert það. Í bókinni eru líka verklegar æfingar. Systurnar geta valið úr 29 sviðsetningum þegar þær flytja verkefni sín. Með tímanum verða svo gerðar breytingar á skipulagi skólans eins og tilkynnt var. Þú getur haft mikið gagn af skólanum í hverri viku ef þú nemur og undirbýrð þig reglulega.
8 Verið kennarar tímans vegna: Hebreabréfið 5:12 gaf tóninn fyrir sunnudaginn. Í ræðusyrpu morgunsins, „Spádómur Malakís býr okkur undir dag Jehóva,“ vorum við hvött til að gefa Jehóva okkar besta og hata alla sviksemi svo að við getum lifað af hin mikla og ógurlega dag Jehóva. Leikritið, „Virðum yfirvald Jehóva,“ sýndi á kraftmikinn hátt hvernig stolt, metnaðargirnd, öfundsýki og hollusta gagnvart óverðugum mönnum leiddi Kóra og vini hans út í uppreisn gegn Jehóva sjálfum. Fylgiræðan beindi athyglinni að nauðsyn þess að ‚hlýða þeim sem Guð hefur falið forystu‘ innan fjölskyldunnar og í söfnuðinum. Opinberi fyrirlesturinn, „Hverjir kenna öllum þjóðum sannleikann?“ sýndi fram á að þótt kristni heimurinn segist kenna sannleika Biblíunnar eru Vottar Jehóva þeir einu sem gera það í raun og veru.
9 Jehóva er greinilega að gera okkur að hæfari kennurum orðsins. Við skulum því fara eftir því sem við lærðum og ‚hafa gát á sjálfum okkur og fræðslunni, vera stöðug við það svo að við getum gert bæði sjálf okkur hólpin og áheyrendur okkar.‘ — 1. Tím. 4:16.