Sýndu kristna hollustu þegar ættingja er vikið úr söfnuðinum
1. Hvaða ástand getur reynt á hollustu kristins manns?
1 Fjölskylduböndin geta verið mjög sterk. Þetta reynir verulega á kristinn mann ef maka hans, barni, foreldri eða öðrum nákomnum ættingja er vikið úr söfnuðinum eða hann segir sig sjálfur úr söfnuðinum. (Matt. 10:37) Hvernig eiga drottinhollir kristnir menn að koma fram við slíkan ættingja? Breytir það einhverju ef ættinginn býr undir sama þaki og þú? Við skulum byrja á því að rifja upp það sem Biblían segir um þetta mál. Meginreglur hennar eiga jafnt við um þá sem vikið er úr söfnuðinum og þá sem segja sig úr honum sjálfir.
2. Hvernig eiga kristnir menn að koma fram við þá sem vikið er úr söfnuðinum, að sögn Biblíunnar?
2 Rétt framkoma gagnvart þeim sem vikið er úr söfnuðinum: Orð Guðs segir kristnum mönnum að umgangast ekki þann sem hefur verið vikið úr söfnuðinum: „Þér skuluð ekki umgangast nokkurn þann, er nefnir sig bróður, en er saurlífismaður eða ásælinn, skurðgoðadýrkari eða lastmáll, ofdrykkjumaður eða ræningi. Þér skuluð jafnvel ekki sitja að borði með slíkum manni. . . . ‚Útrýmið hinum vonda úr yðar hópi.‘“ (1. Kor. 5:11, 13) Orð Jesú í Matteusi 18:17 eiga einnig við hér: „Sé hann [hinn brottræki] þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.“ Áheyrendur Jesú vissu mætavel að Gyðingar á þeim tíma höfðu ekkert samneyti við heiðna menn og sniðgengu tollheimtumenn eins og væru þeir útskúfaðir. Jesús var þar með að segja fylgjendum sínum að umgangast ekki brottræka. — Sjá Varðturninn, 1. janúar 1982, bls. 20-21.
3, 4. Hvers konar félagsskapur er bannaður við þann sem hefur aðgreint sig eða verið vikið úr söfnuðinum?
3 Þetta merkir að drottinhollir kristnir menn eiga engin samskipti um andlegu málin við nokkurn þann sem vikið hefur verið úr söfnuðinum. En það er ekki allt og sumt. Orð Guðs segir að við eigum ‚jafnvel ekki að sitja að borði með slíkum manni.‘ (1. Kor. 5:11) Þess vegna forðumst við líka félagslegt samneyti við þá sem vikið er úr söfnuðinum. Það útilokar að við förum með þeim í útivistarferð, samkvæmi, boltaleik, verslunarferð og leikhús eða mötumst með þeim, annaðhvort heima eða á veitingastað.
4 En hvað þá um að tala við manneskju sem vikið hefur verið úr söfnuðinum? Þó að Biblían fjalli ekki um allar hugsanlegar aðstæður sem upp geta komið gefur 2. Jóhannesarbréf 10 ábendingu um sjónarmið Jehóva: „Ef einhver kemur til yðar og er ekki með þessa kenningu, þá takið hann ekki á heimili yðar og biðjið hann ekki vera velkominn.“ Um þetta sagði Varðturninn 1. janúar 1982, bls. 25: „Einföld kveðja, ‚Sæll,‘ sem við köstum á einhvern, getur verið fyrsta skrefið að samræðum og jafnvel vináttu. Munum við vilja stíga fyrsta skrefið að slíku sambandi við brottrækan einstakling?“
5. Hverju fyrirgerir manneskja sem vikið er úr söfnuðinum?
5 Það er eins og segir á bls. 30 í sama hefti Varðturnsins: „Staðreyndin er sú að þegar kristinn maður gefur sig syndinni á vald og vísa þarf honum úr söfnuðinum fyrirgerir hann mörgu: góðri stöðu sinni frammi fyrir Guði; . . . ánægjulegum félagsskap við bræðurna, svo og miklu af því samfélagi sem hann hefur haft við kristna ættingja sína.“
6. Er þess krafist að kristinn maður slíti öll tengsl við brottrækan ættingja sem býr á heimilinu? Skýrðu svarið.
6 Inni á sama heimili: Ber að skilja þetta svo að kristnir menn, sem búa undir sama þaki og brottrækur fjölskyldumeðlimur, eigi að forðast að tala við hann, borða með honum og umgangast hann í dagsins önn? Í Varðturninum 1. september 1991, segir í neðanmálsathugasemd á bls. 29: „Ef burtrekinn ættingi er á kristnu heimili er hann eftir sem áður þátttakandi í hinum daglegu athöfnum og verkefnum heimilisins.“ Aðrir í fjölskyldunni þurfa því að ákveða að hvaða marki hinn brottrekni taki þátt í matmálstímum eða öðru sem tilheyrir heimilislífinu. Þau vilja þó ekki gefa bræðrum, sem þau umgangast, þá hugmynd að allt sé óbreytt frá því sem var áður en honum var vikið úr söfnuðinum.
7. Hvernig breytist hið andlega samneyti á heimilinu þegar einhverjum í fjölskyldunni er vikið úr söfnuðinum?
7 Í Varðturninum 1. janúar 1982, bls. 27 segir um þá sem vikið er úr söfnuðinum eða segja sig úr honum: „Skorið er algjörlega á þau andlegu tengsl sem áður voru. Það gildir einnig um ættingja hans, þar á meðal þá sem eru honum nákomnastir. . . . Þetta mun orsaka breytingar á því andlega samneyti sem áður hefur verið innan veggja heimilisins. Ef til dæmis eiginmaðurinn er burtrækur mun konu hans og börnum ekki líða vel ef hann stjórnar biblíunámi fjölskyldunnar, eða stýrir biblíulestri og bænargerð hennar. Ef hann vill flytja bæn, svo sem á matmálstímum, hefur hann rétt til að gera það á sínu eigin heimili. En þau geta flutt sínar eigin bænir til Guðs í hljóði. (Orðskv. 28:9; Sálm. 119:145, 146) Hvað þá ef burtrækur einstaklingur á heimilinu vill vera viðstaddur þegar fjölskyldan les Biblíuna saman eða hefur nám í henni? Hinir geta leyft honum að vera viðstaddur og hlusta ef hann reynir ekki að kenna þeim eða koma á framfæri trúarhugmyndum sínum.“
8. Hvaða ábyrgð bera kristnir foreldrar á ófullveðja barni sem hefur verið vikið úr söfnuðinum en býr heima?
8 Kristnir foreldrar bera eftir sem áður ábyrgð á uppeldi ófullveðja barns, sem býr heima, þó að því sé vikið úr söfnuðinum. Varðturninn 1. júní 1989, bls. 32, segir: „Á sama hátt og þeir munu halda áfram að sjá barninu fyrir fæði, klæði og húsaskjóli þurfa þeir að fræða það og aga í samræmi við orð Guðs. (Orðskviðirnir 6:20-22; 29:17) Ástríkir foreldrar geta þannig haldið biblíunám með barninu, jafnvel þótt því hafi verið vikið úr söfnuðinum. Verið getur að það nái fyrr fótfestu á ný ef numið er með því einslega. Foreldrar geta einnig talið best að það haldi áfram að sækja fjölskyldunámið.“ — Sjá einnig Varðturninn 1. nóvember 2001, bls. 16-17.
9. Í hvaða mæli ætti kristinn maður að eiga samskipti við ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum en býr ekki á heimilinu?
9 Ættingjar sem búa ekki á heimilinu: „Aðstaðan er önnur ef ættingi, sem hefur verið gerður rækur eða hefur aðgreint sig, býr ekki í innsta hring fjölskyldunnar og á heimilinu,“ segir í Varðturninum 1. október 1988, bls. 30. „Þá kann að vera hægt að hafa svo til engin samskipti við hann. Jafnvel þótt einhver fjölskyldumál krefjist vissra samskipta ætti svo sannarlega að halda þeim í lágmarki“ í samræmi við fyrirmæli Guðs um að ‚umgangast ekki nokkurn þann‘ sem er sekur um synd en iðrast ekki. (1. Kor. 5:11) Trúfastir kristnir menn ættu að forðast óþörf samskipti við slíkan ættingja, og jafnvel að halda viðskiptalegum tengslum í algeru lágmarki. — Sjá einnig Varðturninn 1. janúar 1982, bls. 28-29.
10, 11. Hvað hugleiðir kristinn maður áður en hann leyfir ættingja, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum, að flytja inn á heimilið?
10 Varðturninn fjallar um aðra stöðu sem getur komið upp: „Hvað þá ef nánum ættingja, svo sem syni eða foreldri sem ekki býr heima, er vikið úr söfnuðinum og vill síðar flytja aftur heim? Fjölskyldan getur, með tilliti til aðstæðnanna, tekið ákvörðun um hvað gera skuli. Segjum til dæmis að burtrækt foreldri sé sjúkt eða geti ekki lengur staðið á eigin fótum fjárhagslega eða séð um sig líkamlega. Biblíulega og siðferðilega er kristnum börnum þeirra skylt að veita aðstoð. (1. Tím. 5:8) . . . Hvað gert er getur ráðist af raunverulegum þörfum foreldrisins, viðhorfum þess og umhyggju fjölskylduhöfuðsins fyrir andlegri velferð fjölskyldu sinnar.“ — Varðturninn 1. janúar 1982, bls. 28.
11 Í sömu grein segir eftirfarandi um börn: „Stundum hafa kristnir foreldrar tekið aftur inn á heimilið um tíma burtrekið barn sem átt hefur við líkamlega eða tilfinningalega vanheilsu að stríða. En foreldrarnir geta í sérhverju tilviki vegið og metið kringumstæðurnar. Hefur burtrækur sonur búið út af fyrir sig en getur það nú ekki lengur? Vill hann kannski flytja heim aðallega vegna þess að lífið yrði auðveldara þannig? Hvað um siðferði hans og viðhorf? Mun hann koma með ‚súrdeig‘ inn á heimilið? — Gal. 5:9.“
12. Hvernig er það fyrirkomulag til góðs að víkja syndurum úr söfnuðinum?
12 Hollusta við Jehóva er til blessunar: Það er til blessunar að styðja þá biblíulegu ráðstöfun að víkja iðrunarlausum syndurum úr söfnuðinum og umgangast þá ekki. Þannig er söfnuðinum haldið hreinum og við skerum okkur úr með því að halda okkur fast við hinn háleita siðferðismælikvarða Biblíunnar. (1. Pét. 1:14-16) Það verndar okkur gegn spillandi áhrifum. (Gal. 5:7-9) Það gefur syndaranum líka tækifæri til að hafa fullt gagn af öguninni sem hann fær, og það getur hjálpað honum að bera „ávöxt friðar og réttlætis.“ — Hebr. 12:11.
13. Hvað gerðu systkini nokkur og hvað hafði það í för með sér?
13 Systkini í söfnuðinum áttuðu sig á því, eftir að hafa hlýtt á ræðu á svæðismóti, að þau þyrftu að koma öðruvísi fram við móður sína en þau höfðu gert, en henni hafði verið vikið úr söfnuðinum sex árum áður og hún bjó annars staðar. Strax eftir mótið hringdi maðurinn í móður sína, fullvissaði hana um að þau systkinin elskuðu hana en útskýrði svo fyrir henni að eftirleiðis myndu þau ekki tala við hana nema mikilvæg fjölskyldumál útheimtu það. Móðirin fór að sækja samkomur stuttu síðar og var að lokum tekin inn í söfnuðinn aftur. Maðurinn hennar, sem var ekki í trúnni, fór líka að kynna sér Biblíuna og lét svo skírast.
14. Hvers vegna ættum við að styðja dyggilega það fyrirkomulag að syndurum sé vikið úr söfnuðinum?
14 Við sýnum Jehóva kærleika okkar og svörum þeim sem smána hann með því að styðja dyggilega hið biblíulega fyrirkomulag að syndurum sé vikið úr söfnuðinum. (Orðskv. 27:11) Við megum treysta að Jehóva blessar okkur fyrir það. Davíð konungur sagði um Jehóva: „Ég vík ekki frá lagaboðum hans. Gagnvart hollum ert þú hollur.“— 2. Sam. 22:23, 26, NW.