Lærum af myndbandinu Warning Examples for Our Day
Við getum öll styrkt þann ásetning okkar að vera ráðvönd með því að gefa gaum að lærdóminum í biblíuleikritinu Warning Examples for Our Day (Dæmi okkur til varnaðar). Áður en þú horfir á myndbandið af leikritinu skaltu lesa 25. kafla 4. Mósebókar og skylt efni í Insight on the Scriptures (Innsýnarbókinni), 2. bindi, blaðsíðu 419, greinar 3-5. Svaraðu svo eftirfarandi spurningum: Hverjir voru Móabítar og af hverju sagði Jehóva Móse að fara ekki í stríð gegn þeim? (5. Mós. 2:9) Hvernig lagði Bíleam á ráðin um að láta Móabíta tæla Ísraelsmenn svo að þjóðin tortímdist? Hvers vegna ættum við ekki að gleyma því að margir Ísraelsmenn brugðust á örlagastund, rétt áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið? — 1. Kor. 10:11, 12.
Á meðan þú horfir á myndbandið skaltu hugsa um eftirfarandi fjögur svið í lífinu sem við verðum að gefa nákvæman gaum að ef við ætlum að vera trúföst og hljóta velþóknun Guðs. (1) Viðhorf: Hvernig höfðu sumir Ísraelsmenn rangt viðhorf til Jehóva og fyrirkomulags hans? Hvaða viðhorf ættum við hins vegar að endurspegla? (2) Félagsskapur: Af hverju vildi Jehóva ekki að Ísraelsmenn vinguðust við Móabítana? (2. Mós. 34:12; Orðskv. 13:20) Af hverju verðum við að velja vini okkar viturlega? (3) Siðferði: Hvaða alvarlegu synd frömdu um 23.000 Ísraelsmenn vegna slæms félagsskapar? (1. Kor. 10:8) Hvað hefur tælt suma þjóna Guðs nú á dögum til að fremja siðleysi og hvernig getum við forðast að það hendi okkur? (4) Tilbeiðsla: Hvernig reyndi á hreinleika tilbeiðslunnar hjá Ísraelsmönnum? Hvernig gætum við leiðst út í óbeina skurðgoðadýrkun og hvernig getum við forðast það? — Kól. 3:5.
Hvernig hlaut Jamín blessun í leikritinu fyrir ráðvendni sína? Hvaða hlýlegu skilaboðum vill hið stjórnandi ráð koma á framfæri við alla sannkristna menn með þessu myndbandi? Af hverju er viturlegt fyrir fjölskyldur að horfa aftur og aftur á myndbandið?