Kunngerum boðskapinn um ríki Guðs
1 „Mér ber og að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ (Lúk. 4:43) Með þessum orðum tilgreindi Jesús að ríki Guðs væri kjarninn í boðunarstarfi sínu. Ríki Guðs er líka þungamiðjan í boðskap okkar eins og sagt var fyrir í Matteusi 24:14: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Hvaða sannindi um Guðsríki þarf fólk að heyra?
2 Ríki Guðs stjórnar nú frá himnum og leysir bráðlega allar mannlegar stjórnir af hólmi. Djöflinum hefur þegar verið útskúfað frá himnum og síðustu dagar þessa illa heimskerfis eru gengnir í garð. (Opinb. 12:10, 12) Þetta gamla og illa kerfi Satans verður að engu gert en ríki Guðs bifast ekki. Það stendur að eilífu. — Dan. 2:44; Hebr. 12:28.
3 Ríki Guðs fullnægir öllum heilnæmum löngunum hlýðinna manna. Það kemur til með að binda enda á þjáningar manna af völdum styrjalda, glæpa, kúgunar og fátæktar. (Sálm. 46:9, 10; 72:12-14) Næg matvæli verða fyrir alla. (Sálm. 72:16; Jes. 25:6) Sjúkdómar og fötlun munu heyra sögunni til. (Jes. 33:24; 35:5, 6) Um leið og mannkynið nær fullkomleika verður jörðinni umbreytt í paradís og fólk mun búa þar í sátt og samlyndi. — Jes. 11:6-9.
4 Við sýnum með lífsstefnu okkar að við viljum verða þegnar Guðsríkis. Boðskapurinn um ríki Guðs ætti að hafa áhrif á allt líf okkar, þar á meðal markmið okkar og forgangsmál. En þó okkur beri skylda til að sjá fjölskyldunni farborða megum við ekki láta áhyggjur af efnislegum hlutum kæfa áhugann á Guðsríki. (Matt. 13:22; 1. Tím. 5:8) Förum þess í stað eftir orðum Jesú: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta [efnislegar nauðsynjar] veitast yður að auki.“ — Matt. 6:33.
5 Það er áríðandi að fólk heyri ríkisboðskapinn og taki við honum meðan enn er tími til þess. Stuðlum að því að fólk geri það með því að „sannfæra menn um Guðs ríki.“ — Post. 19:8.