Starf sem Guð styður
1 Fáir þjónar Guðs hafa hlotið framúrskarandi menntun, eru auðugir eða hafa náð frama í þessu heimskerfi. Af þeim sökum líta sumir niður á boðunarstarf okkar. (Jes. 53:3) Biblíufræðslustarf okkar hefur hins vegar hughreyst milljónir manna um heim allan og veitt þeim von. Hvernig hefur venjulegt fólk getað náð svona góðum árangri? Það er eingöngu vegna þess að Guð hefur stutt það. (Matt. 28:19, 20; Post. 1:8) „Guð hefur útvalið það, sem heimurinn telur veikleika til að gjöra hinu volduga kinnroða,“ sagði Páll postuli. — 1. Kor. 1:26-29.
2 Postularnir og aðrir frumkristnir menn voru flestir „ólærðir leikmenn“. (Post. 4:13) Þeir héldu samt djarflega áfram að sinna því verkefni að prédika fagnaðarerindið og Jehóva blessaði viðleitni þeirra. Þrátt fyrir andstöðu og hindranir „breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans“. Ekkert gat stöðvað þetta starf þar sem Guð studdi það. (Post. 5:38, 39; 19:20) Það er eins nú á tímum. Ekki einu sinni eindregin andstaða valdamikilla stjórnenda hefur getað komið í veg fyrir að fagnaðarerindið hefur breiðst út og eflst. — Jes. 54:17.
3 Guð á allan heiðurinn: Höfum við ástæðu til að hreykja okkur af því að vera þjónar Guðs og hafa velþóknun hans? Nei, alls ekki. Páll sagði um þjónustu kristinna manna: „Þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.“ (2. Kor. 4:7) Páll gerði sér grein fyrir því að það var aðeins í krafti Guðs sem hann gat innt þjónustu sína af hendi. — Ef. 6:19, 20; Fil. 4:13.
4 Við viðurkennum líka að það er aðeins vegna þess að „Guð hefur hjálpað“ okkur að fagnaðarerindið er boðað um heim allan. (Post. 26:22) Með þessu boðunarstarfi notar Jehóva okkur til að hræra þjóðirnar kröftuglega en það er undanfari hins komandi dóms sem hefur mikla eyðingu í för með sér. (Hagg. 2:7) Okkur er mikill heiður að fá að vera „samverkamenn Guðs“ í hinni stórkostlegu andlegu uppskeru. — 1. Kor. 3:6-9.