Við verðum að virða yfirvald Jehóva
Við hvað tengir þú nöfnin Kóra, Datan og Abíram? Við uppreisn gegn yfirvaldi sem Guð hafði skipað. Nánari lýsing á átakanlegri sögu þeirra er að finna í 4. Mósebók 16. kafla og yfirferð yfir efnið birtist í greininni „Hlýðum þeim sem Guð hefur falið forystu“ í Varðturninum 1. september 2002. Það er gagnlegt og umhugsunarvert að lesa söguna og horfa síðan á hana af myndbandinu Respect Jehovah’s Authority (Virðum yfirvald Jehóva). Á myndbandinu sjást vel átökin sem áttu sér stað milli hins uppreisnargjarna Kóra og trúfastra sona hans, en Kóra setti sig einmitt upp á móti Drottni alheims. (4. Mós. 26:9-11) Leikritið er byggt á sannsögulegum atburðum og ætti að hvetja okkur öll til að sýna Jehóva enn meiri hollustu.
Kóra og hinir uppreisnarseggirnir sýndu óhollustu á sex mikilvægum sviðum. Reyndu að koma auga á þau þegar þú horfir á myndbandið: (1) Að hvaða leyti óvirtu þeir yfirvaldið sem Guð hafði skipað? (2) Hvernig náði stolt, metnaður og öfund tökum á þeim? (3) Hvernig einblíndu þeir á ófullkomleika þeirra sem Jehóva hafði falið forystu? (4) Hvaða viðhorf höfðu þeir tamið sér? (5) Hvers vegna urðu þeir óánægðir með þjónustuverkefnin sem þeim höfðu verið falin? (6) Á hvaða hátt tóku þeir fjölskyldu og vini fram yfir hollustuna við Jehóva?
Veltu fyrir þér hvernig viðhorf okkar til þeirra sem fara með forystu í söfnuðinum tengist því sem við lærum af biblíuleikritinu: (1) Hvernig ættum við að bregðast við ákvörðunum safnaðaröldunga og hvers vegna? (2) Hvernig getum við barist gegn óviðeigandi hvötum sem bærast innra með okkur? (3) Hvernig ættum við að líta á ófullkomleika þeirra sem fara með forystu? (4) Hvað ættum við að gera ef kvörtunarsemi hreiðrar um sig í hjarta okkar? (5) Hvað ætti okkur að finnast um þjónustuverkefnin sem okkur hafa verið falin? (6) Hverja ættum við aldrei að taka fram yfir hollustuna við Jehóva og hvenær gæti það reynst okkur erfitt?
Við hvetjum þig eindregið til að horfa aftur á myndbandið þegar farið hefur verið yfir þetta efni í söfnuðinum. Þá skaltu festa enn betur í huga hvers vegna við verðum alltaf að virða yfirvald Jehóva. — Sálm. 18:26; 37:28.