Dagskrá fjölskyldunnar — boðunarstarfið
1 Jehóva hefur yndi af því að sjá ungt fólk lofa nafn hans. (Sálm. 148:12, 13) Á dögum Jesú færðu jafnvel ‚börn og brjóstmylkingar‘ Guði lof. (Matt. 21:15, 16) Hið sama á sér stað nú á dögum. Foreldrar, hvernig getið þið hjálpað börnum ykkar að vera dugleg að lofa Jehóva í boðunarstarfinu? Eins og fram kom í greininni á undan, sem fjallaði um safnaðarsamkomur, er grundvallaratriði að gefa gott fordæmi. Faðir nokkur talar fyrir munn allra foreldra þegar hann segir: „Börnin gera ekki eins og maður segir heldur eins og maður gerir.“
2 Systir, sem var alin upp af guðhræddum foreldrum, segir: „Þegar við vöknuðum á laugardagsmorgnum þurftum við aldrei að spyrja hvort við færum í starfið. Við vissum að við gerðum það.“ Þú getur einnig brýnt mikilvægi boðunarstarfsins fyrir börnunum með því að sjá til þess að fjölskyldan fari vikulega saman í boðunarstarfið. Þetta gefur börnunum ekki aðeins tækifæri til að læra af þér heldur getur þú einnig fylgst með viðhorfum þeirra, hegðun og framförum.
3 Markviss þjálfun: Til að börnin hafi gaman af boðunarstarfinu verða foreldrarnir að búa þau undir að taka virkan þátt í því. Systirin, sem vitnað var í hér á undan, segir einnig: „Við fórum ekki aðeins með foreldrum okkar í þeirra starf. Við vissum að við áttum að taka þátt í því, jafnvel þótt það fælist aðeins í því að hringja dyrabjöllunni og afhenda boðsmiða. Við vissum hvað við áttum að segja því að við fengum góðan undirbúning fyrir hverja helgi.“ Þú getur þjálfað börnin þín á svipaðan hátt með því að nota nokkrar mínútur í hverri viku til að búa þau undir boðunarstarfið, annaðhvort í fjölskyldunáminu eða við önnur tækifæri.
4 Þegar fjölskyldan fer saman í boðunarstarfið fáið þið foreldrarnir aukin tækifæri til að brýna sannleikann fyrir börnunum. Faðir nokkur tók dóttur sína með sér þegar hann gekk 10 kílómetra leið yfir í næsta dal til að bjóða þorpsbúum smárit. Hún hugsar með hlýju til þessara stunda og segir: „Það var á þessum gönguferðum sem pabbi kenndi mér að elska sannleikann.“ (5. Mós. 6:7) Þið munið einnig njóta blessunar ef þið hafið boðunarstarfið hluta af vikulegri dagskrá fjölskyldunnar.