Dagskrá fjölskyldunnar — fjölskyldunámið
1 Stærsta gjöfin, sem kristnir foreldrar geta gefið börnum sínum, er að hjálpa þeim að elska Jehóva líkt og þeir sjálfir gera. Mikilvægur vettvangur er heima fyrir í vikulega fjölskyldunáminu. (5. Mós. 6:5-7) Hvort sem maki þinn er í trúnni eða þú býrð á trúarlega skiptu heimili eða ert einstætt foreldri geturðu hjálpað börnunum að eignast nánara samband við þig og Jehóva með því að hafa reglulegt fjölskyldunám.
2 Hvar á að byrja? Fyrsta skrefið er að koma þeirri venju á að nema saman sem fjölskylda. Ef þú ert ekki viss um á hvaða tíma námið ætti að vera gæti verið gott að fjölskyldan ræddi saman um það. (Orðskv. 15:22) Ef börnin eru ung telurðu ef til vill betra að hafa nokkrar stuttar námsstundir í vikunni. Finndu út hvað hentar fjölskyldunni best. Ákveddu hvenær fjölskyldunámið á að vera og haltu þér fast við þann tíma.
3 Hvað væri hægt að nema? Sumir fara yfir efnið sem verður til umfjöllunar í næsta safnaðarbóknámi eða Varðturnsnámi. Aðrir fara yfir efni sem er sérstaklega ætlað börnum. Faðir, sem á ungan son og dóttur, sagði: „Eitt af því sem gerir námið að tilhlökkunarefni fyrir börnin er að við leikum atriði úr Biblíusögubókinni minni. Það skiptir mun meira máli að börnin skilji efnið og að það hafi áhrif á þau en hversu margar greinar við förum yfir.“
4 Nemið í hverri viku: Fjölskyldunámið ætti að vera reglulegt og allir í fjölskyldunni ættu að hlakka til þess. Óvæntar aðstæður geta vissulega komið upp og þá getur þurft að gera breytingar á námstímanum. Stundum getur einnig þurft að taka fyrir annað námsefni. En dagskrá fjölskyldunnar ætti ekki að raskast um langan tíma þó að einhver frávik séu nauðsynleg. Dóttir á einu heimili segir: „Ef það er nauðsynlegt að breyta námstímanum skrifar pabbi alltaf nýja tímann á ísskápinn þannig að allir viti hvenær námið verður haldið.“ Það er hrósvert þegar fjölskyldur leggja sig þannig fram um að hafa námið reglulegt. Með því að halda áfram að ala börnin upp „með aga og umvöndun Drottins“ tjáir þú bæði kærleika þinn til þeirra og föður okkar á himnum. — Ef. 6:4.