10. hluti: Árangursrík biblíunámskeið
Þjálfaðu nemandann í boðunarstarfinu
1 Þegar öldungarnir telja biblíunemandann hæfan til að verða óskírður boðberi getur hann byrjað að taka þátt í boðunarstarfinu með söfnuðinum. (Sjá Söfnuður skipulagður til að gera vilja Jehóva, bls. 79-81.) Hvernig getum við hjálpað nemandanum að stíga það stóra skref að fara í starfið hús úr húsi?
2 Undirbúið ykkur saman: Ekkert kemur í staðinn fyrir góðan undirbúning. Sýndu nemandanum hvar hann getur fundið tillögur að kynningarorðum í Ríkisþjónustu okkar og Reasoning from the Scriptures (Rökræðubókinni). Hjálpaðu honum að velja einföld kynningarorð sem henta á svæðinu. Hvettu hann strax frá upphafi til að nota Biblíuna í starfinu. — 2. Tím. 4:2.
3 Það er mjög gagnlegt fyrir nýjan boðbera að æfa sig. Þegar nemandinn æfir kynningarorðin skaltu sýna honum hvernig hann getur brugðist háttvíslega við algengum viðbrögðum á svæðinu. (Kól. 4:6) Fullvissaðu hann um að kristnir boðberar þurfi ekki að vita svarið við öllum hugsanlegum spurningum húsráðanda. Oft er best að bregðast við slíkum spurningum með því að bjóðast til að rannsaka málið og koma aftur seinna. — Orðskv. 15:28.
4 Farið saman út í starfið: Þegar nemandinn tekur þátt í starfinu hús úr húsi í fyrsta skipti skaltu leyfa honum að fylgjast með á meðan þú notar kynninguna sem þið undirbjugguð saman. Láttu hann síðan taka þátt í kynningunni. Stundum er betra að fá nýja boðberann til að fara einungis með hluta af kynningu, eins og að lesa ritningarstað og gefa athugasemd. Taktu mið af persónuleika og getu nemandans. (Fil. 4:5) Vertu óspar á hrós og þjálfaðu hann jafnt og þétt í hinum ýmsu greinum boðunarstarfsins.
5 Það er mikilvægt að hjálpa nýjum boðbera að búa sér til fasta stundaskrá fyrir boðunarstarfið, helst þannig að hann hafi tíma fyrir það í hverri viku. (Fil. 3:16) Taktu frá fastan tíma til að starfa með nemandanum og hvettu hann til að starfa líka með öðrum duglegum boðberum. Félagsskapur þeirra og gott fordæmi mun hjálpa honum að verða færari í starfinu hús úr húsi og hafa ánægju af því.