Hjálpaðu börnunum að taka framförum í boðunarstarfinu
1 Sú mikla ábyrgð hvílir á kristnum foreldrum að kenna börnunum að taka þátt í boðunarstarfinu frá unga aldri. Það má gera á ýmsa vegu. Sum börn geta jafnvel farið með viðeigandi ritningarstað áður en þau eru læs. Það getur haft mikil áhrif á áheyrendur. Þegar börnin eldast geta þau gert enn þá meira í boðunarstarfinu. Foreldrar, hvernig getið þið hjálpað þeim að taka þátt í starfinu? Ef til vill koma eftirfarandi tillögur að gagni.
2 Eftir að hafa heilsað gætir þú sagt:
◼ „Þetta er [nafn], sonur minn, hann langar til að vekja athygli þína á mikilvægum ritningarstað.“ Barnið gæti sagt: „Ég lærði af þessum ritningarstað hvað Guð heitir. [Barnið les eða fer með 2. Mós. 6:3 og vísar í neðanmálsathugasemd.] Þessi blöð fjalla um það sem Jehóva Guð ætlar að gera fyrir okkur. Má ég láta þig fá þessi blöð?“ Þú gætir lokið samtalinu á því að útskýra hvernig boðunarstarfið er styrkt um allan heim.
3 Þú gætir einnig prófað þessa aðferð:
◼ „Góðan daginn, ég er að kenna [nafn], dóttur minni, að bera umhyggju fyrir hag annarra í samfélaginu. Hana langar stuttlega til að vekja athygli þína á biblíuversi.“ Hún gæti sagt: „Mig langar að hjálpa fólki með því að segja því frá framtíðarvoninni í Biblíunni. [Barnið les eða fer með ritningarstaðinn í Opinberunarbókinni 21:4.] Í þessum blöðum er bent á það sem Guðsríki mun gera fyrir okkur. Ég er viss um að þú hefðir gaman af því að lesa þau.“
4 Þegar börn nota einfaldar kynningar að staðaldri finnst þeim smám saman að þau geti boðað fagnaðarerindið af öryggi. Æfingar í að tala hátt og skýrt í starfinu gera þau fær um að tala við alls konar aðstæður. Góður undirbúningur og einlægt hrós auðveldar börnum að tala um trú sína.
5 Slík hvatning hefur stuðlað að því að mörg börn hafa getað orðið óskírðir boðberar. Það er mjög ánægjulegt að sjá börnin okkar taka framförum í boðunarstarfinu. — Sálm. 148:12, 13.