Uppbyggið hvert annað
1 Páll postuli gerði allt sem hann gat til að styrkja meðbræður sína. (Post. 14:19-22) Við látum okkur það einnig varða þegar trúsystkini okkar eiga við erfiðleika að stríða og viljum hjálpa þeim. Í Biblíunni er okkur bent á að það eru ekki aðeins öldungarnir sem eiga að láta sér annt um aðra heldur við öll. (Rómv. 15:1, 2) Við skulum athuga hvernig við getum á tvo vegu fylgt þessari kærleiksríku áminningu: „Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan.“ — 1. Þess. 5:11.
2 Umhugað um þarfir annarra: Orð Guðs segir frá því að Dorkas hafi verið „mjög góðgerðasöm og örlát við snauða“. (Post. 9:36, 39) Hún tók eftir þeim sem áttu bágt og gerði eins og hún gat til að hjálpa þeim. Hún er okkur góð fyrirmynd. Þú veist kannski af eldri manneskju sem þarf að fá far á samkomu. Vera má að brautryðjanda vanti samstarf í boðunarstarfinu síðdegis einhvern daginn. Hugsaðu þér hve uppörvandi það er þegar þú kemur auga á slíka þörf og býður fram aðstoð þína.
3 Umræður um andleg málefni: Við getum líka verið uppbyggjandi með tali okkar. (Ef. 4:29) Reyndur öldungur sagði: „Langi þig til að vera uppörvandi skaltu tala um andleg málefni. Þú gætir notað einfalda spurningu til að hefja uppbyggilegar samræður eins og til dæmis: „Hvernig kynntist þú sannleikanum?“ Sýndu unga fólkinu í söfnuðinum einlægan áhuga. Sýndu niðurdregnum umhyggju og eigðu frumkvæðið að því að tala við þá sem eru feimnir. Láttu ekki umræður um afþreyingu koma í veg fyrir að þú ræðir við trúsystkini um andleg málefni. — Rómv. 1:11, 12.
4 En hvað geturðu sagt til að byggja aðra upp? Fannstu nýlega meginreglu sem jók á þakklæti þitt til Jehóva þegar þú last í Biblíunni? Snerti þig eitthvað sérstaklega sem þú heyrðir í opinberum fyrirlestri eða í Varðturnsnáminu? Eða varstu snortinn af frásögu sem styrkti trú þína? Ef þú varðveitir slík andleg verðmæti hefurðu alltaf eitthvað uppörvandi til að miðla öðrum. — Orðskv. 2:1; Lúk. 6:45.
5 Við skulum halda áfram að byggja hvert annað upp með því að bjóða fram aðstoð þegar þörf krefur og nota tunguna viturlega. — Orðskv. 12:18.