Hjálpum öðrum að verða „af hjarta hlýðnir“
1. Hvers krefst Jehóva af tilbiðjendum sínum?
1 Hlýðni er nauðsynleg til að Jehóva hafi velþóknun á tilbeiðslu okkar. (5. Mós. 12:28; 1. Pét. 1:14-16) Dómur Guðs kemur bráðlega „yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu“. (2. Þess. 1:8) Hvernig getum við hjálpað öðrum að verða „af hjarta hlýðnir“ þeim kenningum sem er að finna í orði Guðs? — Rómv. 6:17.
2. Hvers vegna er mikilvægt að hjálpa öðrum að byggja upp sterka trú?
2 Hjálpum öðrum að byggja upp trú og kærleika: Í Ritningunni er hlýðni oft sett í samband við trú. Páll postuli talaði um „skipun hins eilífa Guðs . . . til að vekja hlýðni við trúna“. (Rómv. 16:26) Ellefti kafli Hebreabréfsins nefnir marga sem sýndu trú og breyttu í samræmi við yfirlýstan vilja Jehóva. (Hebr. 11:7, 8, 17) Hins vegar er óhlýðni sett í samband við skort á trú. (Jóh. 3:36; Hebr. 3:18, 19) Við þurfum að verða færari í því að nota orð Guðs. Þannig getum við hjálpað öðrum að byggja upp trú sem stuðlar að hlýðni. — 2. Tím. 2:15; Jak. 2:14, 17.
3. (a) Hvernig tengist hlýðni kærleika? (b) Hvernig getum við hjálpað biblíunemendum að þroska með sér kærleika til Jehóva?
3 Hlýðni er líka nátengd kærleika til Guðs. (5. Mós. 5:10; 11:1, 22; 30:16) Í 1. Jóhannesarbréfi 5:3 segir: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ Hvernig getum við aðstoðað biblíunemendur að þroska með sér kærleika til Jehóva? Meðan á námskeiðinu stendur skaltu leita færis að kenna nemandanum að meta eiginleika Jehóva. Lýstu hvaða tilfinningar þú berð til Guðs. Hvettu nemandann til að hugsa um að hann þurfi að byggja upp persónulegt samband við Jehóva. Það er fyrst og fremst kærleikur til Jehóva sem hvetur aðra, og líka okkur sjálf, til að hlýða honum af öllu hjarta. — Matt. 22:37.
4. (a) Hvers vegna er fordæmi okkar mikilvægt? (b) Hvað verðum við að gera til að temja okkur „hlýðið hjarta“?
4 Með fordæmi okkar: Fordæmi okkar er öflug leið til að hvetja aðra til að hlýða fagnaðarerindinu. En við þurfum stöðugt að vinna að því að temja okkur hlýðið hjarta. (1. Kon. 3:9, NW; Orðskv. 4:23) Hvað felur það í sér? Við þurfum að næra hjartað með reglulegum biblíulestri og samkomusókn. (Sálm. 1:1, 2; Hebr. 10:24, 25) Leitaðu félagsskapar þeirra sem eru sameinaðir í sannri tilbeiðslu. (Orðskv. 13:20) Taktu reglulega þátt í boðunarstarfinu af einlægri löngun til að hjálpa fólkinu á svæðinu. Biddu Jehóva um að hjálpa þér að öðlast gott hjarta. (Sálm. 86:11) Forðastu það sem getur spillt hjartanu eins og siðlausa eða ofbeldisfulla afþreyingu. Leitastu við að gera það sem færir þig nær Guði og styrkir sambandi þitt við hann. — Jak. 4:7, 8.
5. Hvaða blessun hlýtur hlýðið fólk?
5 Jehóva fullvissaði fólk sitt til forna um að það myndi hljóta blessun ef það hlýddi raust hans. (5. Mós. 28:1, 2) Jehóva blessar sömuleiðis þá „er honum hlýða“ nú á dögum. (Post. 5:32) Hjálpum því öðrum með kennslu okkar og fordæmi að verða „af hjarta hlýðnir“.