Sýnum persónulegan áhuga með því að bera fram spurningar og leggja við hlustir
1 Flestir vilja gjarnan láta í ljós skoðanir sínar en þeim mislíkar þegar lesið er yfir þeim eða þeir yfirheyrðir. Við þurfum því sem kristnir boðberar að læra að spyrja spurninga sem fá fólk til að tjá skoðanir sínar. — Orðskv. 20:5.
2 Spurningarnar ættu að vera hvetjandi — ekki letjandi. Þegar bróðir nokkur vitnar hús úr húsi er hann vanur að spyrja: „Heldurðu að þeir tímar komi þegar fólk sýni hvert öðru virðingu og tillitsemi?“ Hann fylgir svarinu eftir og spyr: „Hvað heldurðu að þurfi til að svo verði?“ eða „Hvers vegna heldur þú það?“ Þegar annar bróðir vitnar óformlega og í götustarfinu er hann vanur að spyrja þá sem eiga börn: „Hvað veitir þér mesta ánægju sem foreldri?“ Síðan spyr hann: „Hvað veldur þér mestum áhyggjum?“ Taktu eftir að þessar spurningar gefa fólki möguleika á að tjá sig án þess að því sé sýnd ágengni. Þar sem kringumstæður eru breytilegar gætum við þurft að laga efnið og spurnartóninn að íbúum svæðisins.
3 Að fá fólk til að tjá sig: Sé fólk tilbúið til að tjá sig skaltu hlusta með þolinmæði án þess að grípa fram í að nauðsynjalausu. (Jak. 1:19) Taktu vingjarnlega undir athugasemdir þeirra. (Kól. 4:6) Þú gætir einfaldlega sagt: „Þetta er áhugavert. Þakka þér fyrir að segja mér þetta.“ Hrósaðu þeim ef þú getur gert það af einlægni. Spurðu fleiri spurninga á vingjarnlegan hátt til að komast að því hvað þeir hugsi og hvers vegna. Leitaðu eftir sameiginlegu áhugaefni. Þegar þig langar til að beina athygli þeirra að ritningarstað gætirðu sagt: „Hefurðu nokkurn tíma leitt hugann að þessum möguleika?“ Forðastu að vera einstrengingslegur eða þrætugjarn. — 2. Tím. 2:24, 25.
4 Svar fólks við spurningum okkar getur farið eftir því hvernig við hlustum. Það getur skynjað hvort við hlustum einlæglega. Farandhirðir sagði: „Það er ótrúlega áhrifaríkt þegar maður er fús til að hlusta rólegur á fólk og það ber einstakan vott um persónulegan áhuga.“ Þegar við hlustum á það sem aðrir hafa að segja veitum við þeim virðingu. Það gæti fengið þá til að hlusta á fagnaðarerindið sem við erum að miðla. — Rómv. 12:10.