Hjálpið öðrum að njóta góðs af lausnargjaldinu
Minningarhátíðin um dauða Krists verður haldin 12. apríl
1. Hvernig getur fólk Guðs meðal annars látið í ljós þakklæti fyrir lausnargjaldið?
1 „Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!“ (2. Kor. 9:15) Þessi orð lýsa vel hvað okkur finnst um gæsku Guðs og þá ástúðlegu umhyggju sem hann sýnir fólki sínu fyrir milligöngu Jesú Krists, sonar síns. Slíkt þakklæti kemur skýrt í ljós þegar við söfnumst saman 12. apríl til að vera viðstödd minningarhátíðina um dauða Krists.
2. Hverjir mæta ásamt þjónum Jehóva á minningarhátíðina og hvað þurfa þeir að gera til þess að njóta góðs af lausnargjaldinu?
2 Auk þjóna Jehóva mæta ár hvert um tíu milljónir manna á minningarhátíðina. Það ber vott um að þeir séu að sínu leyti þakklátir fyrir fórn Krists. Þeir þurfa samt að iðka trú á lausnargjaldið til þess að njóta góðs af því. (Jóh. 3:16, 36) Hvernig getum við hjálpað þeim að öðlast slíka trú? Á tímabilinu kringum minningarhátíðina getum við hvatt þá til að stunda sjálfsnám í Biblíunni og koma á vikulegar safnaðarsamkomur. Förum yfir eftirfarandi uppástungur.
3. Hvernig er hægt að hefja biblíunámskeið hjá þeim sem við höfum boðið á minningarhátíðina?
3 Biblíunámskeið: Þegar þú býður áhugasömu fólki á minningarhátíðina er þá ekki tilvalið að bjóða þeim biblíunámskeið með hjálp bókarinnar Hvað kennir Biblían? Þú getur boðist til að útskýra hvað minningarhátíðin felur í sér með því að fletta upp á blaðsíðum 206-8 og fara yfir efnið „Kvöldmáltíð Drottins — haldin til heiðurs Guði.“ Hægt er að fara yfir efnið í einni eða tveimur heimsóknum eða þá sem biblíunámskeið við dyrnar. Þegar því er lokið gæti viðmælandinn haft áhuga á að ræða efni 5. kaflans, „Lausnargjaldið — mesta gjöf Guðs“. Farðu síðan yfir fyrstu fjóra kaflana þegar biblíunámskeiði hefur verið komið af stað.
4. Hverjum getum við boðið biblíunámskeið dagana kringum minningarhátíðina?
4 Hverjum getum við boðið biblíunámskeið með því að nota þessa aðferð? Ef til vill væri vinnufélagi, skólasystkin eða nágranni til í að ræða slík mál. Bræður gætu hitt vantrúaða eiginmenn systra í söfnuðinum. Og lítum ekki fram hjá þeim ættingjum okkar sem eru ekki vottar. Auk þess viljum við leggja okkur sérstaklega fram um að bjóða á minningarhátíðina þeim sem einu sinni voru virkir í söfnuðinum. (Lúk. 15:3-7) Reynum að hjálpa þeim öllum að njóta góðs af lausnargjaldinu.
5. Hvernig er hægt að hvetja biblíunemendur og annað áhugasamt fólk til að koma á vikulegu samkomurnar?
5 Safnaðarsamkomur: Minningarhátíðin er fyrsta samkoman sem margir biblíunemendur og annað áhugasamt fólk mætir á. Hvernig er hægt að hvetja þau til að koma á aðrar samkomur? Í Ríkisþjónustu okkar í apríl 2005 á bls. 8 voru eftirfarandi uppástungur: „Láttu hann vita hvað næsti opinberi fyrirlestur heitir. Sýndu honum bóknámsefnið og þá grein sem farið verður yfir í Varðturnsnáminu. Lýstu Boðunarskólanum og þjónustusamkomunni. Þegar þér er falið verkefni í skólanum gætirðu kannski æft það með honum. Segðu honum frá athyglisverðum upplýsingum sem komu fram á samkomunum. Notaðu myndir í ritum okkar svo að hann geti séð fyrir sér hvernig þær fara fram. Bjóddu honum á samkomu strax í fyrstu biblíunámsstund.“
6. Á hvern hátt getum við hjálpað einlægu fólki að njóta góðs af lausnargjaldinu? Nefndu tvennt.
6 Þegar einlægt fólk þiggur biblíunámskeið og kemur stöðugt á samkomur tekur það oft örum framförum í trúnni. Hvetjum því aðra til að nýta sér andlegar gjafir Guðs og njóta góðs af bestu gjöf hans — lausnargjaldinu.